Fara í innihald

Hnefatafl

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hneftafl)
Spilaborð í hnefatafli
Byrjunaruppstilling á tablut spilaborði

Hnefatafl eða hneftafl er borðspil sem spilað var á söguöld. Spilið líkist skák og er herkænskuleikur þar sem ráðist er á konung. Spilareglur voru mismunandi. Leikborð í hnefatafli eru misstór og geta verið frá 7x7 reitir og upp í 19x19 reiti. Markmiðið er alltaf að kóngurinn á að reyna að komast út í horn með hjálp hinna hvítu liðsmanna sinna og svartir eiga að reyna að umkringja kónginn.

Hnefatafl er spilað á reitaborði og það eru tvær andstæðar herfylkingar og hefur önnur helmingi fleiri leikmenn en hinn. Sú fylking sem færri leikmenn hefur er hins vegar með kónginn. Markmið kóngsfylkingar er að láta kónginn sleppa. Í sumum útgáfum er hann kominn í skjól ef hann nær til einhvers reits sem er í útjaðri en í öðrum útgáfum þá er hann fyrst kominn í skjól þegar hann nær í hornreiti. Kóngurinn er alltaf staddur í miðju leikborðsins þegar leikurinn hefst. Mismunandi reglur er hvaða reitir spilaborðs eru skilgreindir kóngsreitir og hvort óvinir konungs mega lenda á þeim reitum.

Leikborði var skipt var í ferhyrnda reiti og leikmenn voru kringlóttar plötur úr gleri eða steini og nefndust þær töflur eða taflir. Þær voru ljósar og dökkar. Með töflunum var kóngur sem kallaður var hnefi. Tengingskast réði hvernig leika skyldi og nefndist teningurinn húnn.

Afbrigði af tafli sem skylt er hnefatafli var spilað í Lapplandi í Norður-Svíþjóð. Grasafræðingurinn Linné lýsir því í frásögn af ferðum sínum um Lappland árið 1732. Það heitir tablut. Tablut er leikið á borði með 81 reit eða 9 reitir á hvern kant. Með öðru liðinu er kóngur og hann stendur á miðjureit og honum fylgja 8 Svíar sem standa á skyggðu reitunum kringum hann. Í hinu liðinu eru 16 Rússar sem deilt er á fjóra staði. Allir mennirnir hafa sama gang sem er eins og hrókur í skák. Sá sem hefur kónginn reynir að koma honum út á jaðar spilaborðsins. Maður er drepinn þannig ef tveir menn andstæðings fara á næstu reiti beggja vegna við hann og er sá drepni þá tekinn af spilaborðinu.

Hnefatafl í íslenskum fornritum

[breyta | breyta frumkóða]

Í Hervarar saga og Heiðreks eru vísnagáturnar Gátur Gestumblinda en þar kemur Óðinn á fund Heiðreks konungs í líki mannsins Gestumblinda og leggur fyrir hann gátur. í tveim gátum er spurt um hnefatafl:

Hverjar eru þær brúðir
er um sinn drottinn
vopnlausar vega.
Hinar jarpari (dekkri) hlífa
um alla daga
en hinar fegri (ljósari) fara?

Konungur ræður gátuna svo í einu handriti: "Góð er gáta þín Gestumblindi. Getið er þeirra. Það er hneftafl. Hinar dökkri verja hnefann en hvítar sækja" en í öðru handriti stendur "það er hneftafl, töflur drepast vápnalausar um hnefann ok fylja honum hinar rauðu".

Hvað er þat dýra,
er drepr fé manna
ok er járni kring utan.
Horn hefur átta
en höfuð ekki
ok rennur, er má?

Konungur ræður gátuna þannig að líklega er átt við tening sem kastað er í hneftafli: "Góð er gáta þín Gestumblindi. Getið er þeirra. Það er húnn í hnefatafli. Hann heitir sem björn. Hann rennur þegar honum er kastað". Í Völuspá er upphafi fyrir Ragnarök lýst þannig að Æsir hafi teflt teitir í túni og að eftir Ragnarök munu undursamlegar gullnar töflur finnast í grasi.

Í Ragnars sögu loðbrókar tefla synir Ragnars hneftafl þegar þeim berst frétt um lát föður síns. Í Friðþjóðs sögu frækna frá 14. öld er talað um hneftafl. Hnefinn virðist hafa verið aðalmaður spilsins og með honum eru jarpar (rauðar) töflur sem verja hann en ljósar töflur sækja að honum. Teningum virðist hafa verið kastað og það ráðið hvaða menn voru drepnir

Dæmi um eina útfærslu:

Hvítur byrjar með hvíta taflmenn og kónginn en svartur er með fleiri taflmenn. Markmið hvíts er að koma kóngnum í eitt af hornum leikborðsin en svartur á hins vegar að reyna að króa kónginn inni. Ekki má drepa kónginn en til að drepa annan leikmann þarf að búa til samloku með að setja menn sitt hvoru megin við mann andstæðingsins. Taflmenn mega aðeins hreyfast eftir beinum línum, þeir geta fært sig eins langt og mögulegt er eins og hrókur í nútíma skák en þeir geta ekki fært sig eftir skálínum. Ekki má hreyfa mann yfir aðra menn á leikborðinu.

Afbrigði af töflum

[breyta | breyta frumkóða]

Í Þjóðminjasafni Íslands er varðveitt hnefa­tafl sem fannst í kumli, kennt við bæinn Baldursheim í Mý­vatnssveit. Spilareglur taflsins eru ekki lengur þekktar.

  • Björn Bjarnason, „Fáein orð um íþróttir og skemmtanir fornmanna“, Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags (01.01.1904): 58-88.
  • Björn Brynjúlfur Björnsson „Hverjar eru reglurnar í hneftafli?“. Vísindavefurinn. (Skoðað 1.1.2014).
  • Jón Torfason. „Hnefatafl“, Lesbók Morgunblaðsins, 63. áeg, 42. tölublað (05.11.1988), blaðsíða 15.
  • Nicée, Sire Bohémond de. „Hnefatafl: The Viking Game“ (Skoðað 1. janúar 2014).
  • Ókunnur höf. „Hnefatafl“ Geymt 14 janúar 2014 í Wayback Machine á viking-source.com (Skoðað 1. janúar 2014).