Kyrrahafsþorskur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kyrrahafsþorskur

Ástand stofns
Ekki metið (IUCN)
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Þorskfiskar (Gadiformes)
Ætt: Þorskaætt (Gadidae)
Ættkvísl: Þorskur (Gadus)
Tegund:
G. macrocephalus

Tvínefni
Gadus macrocephalus
Tilesius, 1810

Kyrrahafsþorskur (fræðiheiti: Gadus macrocephalus) er bolfiskur af þorskaætt. Hann lifir við botn landgrunnsins í Norður-Kyrrahafi, frá Gulahafi að Beringssundi, við Aleuteyjar og suður alveg niður til Los Angeles. Fiskurinn getur orðið allt að metri að lengd og finnst mest í torfum. Fiskurinn er mikilvægur fiskur til sölu á neytendamarkað. Kyrrahafsþorskurinn er einnig þekktur undir nafninu gráþorskur.

Lýsing[breyta | breyta frumkóða]

Kyrrahafsþorskurinn er líkur atlantshafsþorski í útliti, straumlínulaga og kjaftstór. Hann er með þrjá aðgreinda bakugga, tvo eyrugga og greinilega rák sem gengur í gegnum búkinn. Líkt og atlantshafsþorskurinn hefur fiskurinn auðkennandi skeggþráð á höku sem hann notar til að leita að fæðu á sjávarbotni.

Líffræði[breyta | breyta frumkóða]

Kyrrahafsþorskurinn lifir í um 20 ár. Þeir stækka hratt og dæmi eru til um fiska sem hafa orðið allt að 180 cm að lengd þó það sé afar sjaldgæft. Meðal þorskurinn verður um hálfur metri að lengd og u.þ.b. 2-6 kg. Kvenkyns fiskar verða kynþroska og tilbúnir að fjölga sér 4-5 ára gamlir. Kyrrahafsþorskurinn hrygnir frá janúar fram í maí eftir hafsvæðum og gerir það á 100-250 metra dýpi nálægt botni. Kyrrahafsþorskurinn er frjósamur fiskur og hrygnir yfir milljón eggja í einu. Eggin límast á botninn og klak tekur um það bil mánuð. Fæða kyrrahafsþorskins samanstendur af muskum, ormum, kröbbum, rækjum og smáfiskum.

Veiðar[breyta | breyta frumkóða]

Veiðar á kyrrahafsþorski 1950-2015
Veiddur afli í % árið 2015

Kyrrahafsþorskurinn er mikilvæg markaðsafurð rétt eins og frændfiskur hans í Atlantshafinu. Þorskurinn er einn stærsti og mikilvægasti hluti sjávarútvegs í Bandaríkjunum. Langstærsti hluti veiða fer fram í Alaska. Veiðum er markvisst stjórnað með leyfum, kvóta, veiðarfæratakmörkun, veiðitímabilum og fleiri aðferðum. Stofn Kyrrahafsstofnsins er undir ströngu eftirliti af tveimur stofnunum, önnur stofnun sér um Beringshaf/Aleuteyjar stofninn og önnur stofnun sér um Alaska stofninn. Kyrrahafsþorskurinn er veiddur í línu, troll, gildrur og á handfæri.

Veiðar á kyrrahafsþorskinum á árunum 1950-1980 voru ekki mjög miklar og fóru aldrei upp fyrir 200.000 tonn. En um og upp úr 1980 jukust þær hratt og um miðjan níunda áratuginn voru veiðar komnar yfir 400.000 tonn á ári. Þannig héldust veiðar fram að aldamótum en þá fóru veiðar niður fyrir 400.000 tonn og urðu það næstu 10 ár þangað til 2010 þegar veiðar jukust aftur og fóru að vera um 450.000-470.000 tonn árlega. Bandaríkjamenn veiða mest af kyrrahafsþorskinum eða um 70% af heildarafla. Þar á eftir kemur Rússland með um 16%, Japan með 12% og svo kemur Kórea með rúm 2% og Kanada með brotabrot af heildarafla.

Helstu markaðir kyrrahafsþorsksins eru vesturströnd Bandaríkjanna og Alaska enda sjá þau fyrir um 70% af veiðum hans. Þá veiðir Rússland hann til eigin nota og Kína er einnig vinsæll markaður fisksins þar sem hann er oft seldur tví-frystur.

Kyrrahafsþorskurinn er bæði seldur ferskur og frystur. Sá hluti þorsksins sem veiddur er í Alaska, sem er rúm 50% af heildarafla, er nær allur frystur. Kyrrahafsþorskurinn rétt eins og atlantshafsþorskurinn er gríðarlega vinsæll til matargerðar í Bandaríkjunum og til að mynda var kyrrahafsþorskurinn notaður í geysivinsælan fiskborgara hjá skyndibitakeðjunni Wendy's í Bandaríkjunum.

Kyrrahafsþorskurinn er einn allra vinsælasti sportveiðifiskur í sjó við Alaska.

Samanburður atlantshafsþorsks og kyrrahafsþorsks[breyta | breyta frumkóða]

Þangað til upp úr 1980 var allur þorskur einfaldlega kallaður þorskur eða Gadus morhua sem er tvínefni atlantshafsþorsksins. En um miðjan áttunda áratuginn fóru veiðar á Kyrrhafsþorskinum að aukast mikið og flök hans voru einnig markaðssett sem „þorskur“. Þá fóru deilur um nafnið að hefjast því þó að fyrir mest leiti eru fiskarnir líkir eru þó lykil munir í flökunum. Bragðið er talið svipað en þó er atlantshafsþorskurinn talinn vægt sætur á meðan kyrrahafsþorskurinn hefur mildara og saltara bragð. Það er í áferðinni sem lykil munurinn liggur en þar er flaki kyrrahafsþorsksins lýst sem trénuðu, seigu og vatnsmiklu. Flök kyrrahafsþorsksins eru ekki eins safarík og meyr og flök atlantshafsþorsksins. Þetta gerir atlantshafsþorskinn lystugri en kyrrahafsþorskinn og afurðir kyrrahafsþorsksins eru ódýrari en sömu afurðir atlantshafsþorsksins.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Pacific cod“. Sótt 12. febrúar 2018.
  • „Know your cod: Atlantic versus Pacific“. Sótt 14. febrúar 2018.
  • „Cod“. Sótt 17. febrúar 2018.


  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.