Katrín (abbadís)
Katrín abbadís var fyrsta abbadísin í Reynistaðarklaustri og var kjörin til þess þegar klaustrið hóf starfsemi 1297 en virðist aðeins hafa verið eitt ár í því embætti því hún hvarf úr sögunni ári síðar og Hallbera Þorsteinsdóttir tók við. Á þessu kann þó að vera önnur skýring.
Katrín hafði áður verið nunna á Munkaþverá en ekki er víst hvort hún var einsetukona þar eða hvort einhver vísir að nunnuklaustri var þar á meðan þess var beðið að nunnuklaustri væri komið á fót norðanlands. Gissur Þorvaldsson hafði gefið Reynistað til stofnunar nunnuklaustur fyrir dauða sinn 1268 en það dróst að klaustrinu væri komið upp þar til 1297, þegar auðug kona, Hallbera Þorsteinsdóttir, gekk í málið með Jörundi Hólabiskupi.
Sagt er að þegar Katrín var sest að á Munkaþverá og hafði tekið hreinlífisbúning hafi hún fengið svo mikinn augnakrankleika að hún gat ekki lesið heilagar bækur og hét hún þá á guð og hinn sæla Þorlák biskup og hélt síðan af stað í ferð suður til Skálholts að vitja heilags Þorláks. Var teymt undir henni til Miðfjarðarár en þá sagðist hún ætla að treysta á guð og Þorlák og reið sem heilbrigð væri í Skálholt og var þar við messu en varð að því búnu heil á báðum augum.
Sú tilgáta hefur verið sett fram að Katrín og Hallbera Þorsteinsdóttir séu ein og sama manneskjan, að Hallbera hafi orðið abbadís þegar við stofnun klaustursins og tekið sér nafnið Katrín en algengt var að nunnur skiptu um nafn við vígslu og tækju sér dýrlingsnafn. Þorláks saga segir að Katrín hafi verið abbadís á Reynistað um langan tíma.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- „„Reynistaðarklaustur". Tímarit Hins íslenska bókmenntafélags, 8. árg. 1887“.
- „„Reynistaðarklaustur". Sunnudagsblað Tímans, 6. ágúst 1967“.
- Sigríður Gunnarsdóttir: Nunnuklaustrið að Reynistað. Smárit Byggðasafns Skagfirðinga.