Invader Zim

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Augu Invader Zim

Invader Zim (Zim innrásarliði) er teiknimyndasería eftir teiknimyndasöguhöfundinn Jhonen Vasquez sem sýnd var á bandarísku sjónvarpsstöðinni Nickelodeon árið 2001. Þættirnir eru tæknilega vandaðir og undir nokkrum áhrifum frá anime teiknimyndum og kímnin og stíllinn er dökkur og kaldhæðinn, þetta skapaði lítinn en ákafann hóp aðdáenda sem voru yfirleitt nokkuð eldri en hinir hefðbundnu áhorfendur Nickelodeon. Stöðin varð fyrir vonbrigðum með lítið áhorf á þættina og fannst það ekki réttlæta háan framleiðslukostnað þeirra og hætti því framleiðslunni um sinn en hóf hana aftur vegna þrýstings frá aðdáendum. Stöðin hætti framleiðslunni aftur, hóf hana á ný og hætti svo að lokum endanlega. Aðeins 1 og hálf syrpa af þáttunum voru framleiddar (önnur syrpan var aldrei kláruð). Vasquez sagði frá því að sumir þættirnir voru aldrei fullkláraðir þrátt fyrir að eingöngu nokkurra daga vinna var eftir af þeim. Þættirnir fóru fyrst í loftið í mars 2001 og hafa nú verið gefnir út á DVD.

Zim er geimvera af hinum mikla Irken kynþætti þar sem staða einstaklinga í samfélaginu ræðst af hæð þeirra. Yfir Irkenveldinu ríkja „hinir almáttugu Hæstu“ (The Almighty Tallest) sem eru tveir þegar þættirnir gerast þar sem þeir eru nákvæmlega jafn háir. Zim var sendur í útlegð til plánetunnar Foodcourtia þar sem hann skyldi verja afgangi ævi sinnar í að steikja hluti í refsingu fyrir að valda miklu tjóni í einni borg Irkenþjóðarinnar með risastóru vélmenni. Vélmennið var liður í mikilli herför sem kallaðist „Aðgerð: Yfirvofandi skapadómur I“ (Operation Impending Doom I), Zim var fullákafur og ræsti sitt vélmenni á meðan hann var enn þá staddur á heimaplánetu sinni.

Þegar Zim heyrir af yfirvofandi „Aðgerð: Yfirvofandi skapadómur II“ (Operation Impending Doom II) tekur hann þá ákvörðun að „hætta“ að vera útlægur, honum tekst að sleppa frá Foodcourtia og flýtir sér til að taka þátt í hinni „miklu úthlutun“ (Great Assigning) þar sem þeim bestu í her Irkenveldisins er úthlutað plánetum sem þeir eiga að ferðast til og reyna að falla inn í samfélag innfæddra, safna upplýsingum og undirbúa innrás. Zim nær að vera viðstaddur úthlutunina þar sem hann grátbiður hina hæstu um að úthluta sér plánetu. Til þess að losna við hann úthluta þeir Zim leyniplánetu (sem reyndar var bara tilviljanakenndur punktur í geimnum) sem reynist vera Jörðin þegar Zim kemst þangað eftir 6 mánaða ferðalag ásamt GIR, treggáfuðum vélmennisaðstoðarmanni sínum.

Þættirnir lýsa tilraunum Zim til að hertaka Jörðina á meðan erkióvinur hans, Dib, reynir að stöðva hann.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]