Hin furðulegu ævintýri Birnu Borgfjörð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa frönsku útgáfu bókarinnar Birna og ófreskjan.

Hin furðulegu ævintýri Birnu Borgfjörð (franska: Les Aventures Extraordinaires d´Adèle Blanc-Sec) er frönsk teiknimyndasería eftir listamanninn Jacques Tardi. Serían hóf göngu sína í dagblaðinu Sud-Ouest árið 1976. Eins og nafnið bendir til fjalla bækurnar um undarleg og æði fjarstæðukennd ævintýri aðalpersónunnar, hinnar rauðhærðu og ráðagóðu Birnu Borgfjörð, sem flækist í alls kyns furðuleg sakamál í heimaborg sinni París á árunum í kringum fyrri heimsstyrjöld. Myndasögurnar komu út nokkuð reglulega framan af á áttunda og níunda áratugnum, náðu töluverðum vinsældum og eru meðal þekktustu verka Tardi. Eftir fyrstu fimm sögurnar varð útgáfa þeirra stopulli og liðu jafnan nokkur ár á milli bóka. Níunda bókin kom út árið 2007 og sú tíunda og síðasta árið 2022. Það sem er sérstakt við sögurnar er að aðalpersónan eldist og breytist eftir því sem sögutíma vindur fram, nokkuð sem er óvenjulegt hjá myndasöguhetjum.

Fyrsta bókin í seríunni, Birna og ófreskjan, var gefin út af Iðunni í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar árið 1978, en ekkert framhald varð á útgáfu bókanna á íslensku. Bækurnar hafa verið þýddar á fjölmörg önnur tungumál, svo sem ensku (að hluta), dönsku, hollensku, þýsku, spænsku og ítölsku. Í þessum þýðingum öllum er nafni aðalpersónunnar (Adèle) haldið óbreyttu, ef undan eru skildar íslenska og hollenska þýðingin, en nafn hennar á frummálinu er orðaleikur sem vísar til þurrs hvítvíns (blanc-sec).

Árið 2010 var frumsýnd frönsk kvikmynd sem byggði á nokkrum af myndasögunum, Ævintýri Adèle Blanc-Sec (Les Aventures extraordinaires d´Adèle Blanc-Sec), í leikstjórn Luc Besson.

Myndasögur[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1976: Adèle et la Bête (ísl. útg. 1978: Birna og ófreskjan)
  2. 1976: Le Démon de la Tour Eiffel
  3. 1977: Le Savant fou
  4. 1978: Momies en folie
  5. 1981: Le Secret de la salamandre
  6. 1985: Le Noyé à deux têtes
  7. 1994: Tous des monstres !
  8. 1998: Le Mystère des profondeurs
  9. 2007: Le Labyrinthe infernal
  10. 2022: Le Bébé des Buttes-Chaumont

Höfundur hefur lýst því yfir að 10. bókin, Le Bébé des Buttes-Chaumont, verði sú síðasta í röðinni.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]