Fara í innihald

Hvarmabólga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ungbarn með vægt einkenni af hvarmabólgu í hægra auga
Hvarmabólga

Hvarmabólga (fræðiheiti: blepharitis) er augnsjúkdómur. Hvarmabólga er yfirleitt góðkynja sjúkdómur sem veldur oft litlum einkennum en getur valdið augnskaða og sjóntapi ef erting frá hvörmum er svo mikil að slímhimna augans vex inn á hornhimnu eða hornhimna á auga þynnist og skemmist. Flestar gerðir hvarmabólgu eru ekki af völdum sýkingar og því er hvarmabólga sjaldnast smitandi. Talið er að hvarmabólga stafi af ofnæmi fyrir bakteríum á hvörmum og veldur það ofnæmi bólgu í hvörmum sem truflar oft starfsemi fitukirtla. Fitukirtlar í hvörmum framleiða fitu sem myndar brák ofan á tárum og það er þessi fitubrák sem veldur því að tár haldast á augum og smyrja þau. Ef þessi fitubrák er ekki nógu mikil þá gufa tárin upp eða renna niður og það veldur augnþurrki. Hvarmabólga getur líka valdið því að stíflaðir fitukirtlar blása út og valda augnloksþrymlum (fræðiheiti chalazion) en í börnum kemur það oft fram sem vogris (fræðiheiti stye).

Hvarmabólga virðist tengjast litarefni í húð og er algengari hjá ljóshærðu fólki og rauðhærðu. Fólki með Downs heilkenni er hættara við hvarmabólgu en öðrum. Sum lyf geta stuðlað að hvarmabólgu. Þar á meðal er lyfið Roaccutane. Hvarmabólga er mjög algeng hjá þeim sem eru með húðsjúkdóma eins og flösuexem (seborrhois dermatitis) og rósaróða (rosacea).

Helstu einkenni hvarmabólgu eru sviði í augum, óskýr sjón, pirringur eins og aðskotahlutur sé í auga, kláði, roði, óþægindi í augum og bjúgur á hvörmum. Meðferð við hvarmabólgu er að setja heita vatnsbakstra við augu og er stundum mikið útþynntu barnasjampó blandað í vatnið en það er talið bakteríudrepandi. Einnig er talið til bóta að taka lýsi eða Omega-3 fitusýruperlur.