Fara í innihald

Kolskeggur Hámundarson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kolskeggur Hámundarson (10. öld) var bróðir Gunnars á Hlíðarenda, líklega lítið eitt yngri en hann. Frá þeim bræðrum segir í Njáls sögu. Kolskeggur fylgdi jafnan Gunnari og virðist hafa litið á hann sem foringja í einu og öllu. Hann barðist með Gunnari í mörg skipti og meðal annars í bardaganum við Eystri-Rangá, þar sem Hjörtur bróðir þeirra féll.
Leiðir þeirra Gunnars og Kolskeggs skildi þegar Gunnar neitaði að halda af landi brott í þrjú ár og sneri til baka. Þá viðhafði Kolskeggur þau ummæli að hann væri ekki slíkt lítilmenni að ganga á bak orða sinna. Ennfremur sagði hann við Gunnar að hann myndi aldrei aftur til Íslands snúa, því að hann myndi fregna Gunnar dauðan.
Kolskeggur fór fyrst til Víkurinnar í Noregi, þaðan til Danmerkur og var þar með Sveini konungi tjúguskegg. Loks hélt hann þaðan til Miklagarðs. Þar giftist hann og kristnaðist og var væringjaforingi. Hann bjó í Miklagarði til dauðadags.