Hughrifatónlist

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Minimoog voyager XL hljómborð sem einn frumkvöðull hughrifastefnunnar, Brian Eno, átti.

Hughrifatónlist eða andrúmstónlist (e. ambient music) er hljóðfæratónlistarstefna sem einblínir á hljóðmunstur frekar en melódískt form og er notuð til að skapa andrúmsloft eða hugarástand.[1] Enska lýsingarorðið ambient kemur af franska nafnorðinu ambiance sem merkir það sem er allt um kring, það sem umlykur.[2][3] Alþekkt dæmi um það sem umlykur mann allt um kring er sjálf andrúmsloftið og vegna hæfileika tónlistarinnar til að vera hluti af andrúmslofinu mætti einnig kalla hana andrúmstónlist. Þá ber að greina á milli annars vegar hins hlutlæga andrúmslofts, sem er efnablanda gastegunda í lofthjúpi jarðar og er almennt kallað loft[4] og hins vegar hins huglæga andrúmslofts, sem er andleg upplifun einstaklingsins og umhverfi sínu.

Brian Eno var frumkvöðull hughrifastefnunnar á áttunda áratugi síðustu aldar. Á árunum 1978 til 1982 gef hann út fjögurra platna seríu. Þessa seríu er talað um sem ambientseríu Brians Eno þó aðeins tvær þeirra séu að öllu leiti eftir hann sjálfan. Þær eru fyrsta og síðasta plata seríunnar: Ambient 1: Music for Airports og Ambient 4: On Land. Ambient 2: The Plateau of Mirror er samstarfsverkefni Enos og tónsmiðsins Harolds Budd og Ambient 3: Day of Radiance samanstendur af tónverkum eftir Laraaji, spiluðum á það sem þeir kalla á ensku „Hammered Dulcimer“ en það er einhvers konar trapísulaga strengjahljóðfæri.[5]

Einkenni[breyta | breyta frumkóða]

Þegar kemur að flokkun tónlistar eru ekki allir sammála. Hughrifatónlist er gjarnan flokkuð sem nýaldarstefna en hana er einnig hægt að flokka sem raftónlist. Raftónlistarflokkurinn skilgreinist út frá framleiðluferli tónlistarinnar. Raftónlist notast við rafræn hljóðfæri, eins og hljóðgerfla og tónlistarforrit sem hljóðfæri. Það gerir andrúmstónlistin líka að miklu leyti en stefnan takmarkast þó alls ekki við notkun slíkra hljóðfæra, það er reyndar vinsælt að nota órafmögnuð hljóðfæri (e. acoustic) innan hennar. Sköpun hughrifatónlistar felst samt meira í hljóðvinnslu í hljóðverinu heldur en sköpun margra annarra tónlistarstefna. Hughrifatónlist felst nefnilega frekar í hljómi heldur en í tóni.

Þannig er framleiðsluferli hughrifatónlistar rafrænt að miklu leyti en það er þó ekki þar með sagt að stefnan sé rafstefna því að það segir hvergi til um það að hughrifalag megi ekki vera algjörlega órafmagnað.[6] Skilgreiningaratriði nýaldarstefnunnar segja ekkert til um framleiðsluferli tónlistarinnar. Í raun er „nýaldartónlist“ regnhlífarhugtak sem nær yfir margar mismunandi tónlistarstefnur sem eiga fátt annað sameiginlegt en að passa ekki, eða passa illa, í aðra flokka. Nýaldartónlist er samt gegnsætt hugtak, enda nefndist hún eftir því hugarfari að heimurinn væri að þróast og að ný öld væri að renna upp, sem var algengt á áttunda og níunda áratuginum. Auðvitað er framtíðarsýn einstaka nýaldartónlistarmannsins persónubundin en almenna grunnhugmyndin er sú að á nýrri öld tónlistar sé ný tegund hlustunar, öfugt við raftónlistina sem einkennist af nýrri tegund spilunar. Hughrifatónlistin sjálf, sem stefna, hrærist í hugmyndafræði beggja flokka, en flokkarnir skarast greinilega og það væri því óþarfa ofurflokkun að segja stefnan tilheyri öðrum en ekki hinum.[7]

Undirstefnur[breyta | breyta frumkóða]

Hughrifatónlist flokkast í undirstefnur. Undirstefnurnar eru margar og skilgreiningaratriði þeirra mismunandi. Flestar þessara undirstefna einkennast af hugarástandinu sem þær eiga að skapa.

Drungatónlist (e. Dark Ambient) fæst við hinn óþæginlega eða „slæma“ hluta tilfinningarófsins, þær geðshræringar sem enskumælandi fólk gæti kallað „dark emotions“. Þaðan er nafnið komið. Hljómlandslag (e. Soundscape) dimmrar hughrifatónlistar er þess vegna drungalegt og jafnvel óþæginlegt. Platan Ambient 4: On Land eftir Brian Eno er gott dæmi um þetta fyrirbæri. Hún er dularfull og drungaleg og vekur hjá manni þá óþæginlegu tilfinningu eins og hann sé staddur á framandi stað. Aphex Twin, eða Richard D. James, sem er þekktur fyrir dimma og drungalega tónlist sína, gaf líka út andrúmsplötu árið 1994 titlaða Selected Ambient Works. Seinna bindi þeirrar plötu er líka mjög gott dæmi um drungatónlist.[8]

Geimtónlist (e. Space Music) er óræðari og miklu víðtækari en drungatónlistin. Geimtónlist tegir sig út fyrir hughrifastefnuna og nær yfir margar fleiri tegundir nýaldartónlistar. Reyndar mætti kalla hvaða rólegu tónlist sem er geimtónlist ef hún skapar upplifun sem svipar til hugrænnar víðáttu, pláss til að hugsa. Þannig er hún síður undirstefna og frekar samhliða stefna og oft eru þessi hugtök notuð sem samheiti þó þau beri ekki nákvæmlega sama gildið.[9]

Náttúrutónlist (e. Nature-Inspired Ambient) skilgreinist út frá innblæstri fengnum frá náttúrunni og einkennist af notkun náttúruhljóða á við fuglasöng eða lækjarnið. Náttúruhljóðin eru þá samt notuð sem tæki í þeim tilgangi að móta hugarástand hlustanda og vekja tilfinningaleg viðbrögð á sama hátt og náttúran gerir.[10]

Undir hughrifatónlist heyra líka tveir flokkar sem eru almenningi alls ekki svo ókunnugir, þó fæstir tengi þá við stefnuna í fljótu bragði. Þeir eru kvikmyndatónlist og lyftutónlist. Þær tegundir tónlistarstefnunnar spila meira og öðruvísi út á að vera partur af umhverfinu. Öll hughrifatónlist er hönnuð sem partur af umhverfi hlustanda, en kvikmynda- og lyftutónlist er sérstaklega hönnuð til þess að beinlínis vera hluti umhverfisins.

Það segir sig sjálft að kvikmyndatónlist er búin til fyrir kvikmyndir en hlutverk hennar er að skapa ákveðna stemningu og hjálpa áhorfanda að túlka kvikmyndina. Hugtakið nær þó ekki yfir tónlist sem er notuð í kvikmyndir en er ekki sérstaklega samin fyrir þær. Kvikmyndatónlist á mjög mikið sameiginlegt með klassískri tónlist. Mjög mikið af kvikmyndatónlist er samið fyrir sinfóníur eða aðrar klassískar hljómsveitir. Klassíska formið er þó ekki algilt. Eins og í annarri andrúmstónlist er allt leifilegt svo lengi sem höfundur hefur túlkun kvikmyndarinnar fremst í huga og að tónlistin auðgi upplifun áhorfanda. Hljómsveitin The Cinematic Orchestra leikur sér með hugtakið kvikmyndatónlist. Hljómsveitarskipun svipar til sónfónía og sveitin semur „kvikmyndatónlist“ en þó ekki fyrir kvikmyndir. Það er því umdeilanlegt hvort tónlistin þeirra sé kvikmyndatónlist eða síðrokk.

Lyftutónlist er meira villandi hugtak en kvikmyndatónlist en nafnið er þaðan komið að algengt er að heyra hana í lyftu (þó benda mætti á að sennilega hafa fleiri heyrt lyfutónlist í kvikmynd en í lyftu). Lyftutónlist er hönnuð fyrir almenningsrými, eins og lyftur og verslunarklasa, og hugsunin á bak við hönnunina er sú að tónlistin skuli ekki trufla neinn né í raun láti mikið á sér bera. Hún á að vera alveg hlutlaus svo engum mislíki hún en hún á líka að vera róandi og vægt uppliftandi, þannig að almennur hlustandi sé frekar í góðu skapi en vondu.[11]

Áhrif[breyta | breyta frumkóða]

Áhrif hughrifastefnunnar á tónlistarheiminn eru mjög víðtæk. Svo áhrifarík er stefnan að það mætti segja að ekki sé til sú tónlistarstefna sem er algjörlega ósnert af ambienti. Öll róleg eða hæg tónlist er á einhvern hátt undir áhrifum andrúmstónlistar, þá helst vegna þess hvað róleg tónlist felur í sér þessa nýju tegund hlustunar. Sem dæmi snýst grunnhugmynd sýrurappsins, að hægja á taktinum, um nýja tegund upplifunar á rappi. Hægi takturinn gefur sýrurappinu ákveðið andrúmsyfirbragð. Sýrurappið er bara ein stefna af fjölmörgum sem komu upp úr raftónlistarbylgju tíunda áratugarins en þær voru langflestar á einn eða annan hátt undir áhrifum andrúmstónlistar. Andrúmstónlistin hafði ekki endilega grundvallaráhrif á allar þær stefnur en áhrifin náðu til einstaka listamanna innan þeirra allra. Áhrifin voru líka mikil í rokkinu. Framsæknir rokkarar voru ófeimnir við að innlima þessa framsókn í sína tónlist. Þess háttar tilraunastarfsemi hjá framsæknum hljómsveitum eins og Bark Psychosis, Slint og Tortoise varð til sköpunar síðrokks en síðrokk er dæmi um tónlistarstefnu sem byggir á mjög sterkum áhrifum hughrifatónlistar. Síðrokk er aðeins rokk í þeim skilningi að hefðbundin rokkhljóðfæri (gítar, bassa, trommur og píanó) eru í fyrirrúmi. Síðrokkið yfirgefur allar fastar reglur rokksins, þar á meðal hefðbundna hlustun, og tileinkar sér ýmis ný gildi sem verða til á nýrri öld tónlistar. Hefðbundið form laga, með versum og viðlögum, er líka skilið eftir. Í staðinn eru lögin oftast löng tónverk sem snúast um uppbyggingu ákveðins tónmunsturs eða melódíu. Þá er munstrið, eða melódían, tekið alveg frá lágpunkti sínum og uppbyggingin leiðir áheyranda í gegnum lagið að hápunkti þess. Notkun umhverfishljóða og hljóðbrota er algeng í síðrokkinu til þess að setja stemninguna, til þess að setja áheyranda í rétt hugarástand. Önnur rokkstefna undir miklum áhrifum ambíents var skóglápið. Skógláparar voru rokkarar sem umluktu áheyrendur með hljómfögrum hávaða. Talað er um að skógláparar hafi skapað hljóðvegg (e. Wall of Sound) en það hugtak spilar með hugmyndina að hægt sé að fylla upp í rými með hljóði. Sú pæling er beint komin úr andrúmstónlistinni þó að þar sé ekki mikið um hávaða.

Hljómsveitir[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. „http://dictionary.reference.com/browse/ambient+music“.
 2. „http://dictionary.reference.com/browse/ambiance“.
 3. „http://www.merriam-webster.com/dictionary/ambient“.
 4. „http://www.stjornufraedi.is/solkerfid/jordin/lofthjupur-jardar/“.
 5. „http://pdfhacks.com/eno/BE.pdf“ (PDF).
 6. „http://web.archive.org/web/20110720082957/http://www.synthtopia.com/Articles/ElectronicMusicStylesDark.html“.
 7. „New Age Music Made Simple“.
 8. „http://web.archive.org/web/20110720082957/http://www.synthtopia.com/Articles/ElectronicMusicStylesDark.html“.
 9. „http://www.hos.com/aboutmusic.html“.
 10. „http://www.ambientmusicgarden.com/royalty-free-music-downloads/nature-inspired-ambient.html“.
 11. „http://www.definitions.net/definition/elevator+music“.