Fara í innihald

Lén (tölvunarfræði)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Internetlén)

Lén eru auðkenni netþjóna sem notuð eru í stað vistfangs sem mönnum er ekki eins tamt að muna. Til þess að sækja eða senda göng yfir net til ákveðinnar tölvu þarf notandinn að þekkja vistfang þeirrar vélar. Hún gæti til dæmis verið 64.233.187.99 sem er frekar erfitt að muna, í stað þess mætti nota lén sem svarar til þessa vistfangs, til dæmis google.com.

Samsetning lénsheita

[breyta | breyta frumkóða]

Lénsheiti (e. Domain name) eru sett saman úr mörgum einingum. Hlutinn lengst til hægri og aðgreindur frá afgangnum með punkti er kallaður rótarlén, sá sem er vinstra megin við hann, aðgreindur með punkti, kallast lén en afgangurinn sem teygist alla leið til vinstri kallast undirlén. Tökum til dæmis lénsheitið nafn.sem.er.example.com og þá yrði því skipt í eftirfarandi parta:

com. - Rótarlén.

example. - Lén.

nafn.sem.er. - Undirlén.

Lénsheiti yfir í vistfang

[breyta | breyta frumkóða]

Til að þýða lénsheiti yfir í vistfang er eftirfarandi leið farin:

  1. Tölvan þín spyr nafnaþjónana (skilgreindir með vistföngum í tölvunni þinni) um lénsheitið sem þú vilt þýða.
  2. Nafnaþjónarnir sækja síðan upplýsingar til 1 eða fleiri af þeim 13 rótarnafnaþjónum (vistföng þeirra eru stilltar inn í nafnaþjóna) um upplýsingar um rótarlénið í lénsheitinu. Þeir fá síðan svar til baka með 2 eða fleiri nafnaþjónum sem hafa umsjón með rótarléninu ef um er að ræða þjóðarlén eða láta þig strax fá nafnaþjónana sem hafa umsjón með léninu ef lénið er alþjóðlegt rótarlén.
  3. Beiðni er send til einhverra af þeim nafnaþjónum sem rótarnafnaþjónninn vísaði á og spurt um lénsheitið. Þeir vísa þér á (aðra) nafnaþjónana sem sjá um færsluna fyrir lénið eða svara þér með þeim upplýsingum sem þú spurðir um.
  4. Nafnaþjónarnir sem sjá um lénið eru spurðir um færsluna og annað hvort svara þeir þér með fullu vistfangi fyrir það sem þú spurðir um eða vísa þér á aðra nafnaþjóna sem hafa umsjón með færslunni eða vísa þér á aðra nafnaþjóna. Þetta ferli er síðan endurtekið eins oft og nauðsyn er. ATH: Ekki þarf endilega að fletta upp á nafnaþjónum sem sjá um sem.er.example.com áður en nafn.sem.er.example.com er fundið út. Sú færsla getur verið þess vegna í nafnaþjóni sem sér um example.com eða er.example.com.

Þessi leið er samt ekki farin í hvert einasta skipti sem að spurt er um lénsheiti, heldur eru svörin við beiðnunum geymd í nafnaþjónunum í ákveðinn tíma svo að ekki þurfi að spyrja eins oft. Þetta er gert til að flýta fyrirspurnum á Internetinu og um leið minnka álagið á nafnaþjónunum.

Lén (e. Domain) geta innihaldið töluvert fleiri stafi (um 63) heldur en rótarlén (2-4 núna, sbr. .info) en hverjum einstaklingi/fyrirtæki er frjálst að sækja um lén með hvaða stafaumröðun sem er, svo fremur sem það falli undir reglur þess sem sér um að úthluta því og RFC reglunum um lénsheiti. Á Íslandi er hægt að sækja um lén sem innihalda íslenska sérstafi í lénsheitinu en með tilkomu IE7 geta flestir nýtt sér þau. Safari og Firefox hafa haft þann kost lengur en IE.

Undirlén (e. Sub-domain) geta innihaldið nokkuð marga stafi og þau geta verið skilgreind með stöfum og punktum (en hafa samt sín takmörk), en það má ekki hafa punkta í venjulegum lénsheitum. Hægt að bæta við eins mörgum undirlénum og rétthafi léns vill án þess að láta úthlutunaraðila léns vita eða sækja um það sérstaklega til hans.