Fara í innihald

Birgir jarl

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þessi samtímaynd af Birgi jarli er í Varnhemskirkju, þar sem hann er grafinn.

Birgir jarl Magnússon (um 121021. október 1266) var sænskur jarl og valdamaður sem stýrði Svíþjóð í nafni Valdimars konungs, sonar síns, frá 1250-1266. Hann efldi mjög vald konungs í Svíþjóð og stýrði herförinni sem tryggði yfirráð Svía yfir Finnlandi. Hann er einnig talinn hafa stofnað höfuðborgina Stokkhólm um 1250.

Birgir var af Bjälbo-ætt í Austur-Gautlandi og hétu foreldrar hans Magnús minnisskjöldur og Ingiríður Ylfa, sem sögð er hafa verið dótturdóttir Sörkvis eldri. Birgir Brosa jarl (d. 1202) var frændi hans og hét Birgir eftir honum. Seint á 4. áratug 13. aldar gekk hann að eiga systur Eiríks konungs smámælta og halta, Ingibjörgu. Á næstu árum styrkti Birgir mjög stöðu sína og var sennilega þegar orðinn einn valdamesti maður landsins þegar Eiríkur mágur hans gerði hann að jarli 1248. Eftir það var Birgir hinn raunverulegi stjórandi Svíþjóðar, allt þar til hann lést 1266.

Árið 1249 tókst Birgi að binda enda á langvinnar deilur við Norðmenn og samdi þá meðal annars um trúlofun ellefu ára dóttur sinnar, Ríkissu, og Hákonar unga Hákonarsonar, sem hafði verið krýndur meðkonungur föður síns 1240 en var þó valdalaus. Þau giftust 1251 og áttu saman einn son sem dó ungur. Árið 1250 hélt Birgir svo í herför til Finnlands, sem seinna var kölluð Önnur sænska krossferðin, og tókst að ná Finnlandi endanlega undir sænsk yfirráð. Á meðan hann var þar lést Eiríkur konungur. Hann var barnlaus og Birgir flýtti sér heim til að fá elsta son sinn, Valdimar, kjörinn konung. Þegar hann kom heim hafði Valdimar, sem þá var aðeins um tíu ára gamall, þegar verið kjörinn og varð Birgir ríkisstjóri. Bæði fyrir og eftir lát Eiríks reyndu ýmsir aðalsmenn, þar á meðal synir Knúts konungs langa, að gera uppreisn gegn Birgi en hann bældi allt slíkt niður og lét taka syni Knúts af lífi.

Birgir er oft sagður hafa stofnað borgina Stokkhólm en þáttur hans í því er þó óviss. Hann var síðasti jarlinn í Svíþjóð, titillinn var aldrei notaður eftir lát hans.

Ingibjörg kona Birgis dó árið 1254 en 1261 giftist hann Mechthilde af Holtsetalandi, ekkju Abels Valdimarssonar Danakonungs. Hann dó 21. október 1266 og er grafinn í Varnhems-kirkju á Vestur-Gautlandi.

Á meðal barna Birgis og Ingibjargar voru Ríkissa sem giftist fyrst Hákoni unga og síðar Hinrik fursta af Werle í Mecklenburg; Valdimar konungur; Magnús hlöðulás, konungur; Eiríkur hertogi af Smálöndum, sem sagður er hafa gefið sjálfum sér nafnið Eiríkur alls-ekki, og Bengt eða Benedikt, hertogi af Finnlandi og biskup af Linköping. Einnig átti Birgir soninn Gregers.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]