Fara í innihald

Ingibjörg Hákonardóttir af Noregi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ingibjörg Hákonardóttir. Lágmynd í Linköping-dómkirkju.

Ingibjörg Hákonardóttir (13011361) eða Ingibjörg hertogaynja var norsk konungsdóttir sem varð sænsk hertogaynja og átti sæti í bæði norska og sænska ríkisráðinu. Hún var móðir Magnúsar Eiríkssonar smeks. Sumir sagnfræðingar telja að hún hafi í raun verið þjóðhöfðingi Svíþjóðar 1318-1319 og hún hafði mikil áhrif á stjórn Svíþjóðar og Noregs í yfir 40 ár.

Barnung brúður

[breyta | breyta frumkóða]

Ingibjörg var eina skilgetna barn Hákonar háleggs Noregskonungs og Eufemíu af Rügen. Þegar hún var eins árs var samið um giftingu hennar og Eiríks hertoga af Södermanlandi, bróður Birgis Magnússonar Svíakonungs. Hann var 19 árum eldri og hefur líklega þótt langt að bíða eftir því að hann fengi yfirráð yfir heimanmundi hennar, sem var meðal annars hertogadæmið Halland. Hann krafðist þess því árið 1308 að brúðkaupið færi fram en Hákon konungur vildi það ekki, enda áttu þeir þá í ófriði.

Eiríkur sleit þá trúlofuninni og bað Soffíu af Mecklenburg-Werle. Þeirri trúlofun var þó sliðtið seinna og Eiríkur og Ingibjörg giftust í Osló árið 1312, þegar Ingibjörg var 11 ára en Eiríkur þrítugur. Brúðkaupið var tvöfalt því að um leið giftist Valdimar hertogi, bróðir Eiríks, Ingibjörgu dóttur Eiríks prestahatara, bróður Hákonar háleggs.

Ekkja og ríkisstjóri

[breyta | breyta frumkóða]

Ingibjörg ól son, Magnús, vorið 1316 og dótturina Eufemíu 1317. Það sama haust lét Birgir konungur handtaka bræður sína, hertogana Eirík og Valdimar, og varpa þeim í dýflissu. Frænkurnar tvær, eiginkonur þeirra, urðu leiðtogar fylgismanna þeirra og 16. apríl 1318 gerðu þær bandalag í Kalmar við Kristófer hertoga, bróður Danakonungs (síðar Kristófer 2.) og Ásgeir erkibiskup í Lundi með það að markmiði að frelsa hertogana. Nokkru síðar kom þó í ljós að þeir voru látnir, höfðu verið drepnir eða soltið í hel í dýflissunni, en Birgi var samt sem áður steypt af stóli og hann flúði til Danmerkur. Á þessu tímabili var hin unga hertogaynja ótvírætt valdamesta manneskja Svíþjóðar.

Hákon háleggur dó vorið 1319 og Magnús sonur Ingibjargar var lýstur konungur. Hún var sjálf gerð að ríkisstjóra og sat í norska ríkisráðinu. Skömmu síðar kaus sænski aðallinn Magnús einnig konung Svíþjóðar. Ingibjörg fékk þá sæti í sænska ríkisráðinu og Ingibjörg frænka hennar einnig. Ekki er ljóst hver völd Ingibjargar konungsmóður voru raunverulega en einn helsti bandamaður hennar, Mats Kettilmundsson, stýrði sænska ríkisráðinu og hún hafði atkvæðisrétt í báðum ríkisráðunum og réði auk þess sínum eigin víðáttumiklu lénum.

Deilur við ríkisráðin

[breyta | breyta frumkóða]

Ingibjörg þótti fara sínu fram, oft án þess að bera málefni undir ríkisráðin, og var harðlega gagnrýnd fyrir það. Hún hafði um sig hirð ungra, erlendra manna og bar þar mest á Dananum Knúti Porse, sem brátt varð elskhugi hennar. Ingibjörg þótti hlusta meira á þessa ungu vini sína en eldri og reyndari ráðgjafa og voru sett lög sem bönnuðu útlendingum setu í sænska ríkisráðinu.

Ingibjörg og Knútur Porse höfðu hug á að leggja Skán undir sig og í því skyni samdi Ingibjörg árið 1321 við Hinrik hertoga af Mecklenburg um brúðkaup Eufemíu dóttur sinnar og Albrechts sonar Hinriks; var samið um að Mecklenburg og fleiri þýsk ríki skyldu hjálpa Ingibjörgu að ná Skáni af Dönum. En þegar sveitir hennar undir forystu Knúts Porse gerðu innrás á Skán 1322-1323 sveik Hinrik hana um hjálp og áætlunin mistókst. Trúlofun barnanna hélt þó og giftust þau 1336.

Árið 1322 kom til átaka milli Ingibjargar og sænska ríkisráðsins og ráðið gerði samþykkt um að ekki mætti hlýða neinum fyrirmælum hennar nema allt ríkisráðið hefði samþykkt þau. Norska ríkisráðið reis líka upp gegn henni 20. febrúar 1323 og hún var svipt ríkisstjóraembættinu. Eftir 1323 voru því völd hennar í báðum ríkjunum verulega takmörkuð. 14. febrúar 1326 var hún svo svipt öllum völdum sínum í Svíþjóð en hélt ennþá einhverjum völdum í Noregi.

Seinna hjónaband og ekkjuár

[breyta | breyta frumkóða]

Ingibjörg giftist Knúti Porse 1327 og varð hann þá hertogi af Hallandi, sem Ingibjörg hafði fengið í heimanmund. Hann var svo gerður hertogi af Eistlandi 1329 en dó ári síðar. Þau áttu þá tvo barnunga syni sem urðu hertogar af Hallandi. Eftir lát Knúts varð samband Ingibjargar og Magnúsar sonar hennar aftur náið.

Báðir synir Ingibjargar og Knúts Porse dóu úr Svarta dauða 1350, rúmlega tvítugir, og varð hún þá hertogaynja af Hallandi. Hún dó 1361.