Fara í innihald

Lífstykkjabúðin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Lífstykkjabúðin var stofnuð árið 1916 sem reykvísk verslun og iðnfyrirtæki. Fyrirtækið er starfrækt enn í dag sem undirfataverslun að Fákafeni 9 en framleiðslu lífstykkja er löngu hætt.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Elísabet Foss stofnaði Lífstykkjabúðina árið 1916 en þá var hún ekkja með tvö börn á framfæri. Elísabet hafði lært lífstykkjagerð í Bretlandi. Fyrirtækið varð fljótlega nær einrátt í framleiðslu á lífstykkjum, brjóstahöldum og magabeltum hérlendis.

Lífstykkjabúðin byrjaði smátt og Elísabet notaði eina saumavél við framleiðsluna. Fyrst var saumastofa og lítil búð í Kirkjustræti 4, þá fluttist starfsemin í Austurstræti 4 og árið 1929 lét Elísabet byggja þrílyft steinhús við Hafnarstræti 11 og hafði 6-9 stúlkur í vinnu, eins og hún segir sjálf frá í bókinni Þættir úr verzlunar- og iðnaðarsögu Íslands:

Einu erfiðleikarnir við að reka fyrirtækið, hafa stafað af efnisskorti, sem hefir orsakast af gjaldeyrisskorti og innflutningshömlum. Hefir því ekki verið hægt að fullnægja eftirspurninni og þó sízt á þessum síðustu og verstu tímum. Er jeg sannfærð um, að hægt hefði verið fyrir löngu að vinna þessa smásaumastofu upp í stóra og góða atvinnugrein með 20-30 stúlkum starfandi, ef þessir annmarkar hefðu ekki verið til fyrirstöðu, þar sem varan, sem framleidd hefir verið, hefir í alla staði verið samkeppnisfær að gæðum, vöndun og verðlagi.[1]

Árið 1953 flutti Lífstykkjabúðin á Skólavörðustíg 3, þaðan á Laugaveg 4 árið 1967, á Laugaveg 82 árið 2006 og loks í Fákafen 9 árið 2019.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Þættir úr verzlunar- og iðnaðarsögu Íslands. 1940.