Hlóðir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hlóðir í eldhúsi í Byggðasafni Skagfirðinga í Glaumbæ. Á öðrum hlóðunum er stór pottur með hlemmi settur beint á hlóðirnar, á hinum er ketill á járngrind.

Hlóðir er opið eldstæði hlaðið úr steinum. Á Íslandi virðast eldstæði sem notuð voru til matargerðar upphaflega hafa verið úti á miðju gólfi og verið fremur lág en síðar á öldum hækkuðu þau og voru víðast hvar færð upp að veggjum og þannig eru flestar þær hlóðir sem varðveist hafa. Aftan við þær var í eldvarnaskyni svokallað bakhlað, oftast úr grjóti en þegar kom fram á 20. öld var stundum notuð járnplata.

Í hverjum hlóðum gátu verið nokkur eldstæði, oft misstór, aðskilin með hellum eða steinhleðslum. Í kringum hlóðirnar var grjóthleðsla, hlóðabálkur, og þar voru pottar, katlar og önnur tól geymd. Í hverri eldstó var eldhol, þar sem eldurinn logaði, og þar undir var oft annað hol, sem kallaðist öskustó eða ónn. Á milli hellanna yfir öskustónni var rifa og um hana trekkti undir eldinn til að glæða hann. Öskunni var svo skarað ofan í öskustóna og hún látin kólna þar.

Einstakir hlutar hlóða eru öskustó, öskuónn, hlóðahella, eldhella, eldstó, hlóðavik, hlóðasteinar, hlöð og hlöðusteinar. Stundum var skarað var í eldinn með teini (skörungi) og físibelgur hafður við eldstó.