Fara í innihald

IUPAC-nafnakerfið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá IUPAC-heiti)

IUPAC-nafnakerfið er kerfisbundin leið til að gefa lífrænum efnasamböndum nöfn sem kallast IUPAC-heiti. Í því er reynt að gefa hverju efni nafn sem segir ótvírætt til um byggingarformúlu þess. Nafnakerfið notast við fjölda for- og viðskeyta og inn í heitin er skeytt nöfnum og staðsetningu virkra hópa.

Notast er við ákveðin forskeyti háð fjölda efniseinda. Notuð eru tvö mismunandi forskeyti, eftir því hvort við er átt fjölda kolefnisatóma eða annarra efniseinda.

FjöldiKolefniÖnnur efni
1metmón/-
2et
3próptrí
4búttetra
5pentpenta
6hex
7hept
8okt
9nón
10deka
11undek
12dodek

Beinkeðjualkanar hafa viðskeytið -an. Einfaldasti alkaninn er þannig metan, CH4. Hringlaga alkanar hafa einnig forskeytið sýkló-; þannig er C4H8 sýklóbútan.

Greindar alkankeðjur eru meðhöndlaðar sem beinar keðjur með alkýlhópum tengdum. Sem forskeyti er tala þess kolefnis sem alkýlhópurinn tengist við, og á eftir fylgir stofn sá sem á við fjölda atóma í alkýlhópnum. Hann ber viðskeytið -ýl, og er skeytt á grunnnafn keðjunnar. Þannig verður (CH3)2CHCH3, ísóbútan, að 2-metýlprópan, þar sem CH3, metýl, tengist á annað kolefni lengstu kolefnakeðjunnar, sem hefur þrjú atóm. Þar sem ekki getur verið til annað en 2-metýlprópan (1-metýlprópan væri bútan), má sleppa tölunni; þannig verður það einfaldlega metýlprópan.

Komi upp vafi varðandi tölugjöf, hvað varðar þann enda sem talið er frá, þá er alltaf talið þannig að virkir hópar fái sem lægst tölugildi.

Séu fleiri en einn sams konar hópur eru tölurnar aðgreindar með kommum, og dí-, trí-, tetra-, o.s.frv. bætt framan á heiti hans. Þannig verður C(CH3)4 að 2,2 dímetýlprópan. Ef hóparnir eru mismunandi er þeim raðað í stafrófsröð, og þeir aðskildir með kommu.

Flóknari hópar fá nafn sem lýsir byggingu þeirra, og eru númeraðir frá tengipunkti sínum. Þannig er 4-(1-metýlprópýl)oktan oktankeðja með própýlhóp tengdan við fjórða kolefnið, en metýlhópur er tengdur við kolefnið sem næst er meginkeðjunni.

Alkenar og alkýnar

[breyta | breyta frumkóða]

Alkenar bera nöfn meginkeðjunnar, með viðskeytið -en, og innskeytta tölu sem gefur til kynna staðsetningu tvítengisins. CH2=CHCH2CH3 er bút-1-en. Ekki er þörf á tölum í eten og própen, þar sem enginn vafi er á staðsetningu tvítengis í þeim. Aftur er lægsta tala notuð.

Ef tvítengi eru fleiri, breytist viðskeytið í -díen, -tríen, o.s.frv.: CH2=CHCH=CH2 er búta-1,3-díen.

Alkýnar nota sama kerfi, með viðskeytinu -ýn.

  Þessi efnafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.