Kviksetning
Kviksetning kallast það þegar menn eru grafnir lifandi og er þá ýmist um að ræða að það sé óviljaverk, að fólk sem virðist látið en er í raun í dái er jarðsett fyrir mistök, eða að kviksetning er notuð sem sérlega grimmúðleg aftökuaðferð.
Sagt er að fátt veki mönnum meiri ótta en tilhugsunin um að vera grafinn lifandi og sögur af fólki sem var kviksett hafa lengi fylgt mannkyninu. Í sumum tilvikum vaknar fólk af dásvefninum áður en í gröfina er komið og tekst að gera vart við sig en einnig eru sögur um grafir sem eru opnaðar og sjást þess þá ýmist merki að fólk hafi reynt að brjótast út, sparka gaflinum úr kistunni eða eitthvað slíkt. En þar sem kisturnar eru þröngar og lítið loft í þeim er líklegt að fólk kafni innan fárra mínútna. Öðru máli gegnir ef loft kemst inn í kistuna á einhvern hátt, þá gæti fólk lifað dögum saman.
Ýmis ráð hafa verið fundin til vinna gegn - eða spila á ótta - fólks við kviksetningu, svo sem kistur með innbyggðum bjöllum til að hringja og á síðustu árum jafnvel með kalltæki. Einnig var algengt áður fyrr að fólk bæði um að sér væri opnuð æð eftir dauðann til að kanna hvort blóð rynni enn um líkamann og sumir báðu um að líkið yrði látið standa uppi í nokkra daga til öryggis.
Kviksetning sem líflátsaðferð
[breyta | breyta frumkóða]Kviksetning hefur verið notuð frá örófi alda sem aftökuaðferð. Í Róm voru Vestumeyjar sem höfðu brotið skírlífisheit sitt múraðar inni. Nokkrir kristnir píslarvottar voru líflátnir með kviksetningu og á Ítalíu á miðöldum voru morðingjar sem ekki sýndu neina iðrun kviksettir. Í Rússlandi tíðkaðist á 17. og 18. öld að kviksetja konur sem banað höfðu manni sínum. Enn þekkjast dæmi um að fólk sé kviksett, þó ekki af yfirvöldum; í febrúar 2010 bárust til dæmis fréttir af því að 16 ára tyrknesk stúlka hefði verið grafin lifandi af ættingjum sínum fyrir það að tala við stráka.[1]
Á Íslandi eru nokkur dæmi um að kviksetningu hafi verið beitt sem líflátsaðferð á miðöldum. Í annálum segir frá því að árið 1374 tók Þorgautur Jónsson hirðstjóri Einar nokkurn dynt úr Þingeyrakirkju, en hann prófaðist síðan morðingi og var kviksettur. Árið 1389 var Hallsteinn Pálsson kviksettur fyrir fjögur morð. Og árið 1357 játaði maður sem Björn hét á sig samræði með tveimur kúm; hann var kviksettur, en kúnum stökkt fyrir sjávarhamra.[2]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Premature burial“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 15. febrúar 2010.
- „Íslenskir annálar 803-1430“.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. febrúar 2010. Sótt 16. febrúar 2010.
- ↑ http://www.archive.org/stream/slenzkirannlars00sigugoog