Jón Sigurðsson (prestur á Breiðabólstað)
Jón Sigurðsson (um 1588 – 1640) var skólameistari í Skálholtsskóla og síðan aðstoðarprestur og svo prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð.
Jón var fæddur á Möðruvöllum í Hörgárdal, sonur Sigurðar Einarssonar prests þar og síðar á Breiðabólstað, bróður Odds Einarssonar biskups, og konu hans Ingunnar Jónsdóttur. Hann lærði í Skálholtsskóla og síðan í Kaupmannahafnarháskóla og er talinn hafa innritast þar 1604.
Hann varð skólameistari í Skálholti 1610 og hafði til þess leyfi Gísla Þórðarsonar lögmanns, en Steindór sonur Gísla, sem var við nám í Kaupmannahöfn, hafði fengið konungsbréf fyrir skólameistarastöðunni en kom ekki til Íslands fyrr en 1613 og varð aldrei skólameistari. Árið 1612 varð Jón svo aðstoðarprestur hjá föður sínum á Breiðabólstað og varð svo prestur þar þegar séra Sigurður lét af embætti 1626 og gegndi því starfi til dauðadags.
Séra Jón var þríkvæntur. Fyrsta kona hans var Guðrún Gísladóttir, dóttir Gísla Árnasonar sýslumanns á Hlíðarenda. Önnur kona hans var Kristín, dóttir séra Teits Halldórssonar og sú þriðja Guðrún Snorradóttir.