Lýðræðisleg fyrirtæki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Lýðræðisleg fyrirtæki eru fyrirtæki í eigu starfsmanna þeirra. Lýðræðisleg fyrirtæki eru vel þekkt, t.d. á Spáni og á Ítalíu, þar sem þau eru til í þúsundatali.

Lýðræðisleg fyrirtæki eru ólík hefðbundnum fyrirtækjum að því leytinu til að hefðbundin fyrirtæki eru yfirleitt í eigu fámenns hóps fólks, eða jafnvel í eigu stofnana (svo sem lífeyrissjóða), en lýðræðisleg fyrirtæki eru í eigu starfsmanna sinna og engra annarra.[1] Þannig fellur allur arður af rekstri slíkra fyrirtækja til starfsmannanna, en ekki eigenda sem jafnvel vinna ekki fyrir fyrirtækin. Lýðræðisleg fyrirtæki einkennast jafnframt af því að þeim er stjórnað af starfsmönnunum, hvort sem er í gegnum bein lýðræðisferli eða fulltrúalýðræði (s.s., með kosningu í stjórn fyrirtækjanna), á meðan að í flestum hefðbundnum fyrirtækjum hafa starfsmennirnir ekki atkvæðisrétt. Í lýðræðislegum fyrirtækjum ná völd starfsmannanna yfirleitt til stærri ákvarðana og almennrar stefnumótunar, en síður til smáatriða í daglegum rekstri.

Að öðru leyti eru lýðræðisleg fyrirtæki áþekk öðrum fyrirtækjum, og taka þau þátt í markaðnum eins og önnur fyrirtæki. Slík fyrirtæki stunda ýmiss konar atvinnustarfsemi, allt frá framleiðslu til þjónustustarfsemi. Lýðræðisleg fyrirtæki eru talin vera um 25 þúsund á Ítalíu, 17 þúsund á Spáni, um 2.000 í Frakklandi og milli 500 til 600 í Bretlandi.[2]

Meðal þekktra fyrirtækja sem rekin eru á lýðræðislegum grunni má nefna Mondrágon, en það er samsteypa með höfuðstöðvar á Spáni og teygir sig langt út fyrir heimalandið. Starfsemi Mondrágon nær til verslana, framleiðslu og fjármála.[3]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Eric Olin Wright (2010). Envisioning Real Utopias. Verso. bls. 237-238. ISBN 978-1844676170.
  2. Virginie Pérotin (e.d.). What do we really know about worker co-operatives? (PDF). Co-operatives UK.
  3. Wright (2010).