Fara í innihald

Juan Rodríguez Cabrillo

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Juan Rodríguez Cabrillo
Juan Rodríguez Cabrillo

Juan Rodríguez Cabrillo (einnig þekktur á portúgölsku sem João Rodrigues Cabrilho) var portúgalskur landkönnuður sem kannaði vesturströnd Ameríku í umboði Spánverja. Cabrillo var fyrsti Evrópubúinn sem sigldi um strendur Kaliforníu í Bandaríkjunum. Hann átti einnig þátt í stofnun borgarinnar Oxaca í Mexíkó.


Lítið er vitað um æskuár Cabrillos, ekki er einu sinni víst hvort hann hafi verið spænskur eða portúgalskur. Flestar ævisögur um hann segja hann hafa verið portúgalskan, en í bókinni Juan Rodriguez Cabrillo heldur sagnfræðingurinn Harry Kelsey því fram að hann hafi verið fæddur á Spáni, líklega í Sevilla eða í Cuellar.

Þá er fæðingarár hans líka á reiki, sem og ætterni, en fyrrnefndur Harry Kelsey heldur því fram að hann hafi verið af fátæku fólki kominn og fæddur í kringum 1498 eða 1500.

Cabrillo sigldi til Havana sem ungur maður og gekk til liðs við Hernán Cortés í Mexíkó. Seinna varð hann einn af ríkustu landvinningamönnunum með því að hneppa indjána í Guatemala í þrældóm og láta þá vinna í gullnámu.

Eftir för Francisco de Ulloa árið 1539 til Kaliforníuflóa var Cabrillio sendur af stað til að fara með leiðangur upp vesturströnd Bandaríkjanna og kanna viðskiptatækifæri. Spánverjar vonuðust jafnvel til að hann finndi leið til Kína, en á þessum tíma var ekki vitað hversu víðfemt Kyrrahafið var.

27. júní árið 1542 hóf Cabrillo för sína frá Navidad (nú Acapulco) í Nueva España (nú Mexíkó). 28. september sama árs kom hann að land í San Diego flóa og nefndi hann San Miguel. Hann sigldi síðan upp með ströndinni alveg upp að Russian River - ánni, áður en vetrarstormar hröktu þá aftur. 23. nóvember komst leiðangurinn til Santa Catalina Island eyju, útaf ströndum Kaliforníu. Þar huggðust þeir hafa vetursetu og lagfæra skipin. Á þessari eyju fótbrotnaði Cabrillo, illt hljóp í sárið og dó hann 3. janúar árið 1543. Leiðangurinn sneri aftur til Navidad 14. apríl árið 1543. Ekki er vitað hvar Cabrillo var grafinn.


Lýsing skrifara leiðangursins er týnd, en annar landkönnuður, Andrés de Urdaneta skrifaði útdrátt úr henni áður en hún týndist.

Samtímamenn Cabrillo vissu lítið um leiðangur hans og engin af nafngiftum hans á stöðum í Kaliforníu hélst. Þá stofnaði hann enga bæi. Því er Cabrillo í dag fyrst og fremst minnst sem fyrsta Evrópubúans sem sigldi um strendur Kaliforníu, og margar götur og byggingar bera nafn hans þar. Dæmi um það eru Cabrillo College í Aptos, hluti hraðbrautarinnar Pacific Coast Highway 1 er kallaður Cabrillo Highway og í San Diego er minnismerki um hann.