Fara í innihald

James Dobson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
James Dobson

James Clayton Dobson yngri (fæddur 21. apríl 1936), einnig þekktur sem Jim Dobson, er bandarískur rithöfundur, sálfræðingur og stofnandi kristnu íhaldssamtakanna Focus on the Family sem hann var í forsvari fyrir til ársins 2010. Á níunda áratugnum var hann einn áhrifamesti talsmaður íhaldssamra kristinna samfélagsgilda í Bandaríkjunum.[1] Þó svo að hann hafi aldrei verið vígður til prests var hann titlaður „áhrifamesti trúarleiðtogi bandarísku þjóðarinnar“ af The New York Times á meðan Slate lýsti honum sem arftaka trúarleiðtoganna Jerry Falwell og Pat Robertson.[2][3][4]

Dobson var fyrirferðarmikill í mörgum átakamálum sem tengjast bandarísku menningarstríðunum (e. Culture Wars), átökum um menningu og samfélagssáttmála Bandaríkjanna sem rekja má til sjöunda áratugarins, ris hinnar Nýju vinstrihreyfingar og gagnmenningarinnar (e. Counter Culture). Dobson taldi að kynfrelsisbylting sjöunda áratugarins hefði bæði getið af sér femínisma og klámvæðingu sem ógnuðu fjölskyldunni sem væri hornsteinn samfélagsins.

Uppvöxtur og ferill

[breyta | breyta frumkóða]

Dobson fæddist þann 21. apríl 1936 í Shreveport í Louisiana. Faðir hans, James Dobson eldri (1911–1977), var trúboði og ferðaðist aðallega um Suð-Vesturríki Bandaríkjanna.[5] Trúarbrögð léku stóran þátt í lífi hans allt frá bernsku. Hann sagði einu sinni við blaðamann að hann hefði lært að biðja áður en hann lærði að tala og segist hafa gefið Jesú líf sitt þriggja ára að aldri, til að bregðast við altariskalli frá föður sínum.[6]

Dobson lærði klíníska sálfræði. Hann trúði því að hann hefði fengið köllun til að starfa sem sálfræðingur fyrir Jesú Krist.[7] Hann stundaði grunnnám í Pasadena College (nú Point Loma Nazarene University) og gegndi stöði fyrirliða í tennisliði skólans.[8] Árið 1967 útskrifaðist Dobson með doktorsgráðu í sálfræði frá Háskólanum í Suður-Kaliforníu. Næstu 14 ár starfaði hann við deild Keck-læknadeildar háskólans.[9] Um tíma starfaði Dobson sem aðstoðarmaður Paul Popenoe hjá Institute of Family Relations, miðstöð hjónabandsráðgjafar, í Los Angeles.[10]

Dobson varð fyrst þekktur eftir útgáfu bókarinnar Dare to Discipline (1970), þar sem hann hvatti foreldra til að beita líkamlegum refsingum til að aga börn sín.[11] Félagslegar og pólitískar skoðanir Dobson hafa gríðarlega mikil áhrif meðal margra evangelískra kirkjusafnaða í Bandaríkjunum.[12]

„Focus on the Family“

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1977 stofnaði Dobson samtökin Focus on the Family, sem veittu kristna hjónabandsráðgjöf. Focus on the Family framleiddi meðal annars samnefndan útvarsþátt þar sem Dobson veitti innhringjendum ráð og svaraði spurningum um ýmis fjölskyldumál, þar á meðal barnauppeldi og sambúð hjóna. Þátturinn var sendur út daglega og naut gríðarlegra vinsælda í Bandaríkjunum og víða um heim. Focus on the Family gaf einnig út bækur og tímarit, auk þess að standa fyrir fundum og fyrirlestrum.[13]

Á áttunda áratugnum varð Dobson einn áhrifamesti talsmaður kristinna íhaldsmanna sem voru að rísa til áhrifa innan Repúblíkanaflokksins. Árið 1981 stofnaði Dobson samtökin Family Research Council til þess að berjast fyrir kristnum samfélagsgildum á hinum pólítíska vettvangi.

Meðferðarhugsjón Dobson á kristinni sálfræði, sem fræðimenn telja hafa hjálpað milljónum kristinna Bandaríkjamanna að aðlagast síðfemínísku menningarmynstri. Nálgun sem virtist árangursríkara en reiði-stíll Falwells við að heyja menningarstríð gegn femínisma. Í lok áttunda áratugarins sagði Dobson starfi sínu lausu sem sálfræðingur við læknadeild háskólans í Suður-Kaliforníu, þar sem hann „sá af eigin raun hvernig skilnaður, misnotkun og aðrar tegundir fjölskylduátaka rífa líf fólks í sundur.“ Hann kvaðst sannfærður um að tilgangur lífsins væri að verja hefðbundna fjölskyldueiningu. Hann stofnaði í kjölfarið Focus on the Family til að hjálpa til við að spyrna við kynferðislegri byltingu, kynfrelsisbyltingu sem hann lýsti sem: „skyndilegu siðrofi án hliðstæðu í mannkynssögunni.“[14]

Focus on the Family stóð fyrir útvarpsþætti sem var ólíkur öllu sambærilegu kristilegu útvarpsefni, með því að taka reglulega símtöl frá mönnum sem brotnuðu saman og grétu í beinni útsendingu.

Dobson laðaði að sér kvenkyns áhorfendur, með nálgun sinni á málefnin út frá „kristinni visku“. Hann fékk póst í bílförmum frá konum sem leituðu ráða hjá honum varðandi persónuleg mál af ýmsum toga. Hann réð hóp kvenkyns ritara til að bregðast við þessu yfirþyrmandi magni pósts og kom á laggirnar símaráðgjöf. Þegar Dobson flutti Focus on the Family til Colorado Springs árið 1991 störfuðu fleiri en þúsund manns hjá honum við ráðgjöf í síma og póstleiðis. Ráðgjafaþjónustan var gríðarlega arðbær, en bréfahöfundar og innhringjendur greiddu gjarnan félagsgjöld til Focus on the Family og versluðu bækur og tímarit Dobson um sama efni, Focus.[15]

Hugmyndafræði

[breyta | breyta frumkóða]

Dobson notaði ráðgjafaþáttinn óspart til að koma pólitískum skoðunum sínum á framfæri. Konur hringdu bugaðar inn vegna klám-fíknar eða framhjáhalds eiginmanna, en Dobson brást við með því að útskýra í þaula hvernig breyskleiki eiginmannanna stafaði af menningarlegri rotnun sem væri að rífa niður kjarnafjölskylduna, kynfrelsisbyltingunni og femínisma. Konurnar fengu leiðbeiningar um hvernig væri best að endurhæfa fjölskylduna og verða undirgefnari eiginmönnum sínum. Haft er eftir Dobson; „Vinsamlegast skiljið að ég trúi staðfastlega á biblíulegulega undirgefni kvenna, eins og lýst er í Efesusbókinni og annars staðar í ritningunni,“ En það er ekki það sama að vera sjálfsörugg og undirgefin eiginmanni sínum, og að láta einfaldlega vaða yfir sig.“ Framsetningin í ráðleggingum hans var ætíð á þá leið að valdefla konur.[16]

Dobson lagði mikla áherslu á meðfæddan mun kynjanna og taldi að viðurkenning á þessum „líffræðilega grunni“ væri lykilinn að farsælu hjónabandi. „Fyrsta Mósebók segir okkur að skaparinn hafi búið til tvö kyn, ekki eitt, og að hann hannaði hvert kyn í ákveðnum tilgangi. Hve leiðinlegt það væri ef kynin væru eins, eins og róttæku femínistarnir hafa reynt að segja okkur!“  Áhrif Dobson voru gríðarleg og milljónir kristinna íhaldsmanna tóku upp hefðbundnar hugmyndir Dobson um hjónabandið, og að það farsæld þess væri fyrst og fremst byggð á íhaldssömum kynhlutverkum.[17]

Fordæming á The Last Temptation

[breyta | breyta frumkóða]

Kvikmynd Martins Scorsese, The Last Temptation of Christ, olli mikilli reiði meðal kristinna íhaldsmanna í Bandaríkjunum, en hún er talin leggja áherslu á mannlega bresti Krists og erfiðleika. James Dobson fordæmdi myndina harðlega, eftir að viðurkenna að hafa ekki séð hana, og sagði opinberlega að: „hún virtist vera mesta guðlastið og grimmasta árásin á kirkjuna og málstað Krists í sögu skemmtanaiðnaðarins.“[18]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Detwiler, Frederick E.; Detwiler, Fritz (1999-12). Standing on the Premises of God: The Christian Right's Fight to Redefine America's Public Schools (enska). NYU Press. ISBN 978-0-8147-1914-5.
  2. Kirkpatrick, David D. (1. janúar 2005). „Evangelical Leader Threatens to Use His Political Muscle Against Some Democrats (Published 2005)“. The New York Times (bandarísk enska). ISSN 0362-4331. Sótt 4. desember 2020.
  3. Olsen, By Ted. „Who's Driving This Thing?“. ChristianityToday.com (enska). Sótt 4. desember 2020.
  4. „James Dobson“, Wikipedia (enska), 20. nóvember 2020, sótt 4. desember 2020
  5. Stepp, Laura (August 8, 1990). "The Empire Built on Family and Faith: Psychologist James C. Dobson, Bringing His Evangelical Focus to Politics". Washington Post. pp. C1–3. Archived from the original on January 3, 2017. Retrieved July 6, 2017.
  6. Apostolidis, Paul (May 2000). Stations of the Cross Adorno and Christian Right Radio. Duke University Press. p. 22
  7. Apostolidis, Paul (May 2000). Stations of the Cross Adorno and Christian Right Radio. Duke University Press. p. 22
  8. „Tennis Ministry News- Dr. Dobson testimony“. web.archive.org. 28. júlí 2011. Afritað af uppruna á 28. júlí 2011. Sótt 4. desember 2020.
  9. „Dr. James Dobson - Focus on the Family“. web.archive.org. 8. desember 2010. Afritað af uppruna á 8. desember 2010. Sótt 4. desember 2020.
  10. David Popenoe, War Over the Family, Transaction Publishers, 2005. ISBN 978-0-7658-0259-0. Chapter 14: "Remembering My Father: An Intellectual Portrait of 'The Man Who Saved Marriages.'"
  11. „The Wizard of Colorado Springs, Sojourners Magazine/August 2007“. web.archive.org. 13. júní 2008. Afritað af uppruna á 13. júní 2008. Sótt 4. desember 2020.
  12. Gibbon, Jeani Hunt (September–October 2005). "Listening to Dr. Dobson". Tikkun. 20 (5): 11.
  13. „Dr. James Dobson“. web.archive.org. 29. mars 2007. Afritað af uppruna á 29. mars 2007. Sótt 4. desember 2020.
  14. Hartman, A. (2019). Conclusion to the Second Edition. A war for the soul of America: A history of the culture wars (önnur útgáfa, bls. 166). Chicago: The University of Chicago Press.
  15. Hartman, A. (2019). Conclusion to the Second Edition. A war for the soul of America: A history of the culture wars (önnur útgáfa, bls. 168). Chicago: The University of Chicago Press.
  16. Hartman, A. (2019). Conclusion to the Second Edition. A war for the soul of America: A history of the culture wars (önnur útgáfa, bls. 169). Chicago: The University of Chicago Press.
  17. Hartman, A. (2019). Conclusion to the Second Edition. A war for the soul of America: A history of the culture wars (önnur útgáfa, bls. 169). Chicago: The University of Chicago Press.
  18. Hartman, A. (2019). Conclusion to the Second Edition. A war for the soul of America: A history of the culture wars (önnur útgáfa, bls. 187). Chicago: The University of Chicago Press.