Holdhnóska

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Holdhnjóska eða holdhnúskar nefnast útbrot á útigangshrossum sem koma til af kulda og vætu. Tíðnin er mest að hausti og vetri þegar tíð er rysjótt.

Orsakir og einkenni[breyta | breyta frumkóða]

Þegar holdhnjóskar myndast koma hrúður og sár á hrygg og lend hrossins. Þetta kemur vegna þess að efsta lag húðarinnar blotnar og springur. Leðurhúðin verður varnarlítil en hún á að sjá um að halda hita á hrossinu. Þá veita fitukirtlar fitu út á yfirborð líkamans en sú fita klessist í hár hrossins.

Séu holdhnjúskarnir rifnir af sést í bera kvikuna þar. Hross sem þjáð eru kvillanum geta fljótt lagt af og verða kulvísir þar sem hárin og leðurhúðin virka ekki lengur á réttan hátt til að halda á þeim hita. Sum hross fá það mikla hnjúska að ekki er hægt að leggja á þau hnakk fyrr en hnjóskarnir eru dottnir af.

Meðferð[breyta | breyta frumkóða]

Hross í hagagöngu þurfa að hafa aðgang að góðu skjóli en það er mikilvægasta aðgerðin til að koma í veg fyrir holdhnjóska. Eftir því sem hárin vaxa lyftast holdhnjóskarnir upp. Hægt er að mýkja hnjóskana mep grænsápu eða mjúkri olíu. Einnig er hægt að örva hárvöxt með bíótín- og vítamíngjöf.