Fara í innihald

Kórdrengir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kórdrengir voru reykvískt íþróttafélag sem stofnað var árið 2007. Tilkynnt var um gjaldþrot félagsins vorið 2023.

Fyrstu tíu ár tilveru sinnar léku Kórdrengir í utandeildinni í knattspyrnu. Sumarið 2017 skráði liðið sig til keppni í E-deild og komst í úrslitakeppni strax á fyrsta ári. Í kjölfarið hófst sigurganga sem er fordæmalaus í íslenskri knattspyrnusögu. Árið 2018 komst liðið upp úr E-deildinni, árið 2019 urðu Kórdrengir meistarar í D-deild og endurtóku svo leikinn í C-deildinni árið 2020.

Á sínu fyrsta ári í B-deild höfnuðu Kórdrengir í fjórða sæti eftir að hafa veitt ÍBV harða samkeppni um annað sætið fram í lokaumferðirnar. Ekki tókst að fylgja árangrinum eftir sumarið 2022, þar sem fimmta sætið varð niðurstaðan en liðið var hvergi nærri því að blanda sér í toppbaráttuna. Betur gekk í bikarkeppninni þar sem Kórdrengir fóru alla leið í 8-liða úrslitin, en töpuðu þar 2:4 gegn úrvalsdeildarliði FH.

Eftir leiktíðina 2022 var tilkynnt um vistaskipti þjálfarans, Davíðs Smára Lamude, sem tók við liði Vestra. Í kjölfarið hófust umræður um framtíð félagsins og var loks tilkynnt fáeinum vikum fyrir upphaf Íslandsmótsins 2023 að Kórdrengir yrðu ekki meðal keppnisliða. Þá um vorið var tilkynnt um gjaldþrot Kórdrengja.