Kabýlía
Kabýlía (amazigh: : ⵜⴰⵎⵓⵔⵜ ⵏ ⵉⵇⴱⴰⵢⵍⵉⵢⴻⵏ, Tamurt n Iqvayliyen) er sögulegt hérað í Alsír, rétt austan við Algeirsborg. Það er í Atlasfjöllum við strönd Miðjarðarhafs og nær yfir nokkur héruð í Alsír; Tizi Ouzou-hérað, Béjaïa-hérað, Bouïra-hérað, Boumerdès-hérað. Gouraya-þjóðgarðurinn og Djurdjura-þjóðgarðurinn eru í Kabýlíu. Íbúar Kabýlíu eiga langa sögu andspyrnu gegn ríkjandi stjórnvöldum í landinu frá tímum Rómaveldis og síðar Tyrkjaveldis. Héraðið var með þeim síðustu sem gáfust upp fyrir Frakkaveldi á 19. öld. Árið 2001 var Sjálfstjórnarhreyfing Kabýlíu stofnuð sem berst fyrir sjálfstjórn í héraðinu.
Kabýlía skiptist í tvennt við árdal Soummam. Vestan megin er Kabýlía meiri en austan megin Kabýlía minni. Á árnýöld voru Konungsríkið Kuku vestan megin og Konungsríkið Ait Abbas austan megin. Héraðið var fyrst gert að einu stjórnsýsluumdæmi í Sjálfstæðisstríði Alsír 1954 til 1962.