Lifrarbólga
Lifrarbólga felur í sér að lifrin bólgnar. Sumir fá engin einkenni, aðrir fá gulleita húð og augu, minni matarlyst, ógleði og uppköst, hita, kviðverki og gulusótt.[1][2][3]
Lifrarbólga getur verið bráð eða langvinn. Bráð lifrarbólga getur læknast af sjálfu sér, eða orðið að langvinnri lifrarbólgu. Sjaldgæft er að bráð lifrarbólga leiði til bráðrar lifrarbilunar. Langvinn lifrarbólga getur leitt til öramyndunar í lifrinni, lifrarbilunar, eða lifrarkrabbameins.
Algengasta orsök lifrarbólgu eru veirur.[1][3] Aðrar orsakir geta verið áfengissýki, sum lyf, eiturefni, aðrar sýkingar, sjálfsofnæmissjúkdómar, og fitulifur.
Hægt er að greina bólgu í lifur með blóðprufu. Hægt er að meðhöndla langvinna lifrarbólgu með lyfjum.[2] Ekki er til meðferð við fitulifur fyrir utan það að hætta að drekka áfengi og halda við heilbrigðum lífstíl. Lifrarbólgu af völdum sjálfsofnæmis má meðhöndla með lyfjum sem bæla ónæmiskerfið. Í sumum tilfellum getur lifrarígræðsla verið ákjósanleg.[4]
Árið 2015 voru 114 milljón manns með lifrarbólgu A, 343 milljónir með lifrarbólgu B, og 142 milljónir með lifrarbólgu C.[5] Á hverju ári deyja um milljón manns í heiminum úr lifrarbólgu, oftast vegna öramyndunar í lifur eða lifrarkrabbameins.[1]
Bandaríski örverufræðingurinn Maurice Ralph Hilleman (1919 - 2005) þróaði bóluefni gegn bæði lifrarbólgu A og lifrarbólgu B.
Lifrarbólguveirurnar
[breyta | breyta frumkóða]Til eru fimm flokkar óskyldra lifrarbólguveira: A, B, C, D og E.
- Lifrarbólga A og E dreifast með saurmenguðu vatni og mat.
- Lifrarbólga B er kynsjúkdómur en getur líka smitast frá móður til barns.
- Lifrarbólga B og C smitast oft með blóði og eru því algeng sýking hjá eiturlyfjanotendum sem deila nálum.
- Lifrarbólga D er getur aðeins sýkt þá sem eru nú þegar með lifrarbólgu B. Veiran er óalgeng í vestrænum ríkjum en er hættuleg.
Hægt er að koma í veg fyrir lifrarbólgu A, B, og D með bólusetningu.
Til eru aðrar veirur sem geta valdið bólgu í lifur, t.d. stórfrumuveiran (cytomegaloveiran), Epstein-Barr veiran, og gulusótt.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 1,2 „Hepatitis“. NIAID. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. nóvember 2016. Sótt 2. nóvember 2016.
- ↑ 2,0 2,1 „Hepatitis“. MedlinePlus. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. nóvember 2016. Sótt 10. nóvember 2016.
- ↑ 3,0 3,1 „What is hepatitis?“. WHO. júlí 2016. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. nóvember 2016. Sótt 10. nóvember 2016.
- ↑ „Liver Transplant“. NIDDK. apríl 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 11 nóvember 2016. Sótt 10. nóvember 2016.
- ↑ „Global, regional, and national incidence, prevalence, and years lived with disability for 310 diseases and injuries, 1990–2015: a systematic analysis for the Global Burden of Disease Study 2015“. The Lancet. 388 (10053): 1545–1602. október 2016. doi:10.1016/S0140-6736(16)31678-6. PMC 5055577. PMID 27733282.