Ilse Bing
Ilse Bing (23. mars 1899 – 10. mars 1998) var þýskur ljósmyndari sem er þekkt fyrir framúrstefnulegar ljósmyndir af arkitektúr og portrettmyndir frá millistríðsárunum.
Ilse Bing var dóttir kaupmannshjóna í Frankfurt. Foreldrar hennar voru gyðingar. Hún fékk fyrstu myndavélina sína að gjöf 14 ára gömul, en tók fyrst að nota ljósmyndina markvisst sem miðil þegar hún vann að ritgerð um þýska 18. aldar arkitektinn Friedrich Gilly í listasögunámi. Árið 1929 gafst hún upp á náminu og sneri sér alfarið að ljósmyndun. Hún keypti sér myndavél af gerðinni Leica, sem þá var nýkomin út, og árið eftir flutti hún til Parísar. Þar fékk hún aðgang að myrkraherbergi og verkefni sem fréttaljósmyndari.[1] Eitt af því sem einkenndi verk hennar var vinna hennar í myrkraherberginu þar sem hún framkallaði allar myndir sínar sjálf, og nákvæm og sérkennileg stækkun og klipping.[2]
Í París reis hún hratt upp á stjörnuhimininn. Ljósmyndir hennar birtust á síðum tímarita eins og Le Monde Illustre, Harper's Bazaar og Vogue[3] og hún var kölluð „drottning Leicunnar“.[4] Í París kynntist hún píanóleikaranum Konrad Wolff sem hún giftist nokkrum árum síðar. Árið 1937 fór hún til New York þar sem verk hennar voru sýnd á tímamótasýningunni „Photography 1839–1937“ í Museum of Modern Art.
Þegar Þjóðverjar hertóku París 1940 voru þau Wolff, sem líka var gyðingur, flutt í aðskildar fangabúðir í Suður-Frakklandi. Ári síðar tókst þeim að fá vegabréfsáritun til Bandaríkjanna og fluttu til New York. Þar átti hún erfitt með að fá verkefni og var þekktust fyrir myndir af börnum. Hún talaði um að árið 1947 hefði hún uppgötvað að stíll hennar hefði breyst við að flytja til New York; mýktin hefði horfið og í staðinn komið harðari og skarpari línur sem endurspegluðu líðan hennar á þeim tíma.[5] Árið 1959 hætti hún ljósmyndun og fékkst eftir það við klippiverk og textaverk.
Á 8. áratugnum vaknaði nýr áhugi á verkum hennar og þrjár bækur komu út eftir hana. Hún ferðaðist víða og hélt fyrirlestra um ljósmyndun, skrifaði ljóð og vann teikningar. Hún náði næstum 99 ára aldri og lést í New York.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Schmalbach, Hilary (1996). Ilse Bing: Fotografien 1929-1956. Aachen. bls. 107. ISBN 3-929203-12-X.
- ↑ Barrett, Nancy C. (1985). Ilse Bing: Three Decades of Photography. bls. 9. ISBN 0-89494-022-8.
- ↑ webmaster@vam.ac.uk, Victoria and Albert Museum, Online Museum, Web Team. „Ilse Bing Biography“. www.vam.ac.uk (enska). Sótt 9. mars 2018.
- ↑ arts, Roberta Hershenson; Roberta Hershenson writes frequently about the (23. febrúar 1986). „Camera Pioneer Aluted at Icp“. The New York Times (bandarísk enska). ISSN 0362-4331. Sótt 4. mars 2018.
- ↑ „Ilse Bing | Jewish Women's Archive“. jwa.org (enska). Sótt 9. mars 2018.