Kumlateigurinn á Ingiríðarstöðum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Ingiríðarstaðir er eyðibýli í Þegjandadal, S-Þingeyjarsýslu. Dalurinn er um 7km langur og gengur inn til suðurs frá Grenjaðarstað, milli Þorgerðarfjalls og Múlaheiðar. Árið 2008 fannst kuml vestan og ofan við eyðibýlið, en fleiri kuml fundust við frekari rannsóknir á þeim árum sem fylgdu.

Þegjandadalur, tekið af Atlaskorti

Þegjandadalur[breyta | breyta frumkóða]

Þegjandadals er getið í Landnámu, en samkvæmt henni var dalurinn hluti af landnámi Grenjaðar Hrappssonar er bjó á Grenjaðarstað. [1] Heimildir um byggð í dalnum er að finna í máldögum Múlakirkju og Grenjaðarstaðarkirkju frá 1318 og 1394, en þá eru alls sex jarðir taldar upp í dalnum.[2] Ekki löngu eftir virðist allur dalurinn hafa lagst í eyði, en í vitnisburði frá 1458 kemur fram að Grenjaðarstað hafi tilheyrt "selstaða í Þegjendadal" austanverðum. [3] Ýmsar getgátur hafa verið uppi um hvenær nákvæmlega og af hverju byggð hafi lagst af á Þegjandadal en víst er talið að þar hefur ekki verið búið eftir 15. öld.[4]

Menningarminjar á Ingiríðarstöðum, tekið úr skráningarskýrslu Fornleifastofnunar Íslands

Ingiríðarstaðir[breyta | breyta frumkóða]

Fornleifastofnun Íslands skráði menningarminjar í Þegjandadal árið 2005 í samstarfi við Hið þingeyska fornleifafélag.[5] Skráð voru sjö bæjarstæði og á einu þeirra, Ingiríðarstöðum, fundust yfir 30 fornminjar, þar á meðal bæjarhóll, mögulegt bænhús og mikil garðlög. Allar virtust þessar rústir ævafornar, en ekki er hægt að útiloka að sumar tóftirnar hafi byggst eftir 15. öld, hugsanlega vegna seljarbúskapar.

Ári síðar leiddi Howell M. Roberts fornleifafræðingur leiðangur til rannsókna á bæjarhúsum, kirkjuminjum og garðleifum á eyðibýlinu. Veitti Howell því athygli að rétt utan við vallargirðinguna, sem umlykur minjarnar vottaði fyrir reglulegum holum eða gryfjum. Er þessi staður rúmum 100 m vestan við bæjarstæði Ingiríðarstaða. Þar er landið þakið lyngi og afar þýft. Holurnar minntu á kuml sem fundist hafa m.a. á Litlu-Núpum í Aðaldal, Lyngbrekku í Reykjadal og Saltvík í Reykjahverfi. Milli holanna og vallargarðs liggur gömul reiðleiðin út og suður eftir dalnum, og má enn sjá allmarga paldra hlið við hlið. Við prufugröft kom í ljós að þar reyndist vera greftrunarstaður frá heiðni.[6]

Kumlateigurinn og aðrar minjar

Kumlateigurinn: uppgreftir og rannsóknir[breyta | breyta frumkóða]

Fornleifafræðingar frá Fornleifastofnun Íslands hafa rannsakað kumlateiginn frá uppgötvun hans árið 2008, en rannsóknirnar eru gerðar fyrir Hið þingeyska fornleifafélag. Grafið hefur verið á hverju sumri síðan þá, og við lok sumars 2013 höfðu alls 14 grafir fundist. Af þeim eru 5 grafir hesta, en algengt er að hestagrafir fylgi kumlum manna.[7] Einnig er talsvert af öðrum mannvistarleifum á uppgraftarsvæðinu, til dæmis gildar stoðarholur, garðlög og fleira (sjá mynd).


Hér fyrir neðan er gerð grein fyrir hverju kumli fyrir sig, en hestgröfunum er lýst með þeirr mannsgröf sem nálægust er enda virðast þær eiga saman í öllum tilfellum.

Kuml 1[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta kumlið er fannst var mannskuml, hrossgröf norðan þess en mjótt haft á milli. Yfir gröfunum lá óhreyfð eldfjallagjóska frá 1477. Báðar grafirnar hafa orðið fyrir raskai einhverntíma milli greftrunar og löngu áður en gjóskan féll. Þrátt fyrir raskið fundust beinaleifar manns, líklega karls, og hefur hann verið 35 ára eða eldri er hann lést. Hrossið var 5-6 ára þegar það var fellt og lagt í gröf, en engin merki um slátrun þess var hægt að greina á beinum þess. Athyglisvert er að í gröfunum var enn dýrmætt haugfé að finna. Í mannsgröfinni fundust í vöndli lítið blýmet og silfurþynna sem hugsanlega hafa verið í leðurpyngju við belti. Í hrossgröfinni voru enn leifar af skrauti af reiðtygjum, þ.e.a.s. beit, bronsþynnum með upphleyptu skrauti.[8]

Kuml 2[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2009 fundust 2 grafir 6 m sunnan við kuml 1. Var þar eitt mannskuml og hrossgröf með tveimur hrossum í. Yfir báðum gröfum lá gjóskulag frá 1300 óhreyft, en þeim hafði sýnilega verið raskað áður. Með hliðum mannsgrafarinnar lá röð af járnnöglum og er líklegt að hinn látni hafi verið lagður í kistu. Í gröfinni voru nokkur bein úr fullorðnum manni, en kyn og aldur bíður greiningar. Í kumlinu voru enn töluverðar haugfjárleifar: þrjú brot úr armböndum úr silfri, tvö brot úr silfurpeningum og eitt ógreinilegt silfurbrot, tvær stórar og skreyttar sörvistölur, skreytt beltissylgja úr koparblendingi, beltissproti með skrauti og áföstum slitrum úr leðri og ókennileg járnbrot. Við hvert horn grafarinnar var um 40 sm djúp hola, og sýnir að fjórar stoðir hafi verið reistar við gröfina. Austan megin í hrossgröfinni lá hestur en vestanmegin voru einungis leifar af framhluta hests. Á milli hrossanna hafði verið lagt tré eða planki einhverskonar. Með hrossinu austan plankans voru heilleg beisli og reiðtygi skreytt með fjöldanum öllum af af litlum málmþynnum með upphleyptu skrauti úr bronsi.[9]

Kuml 3[breyta | breyta frumkóða]

Í kumli 3 voru tvær grafir, með breiðu hafti á milli. Báðum gröfunum hafði verið raskað. Á yfirborði var að sjá eins og 2 þústir með dæld í kolli. Þegar yfirborðslög voru fjarlægð kom í ljós að gjóskulagið 1477 lá óraskað yfir þústunum sem og slitrur af 1300 gjóskulaginu. Þar undir kom í ljós mjög blönduð mold og sáust þar brúnir tveggja grafa. Báðar grafirnar eru aflangar, og snúa því sem næst frá NV til SA. Syðri gröfin er 1.40m löng, 0.65m breið og 0.61m djúp. Í fyllingunni var hrafl af mannabeinum og fáein járnbrot. Við hvert grafarhorn voru stoðarholur og í þeim voru stoðarsteinar og holrými, væntanlega eftir viðinn. Virðist sem stoðirnar hafi verið látnar standa á ská yfir gröfina.

Kuml 3 (nyrðri og 4 (syðri)

Nyrðri gröfin var 1.55m löng, 0.90m breið og 0.90m djúp. Í henni fundust fáein hrossbein, einkum tennur og leifar af höfuðkúpu úr hrossi. Þar voru heilleg kjaftamél úr járni, nokkrir járnnaglar og brot. Röð af smærri steinum lágu í boga með norðvesturhorni hrossgrafarinnar. Gæti þar verið um að ræða botn eða brún haugs sem upphaflega hefur verið yfir gröfinni.[10]


Kuml 4[breyta | breyta frumkóða]

Um 3 m SSV við kuml 3 voru enn tvær grafir, báðar raskaðar í fornöld og öll ummerki á sama veg og yfir kumli 3. Syðri gröfin var 1.72m löng, 0.95m breið og 0.52m djúp. Í henni fundust fáein bein úr manni, 2 sörvistölur úr gleri, og fáein járnbrot. Við horn grafarinnar voru allt að 35-40 sm breiðar og 50 sm djúpar stoðarholur, 2 norðan megin og 3 sunnan megin. Voru þær nær fylltar með smáum ávölum steinum.


Nyrðri gröfin var 1.14m löng, 0,90m breið og 0.71m djúp. Í henni var mikið af hrossbeinum, nær heilt hross og fáein járnbrot. Við vesturhlið þessarar grafar var bunga af mold og grjóti, sýnilega leifar af lágum haug sem hafði verið rofinn og líklega skemmst við uppblástur síðar.[11]

Kuml 5[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2012 fannst enn eitt kuml um 6 m vestan við kumlið með stoðarholunum sem var rannsakað árið 2009 (kuml 3). Þar sneri gröfin í N-S, 1.7m löng og 0.7m breið, og hafði hún verið tekin í gegnum landnámssyrpuna. Yfir gröfinni og fyllingu hennar lá gjóskulagið frá 1300. Ljóst er að kumlið hefur verið opnað áður en það gjóskulag féll. Í gröfinni fundust leifar af beinagrind úr manni (tennur og útlimabein), nokkur járnbrot og viðarleifar.[12]

Kuml 5

Kuml 6[breyta | breyta frumkóða]

Um 4 m suðvestan við kuml 5 fannst önnur gröf 2012. Gröfin sneri í N-S, 1.6m löng og 0.7m breið, og hafði verið tekin í gegnum landnámssyrpuna. Á bökkum grafarinnar hafði verið reistur lágur garður eða veggur úr torfi og síðan lagt yfir með grjóti, um 3.1m löng og 2.2m breið hleðsla. Eru þessi ummerki líklega leifar af haug sem gerður hefur verið yfir gröfinni. Ofan á hleðslunum og grafarfyllingu lá gjóskulagið frá 1300. Ljóst er að kumlið hefur verið opnað áður en það féll. Í gröfinni fundust leifar af beinagrind úr manni (höfuðkúpubein, tennur og útlimabein), nokkur járnbrot, koparbrot og viðarleifar.[13]

Kuml 6

Kuml 7[breyta | breyta frumkóða]

Við uppgröft haustið 2013 komu í ljós tvær grafir með mjóu hafti á milli þeirra og svipar til kumlapara sem fundist höfðu á hverju ári frá upphafi rannsókna. Ljóst var að báðum gröfunum hafði verið raskað fyrir margt löngu, rétt eins og allar grafir sem fundist hafa til þessa á Ingiríðarstöðum, og reyndar í allri Þingeyjarsýslu síðustu ár. Gjóskulög eru vel varðveitt í dalnum og sjá mátti að Heklulag sem talið er að hafi fallið um 1300 lá ekki aðeins yfir gröfunum, heldur og raskinu sem þær höfðu orðið fyrir síðar. Grafirnar voru báðar aflangar og ofan í þeim fylling af lausum jarðvegi og stöku steinum. Talsvert var af beinum í báðum gröfum, en þau voru í lélegu ástandi og sundurlaus. Í nyrðri gröfinni voru nokkur hestbein sem lágu eðlilega saman, nokkur leggjabein og hestkjálki, en einnig stök mannstönn. Í syðri gröfinni voru einnig fáeinir laglar og járnbrot.[14]

Kuml 7
Loftmynd af svæðinu. Tekin haustið 2013 af Garðari Guðmundssyni

Samantekt[breyta | breyta frumkóða]

Uppgreftinum á kumlateig þessum er enn ólokið, og eflaust munu frekari rannsóknir varpa skýrara ljósi á staðinn.

Ítarefni[breyta | breyta frumkóða]

Skýrslur um rannsóknir á kumlateignum á Ingiríðarstöðum:

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Íslendingabók. Landnámabók. Hið íslenska fornritafélag. 1968. bls. 278-279.
 2. Íslenskt fornbréfasafn I-XVI. Diplomatarium Islandicum. 1857. bls. 2. bindi 431-435, 3. bindi 576-78.
 3. Íslenskt fornbréfasafn I-XVI. Diplomatarium Islandicum. 1857. bls. 5. bindi 165-166, sjá einnig bls. 280-283.
 4. Birna Lárusdóttir & Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Í þegjanda hljóði. Búsetulandslag frá miðöldum í norðlenskri sveit, Upp á yfirborðið. Nýjar rannsóknir í íslenskri fornleifafræði, ritstj. Orri Vésteinsson ofl., Reykjavík 2011, bls. 117-139
 5. Elín Ósk Hreiðarsdóttir (2007). FS344-05122: Fornleifaskráning í Þegjandadal. Fornleifastofnun Íslands.
 6. Adolf Friðriksson; Howell M. Roberts (2012). Samantekt: Kumlateigur á Ingiríðarstöðum í Þegjandadal. Fornleifastofnun Íslands. bls. 21.
 7. Kristján Eldjárn (1956). Kuml og haugfé úr heiðnum sið. Háskóli Íslands.
 8. Howell Roberts. FS493 Ingiríðarstaðir 2011. An Interim Statement. Fornleifastofnun Íslands. bls. 19.
 9. Howell Roberts. FS493 Ingiríðarstaðir 2011. An Interim Statement. Fornleifastofnun Íslands. bls. 21.
 10. Howell Roberts. FS493 Ingiríðarstaðir 2011. An Interim Statement. Fornleifastofnun Íslands. bls. 21.
 11. Howell Roberts. FS493 Ingiríðarstaðir 2011. An Interim Statement. Fornleifastofnun Íslands. bls. 22.
 12. Howell Roberts. FS515 Ingiríðarstaðir 2012. An Interim Statement. Fornleifastofnun Íslands. bls. 21-24.
 13. Howell Roberts. FS515 Ingiríðarstaðir 2012. An Interim Statement. Fornleifastofnun Íslands. bls. 21-24.
 14. Howell Roberts. FS523 Ingiríðarstaðir 2013. An Interim Statement. Fornleifastofnun Íslands. bls. 1-2.