Fara í innihald

Helgi Hrólfsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Helgi Hrólfsson var landnámsmaður í Skutulsfirði. Hann var sonur Hrólfs í Gnúpufelli, sonar Helga magra og var að sögn Landnámu „getinn austur“ (í Noregi) og upplenskur í móðurætt. Hefur Helgi því fæðst áður en faðir hans fór til Íslands og verið óskilgetinn.

Hann ólst upp hjá frændum sínum í Noregi og fór til Íslands þegar hann var fullorðinn að leita ættmenna sinna. Hann kom í Eyjafjörð, sem þá var fullnuminn, en faðir hans var þá kvæntur og átti mörg börn. Líklega hefur Helgi ekki fengið þær móttökur sem hann vænti, að minnsta kosti ætlaði hann þegar aftur til Noregs en skip hans varð afturreka, hraktist inn í Súgandafjörð og var hann þar um veturinn hjá Hallvarði súganda. Um vorið fór hann að leita sér bústaðar og fór inn í Ísafjarðardjúp, þar sem enn var ónumið land. Þar er sagt að hann hafi fundið skutul í flæðarmáli í firði einum og hafi numið fjörðinn, þó ekki allan, og gefið honum nafn eftir skutlinum.

Landnáma segir að sonur Helga hafi verið Þorsteinn ógæfa, sem fór utan og vó hirðmann Hákonar jarls Grjótgarðssonar. Það stenst þó engan veginn tímans vegna, ef ættfærsla Helga er rétt.

  • „Landnámabók. Af snerpa.is“.