Fara í innihald

Kýros mikli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kýros mikli, einnig þekktur sem Kýros eldri,[1] (um 600 f.Kr. eða 576 f.Kr. – 530 f.Kr.) var fyrsti konungur Persaveldis og stofnandi þess. Hann var sonur Kambýsesar 1. af akkæmenísku ættinni. Kýros ríkti í 29 eða 30 ár. Á valdatíma hans lagði Persaveldi undir sig nær allar þjóðir í Miðausturlöndum, mikið af Suðvestur-Asíu og Mið-Asíu, frá Egyptalandi og Hellusundi í vestri til Indus-fljóts í austri. Veldi hans var stærsta heimsveldi sögunnar á hans tíma.[2]

Kýros virti hefðir og trúarbrögð þeirra landa sem hann lagði undir sig. Kýros var sigursæll herforingi, stjórnvitur og umburðarlyndur. Írönsku þjóðirnar voru þrjár á tímum Kýrosar en það voru Medar, Persar og Skýþar. Kýros var Persakonungur á tíma þar sem Medar voru voldugastir og voru Persar undir yfirráðum þeirra. Hann rak konung Media frá völdum árið 550 f.kr. Krösus konungur Lýdíu frétti af uppreisn Kýrusar og hugði þá til landvinninga og sendi her gegn Persum. Her Kýrosar sigraði og lagði árið 546 f.Kr. undir sig höfuðborg Lýdíu og Persar lögðu svo undir sig grísku borgríkin og þar með alla Litlu-Asíu. Kýros hélt í austur yfir hásléttur Írans allt að Indusfljóti og lagði undir sig þjóðflokka á þeirri leið.  Árið 539 f.kr. var hann kominn til Babýlon og lagði þá Babýloníu undir ríki sitt. Árið eftir fall Babýlon leyfði Kýros hinum herleiddu Gyðingum að fara til heimalands síns og lét þá fá musterisker sem Nebúkadnesar hafði flutt til Babýloníu.  Kýros ætlaði að leggja undir sig Egyptaland en hann féll í stríði við hirðingjaþjóð árið 530 f.kr. en sonur hans Kambýses sigraði heri Faraós við Pelusion á Súeseiði árið 525 f.Kr. og náði þá ríki Persa frá eyðimörkum Líbýu austur að Indusfljóti.[3]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  • Kuhrt, Amélie. The Ancient Near East: C. 3000-330 BC (London: Routledge, 1995).
  Þetta æviágrip sem tengist fornfræði og sögu er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.