Fara í innihald

Ingibjörg Eiríksdóttir af Svíþjóð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Slitið og máð innsigli Ingibjargar Eiríksdóttur.

Ingibjörg Eiríksdóttir (um 1212 – um 1254) var sænsk konungsdóttir og síðar jarls- og ríkisstjórafrú í Svíþjóð og móðir tveggja sænskra konunga.

Ingibjörg var dóttir Eiríks Knútssonar Svíakonungs og Ríkissu Valdimarsdóttur af Danmörku, dóttur Valdimars mikla. Eiríkur, yngri bróðir hennar, sem fæddur var eftir lát föður þeirra 1216, varð konungur Svíþjóðar eftir lát Jóhanns Sörkvissonar 1222, var svo settur af 1229 en varð aftur konungur 1234. Ingibjörg fylgdi móður sinni og bróður í útlegð til Danmerkur 1216 og aftur með bróður sínum 1229 og ólst þar upp að miklu leyti hjá ættingjum móður sinnar.

Eiríkur varð konungur öðru sinni 1234 eftir lát Knúts langa og naut til þess meðal annars stuðnings hinnar valdamiklu Bjälbo-ættar. Líklega hefur sá stuðningur átt þátt í því að Birgir Magnússon af Bjälbo-ætt varð hlutskarpastur margra biðla Ingibjargar konungssystur og gengu þau í hjónaband skömmu síðar. Þau eignuðust fjölda barna, þar á meðal Valdimar og Magnús, sem urðu konungar Svíþjóðar og Ríkissu, sem giftist Hákoni unga, syni og meðkonungi Hákonar gamla Noregskonungs.

Vegur Birgis óx mjög eftir að hann varð mágur konungsins. Hann var gerður að jarli og varð brátt einn valdamesti maður ríkisins. Eiríkur eignaðist engin börn með konu sinni og þegar hann lést 1250 var elsti systursonur hans, Valdimar Birgisson, valinn konungur. Birgir jarl var gerður að ríkisstjóra þar til Valdimar yrði fullvalda en stýrði landinu í raun allt þar til hann lést 1275. Sem konungsmóðir og ríkisstjórafrú var Ingibjörg því tignasta kona landsins og ígildi drottningar í fáein ár en hún dó um eða upp úr 1254, líklega af barnsförum þótt komin væri á fimmtugsaldur.