Fara í innihald

Hnatthöfði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hnatthöfði á málverki eftir John Pettie.

Hnatthöfði (enska: Roundhead) var uppnefni á stuðningsmönnum enska þingsins í Ensku borgarastyrjöldinni. Þeir voru líka kallaðir þingsinnar (parliamentarians). Nafnið var dregið af því að sumir púritanar (en alls ekki allir) klipptu hár sitt stutt í andstöðu við hirðtískuna þar sem slöngulokkar voru ríkjandi. Stuðningsmenn konungs voru kallaðir ýmist konungssinnar (royalists) eða kavalerar (cavaliers). Hnatthöfðar studdu upphaflega þingbundna konungsstjórn en undir lok borgarastyrjaldarinnar var Karl 1. konungur orðinn svo óvinsæll að lýðveldissinnar eins og Oliver Cromwell gátu afnumið konungsvaldið alveg og komið Enska samveldinu á fót.

Púrítanar og öldungakirkjumenn í Englandi voru nær undantekningarlaust hnatthöfðar (burtséð frá því hvernig þeir klipptu hár sitt) en margir hnatthöfðar vildu þó halda ensku biskupakirkjunni eins og margir kavalerar. Pólitískir flokkar hnatthöfða voru meðal annars grafararnir (diggers), jöfnunarsinnar (levellers) og menn fimmta ríkisins.

Orðið var notað fram á síðari hluta 17. aldar þegar annað niðrandi heiti, Viggi, var fundið upp yfir andstæðinga einveldis.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.