Fara í innihald

Sveppate

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Kombucha)
Sveppate með örverugróðri sem er ekki drukkinn.

Sveppate, kombucha eða mansjúríute, er gerjað, léttkolsýrt, sætt svart eða grænt te sem er drukkið um allan heim, stundum út af meintum heilsubætandi áhrifum sem eiga að stafa af örveruflórunni sem lifir í teinu og myndar samfelldan hlemm ofan á vökvanum. Þessi hlemmur hefur verið kallaður „Mansjúríusveppur“ og „Kákasussveppur“ á Íslandi. Teið sjálft er í dag oft nefnt kombucha á íslensku. Teið er oft bragðbætt fyrir neyslu með kryddi, safa eða öðrum bragðefnum.

Sveppate gæti verið upprunnið í Mansjúríu í Kína þar sem neysla þess er útbreidd, eða í Rússlandi eða Austur-Evrópu. Algengast er að sveppate sé framleitt í heimahúsum, en ýmsir smáframleiðendur hafa markaðssett sveppate fyrir neytendamarkað.

Sveppate er gert með því að gerja sykrað te með samlífisræktun ýmissa tegunda baktería (aðallega mjólkursýrugerla og ediksgerla) og gers. Sveppurinn eða „móðirin“ (líka kallaður „SCOBY“ á ensku, sem stendur fyrir „symbiotic culture of bacteria and yeast“) er í raun líffilma sem inniheldur oftast ölger (Saccaromyces cerevisiae) og næstum alltaf Komagataeibacter xylinus sem breytir alkóhólinu í ediksýru.

Því hefur verið haldið fram að neysla á sveppatei hafi ýmis heilsubætandi áhrif, en þau hafa ekki verið staðfest með rannsóknum.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.