Fara í innihald

Lína langsokkur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Lína Langsokkur)
Lína langsokkur
Inger Nilsson (1968)
Lína býr ein með apanum Níels og hesti í húsinu Sjónarhóli

Lína langsokkur (fullu nafni Sigurlína Rúllugardína Nýlendína Krúsimunda Efraímsdóttir langsokkur) er aðalpersóna í bókaflokki sænska rithöfundarins Astrid Lindgren.

Lína er rauðhærð, freknótt, fjörug og óútreiknanleg og svo sterk að hún getur lyft hesti sínum með annarri hendi. Hún býr í húsinu Sjónarhóli ásamt hesti og apanum Herra Níels.

Fyrstu þrjár bækurnar um Línu komu út í Svíþjóð á árunum 1945-1948. Síðar komu út þrjár smásögur og nokkrar myndskreyttar bækur um Línu. Árið 2018 höfðu bækurnar verið þýddar á 76 tungumál auk þess sem fjöldi kvikmynda og sjónvarpsþátta hafa verið gerðir.

Sagan af Línu

[breyta | breyta frumkóða]

Lina langsokkur er níu ára gömul. Í upphafi sögunnar flytur hún í húsið Sjónarhól sem hún deilir með hesti sínum og apanum Herra Níels og fljótlega kynnist hún nágrannakrökkunum Tomma og Önnu. Með ferðatösku fulla af gullpeningum nær hún að lifa sjálfstæðu lífi án foreldra, en móðir hennar lést skömmu eftir fæðingu Línu og faðir hennar skipstjórinn er ekki nálægur.

Þrátt fyrir tilraunir yfirvalda í þorpinu til að færa líf Línu í þann farveg sem þau telja henta börnum, þá lifir Lína hamingjusöm og sjálfstæð og lætur hugmyndir yfirvalda um hvað börnum sé fyrir bestu, sem vind um eyru þjóta.

Astrid Lindgren sagði að hún hafi viljað skapa kraftmikla persónu sem misnotar ekki styrk sinn og kraft. Lína er sjálfskipuð sterkasta stelpa í heimi og beitir ýmsum aðferðum til að leysa ágreining og vernda önnur börn gegn einelti en hún beitir aldrei ofbeldi eða fer illa með krafta sína og styrk. Línu hefur verið lýst sem hjartahlýrri stelpu og ríkri af samkennd. Hún er sögð góð, klár, snillingur, fjörug og fyndin.

Lína verður til

[breyta | breyta frumkóða]

Segja má að sögupersónan Lína hafi orðið til á rúmstokki rithöfundarins en Astrid hóf að segja Karin dóttur sinni söguna af Línu árið 1941. Karin var rúmliggjandi vegna veikinda og Astrid sagði henni sögur af uppátækjasamri stelpu sem Karin ákvað að yrði nefnd Lína Langsokkur. Sem barn tengdi Karin meira við Önnu og Tomma heldur en Línu, sem henni fannst vera ólík sér. Sögurnar af Línu voru fastur punktur í heimilislífinu hjá fjölskyldu Astridar og vinir Karinar og frændfólk naut þess að heyra sögur af Línu. Árið 1944 ákvað Astrid að skrá söguna á blað og handskrifaði hana, en það var aðferð sem hún notaði allan sinn feril. Astrid útbjó tvö eintök af sögunni um Línu, eitt handa dóttur sinni og annað sem hún fór með til útgefanda. Ekki vildi betur til en svo að útgefandinn hafnaði verkinu. Astrid snéri sér til annars útgefanda í maí árið 1945 en hann ráðlagði henni að gera smávægilegar breytingar á sögunni sem Astrid varð við, og bókin kom út í nóvember árið 1945. Tvær bækur til viðbótar fylgdu í kjölfarið og komu þær út árin 1946 og 1948. Þrjár myndskreyttar bækur komu svo út árin 1950, 1971 og sú síðasta árið 2001.

Áhrif Línu

[breyta | breyta frumkóða]

Fljótlega eftir útgáfu fyrstu bókarinnar varð Lína langsokkur afar vinsæl í Svíþjóð. Í lok fimmta áratugarins höfðu 300.000 eintök selst og velgengni bókanna hafði jákvæð áhrif á útgáfufyrirtækið sem áður hafði staðið frammi fyrir fjárhagserfiðleikum. Markaðssetning bókanna var góð og mikið var fjallað um hana og lesið upp úr henni í útvarpi. Leikgerð bókarinnar var sett á svið í barnaleikhúsi í Stokkhólmi þar sem framvísun bókasafnskorts gilti sem aðgöngumiði. Bókin hlaut almennt góða dóma hjá sænskum bókmenntagagnrýnendum og sérfræðingum í barnamenningu en þó voru ekki allir á eitt sáttir um ágæti hennar og úr hópi sænskra gagnrýnenda heyrðust þær raddir að sagan væri illa samin, skaðleg börnum og að Lína ætti við andlega erfiðleika að etja.

Árið 1950 var Lína langsokkur þýdd og útgefin á ensku og var sala bókanna dræm í upphafi. Í kjölfarið voru bækurnar þýddar á fleiri tungumál og jafnvel ritskoðaðar í sumum löndum. Í franskri ritskoðaðri útgáfu birtist Lína sem fínleg ung kona í staðinn fyrir hina sterku og sjálfstæðu stelpu sem birtist í hinni upprunalegu sænsku útgáfu. Franski útgefandinn taldi að sá hæfileiki Línu að gefa lyft hesti yrði ótrúverðugt uppátæki í augum franskra barna, svo hestinum var breytt í smáhest. Viðbrögð Astridar við þessari breytingar voru að krefja útgefandinn um ljósmynd af raunverulegri franskri stúlku að lyfta smáhesti - og bætti því við að það barn myndi eiga tryggan lyftingaferil framundan!

Sagan af Línu langsokk hafði ekki sömu áhrif í Frakklandi og í öðrum löndum, t.d. Þýskalandi og Svíðþjóð. Það var t.d. ekki fyrr en árið 1995 sem óritskoðuð útgáfa bókarinnar var gefin út í Frakklandi.

Í febrúar árið 1969 hófust sýningar á sænskri sjónvarpsþáttaröð sem byggðist á sögunni af Línu langsokk.

Lína í dag

[breyta | breyta frumkóða]

Í dag er Lína langsokkur með vinsælustu sögupersónum barnabóka og er oft skipað í flokk sem eftirlætis sögupersóna barna en einnig sem feminísk sögupersóna. Lína skipar stóran sess í sérstökum Astrid Lindgren skemmtigarði í Vimmerby í Svíþjóð og Línu er einnig að finna á sænskum 20 króna peningaseðli ásamt Astrid Lindgren.

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Pippi Longstocking“ á ensku útgáfu Wikipedia. Skoðað 14. ágúst 2019.
  • „Af hvaða tegund er apinn hennar Línu langsokks?“. Vísindavefurinn.