Fara í innihald

Hallgrímur Eldjárnsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hallgrímur Eldjárnsson (1. ágúst 1723 – 12. apríl 1779) var prestur, prófastur, og skáld.

Ævi og störf

[breyta | breyta frumkóða]

Hallgrímur fæddist á Auðbrekku í Hörgárdal. Foreldrar hans voru Eldjárn Jónsson prestur á Möðruvöllum (d. nóv. 1725) og Þórvör Egilsdóttir frá Glaumbæ (d. 1724).

Hallgrímur ólst upp á Hrafnagili hjá Þorsteini prófasti Ketilssyni. Hann fór í Hólaskóla og útskrifaðist þaðan 1744. Sigldi til Hafnar og lauk embættisprófi í guðfræði 1746. Hóf búskap á Kristnesi 1747 og árið eftir var hann vígður aðstoðarprestur Þorsteins fóstra síns í Hrafnagili. Fékk Bægisá 1751. Sótti um Laufás og flutti þangað 1768 en sótti svo um Grenjaðarstað sama ár og fékk. Þangað flutti hann 1769 og sat þar til æviloka.[1]

Kveðskapur

[breyta | breyta frumkóða]

Hallgrímur var skáld gott og orti bæði trúarleg og veraldleg kvæði en fátt hefur verið prentað og ekkert getur kallast þekkt í dag.

Minningakvæði um Hallgrím Pétursson (prentað með Hallgrímskveri frá og með útgáfunni 1765)
Ævikvæði
Dúðadurtskvæði (prentað í Þjóðsögum Ólafs Davíðssonar)
Leppalúðakvæði
Grýlukvæði
Tröllaslagur (120 erinda bálkur gegn hrossaketsáti)
Vökulúður (prentaður í útfararminningu Magnúsar Gíslasonar amtmanns)
Sumarheilsan (hefur verið prentað)
Tíðavísur
Huggunarklasi, ort út af heilagri ritningu
Ljóðmæli yfir guðspjöll allra helgidaga

„Margt af kveðskap hans er ort af íþrótt enda var Hallgrímur talinn í röð fremstu skálda á sinni tíð. Öll er sú kveðandi þó löngu gleymd og rykfellur nú í kjöllurum og geymsluloftum safna. Hallgrímur var enginn nýjungamaður í ljóðagerð, hreintrúarmaður eins og vera bar á hans dögum og nokkuð vandlætingasamur. Skáldskapur hans og hugmyndir voru því lítt að skapi skeytingarminni manna en lausungarmeiri á síðari og breytnari tímum. Tilviljanir og tíska ráða víst talsverðu um það hvað telst mikill skáldskapur og hvað ekki.“[2] Barátta Hallgríms og yrkingar gegn hrossaketsáti hafa þótt nokkur ljóður á ráði hans, og hafa orðið að aðhlátursefni á síðari tímum, en þar var hann barn síns tíma.

Dæmi um kveðskap hans er eftirfarandi erindi sem hann orti er hann kvaddi Kaupmannahöfn og hélt heim að loknu námi þar 1746:

Far Hafnar frægi staður
far vel, þig aldrei sé eg meir
frá þér eg ferðast glaður
frá þér til Íslands geð mitt þreyr
föðurláð framar met eg
frið og náð hreppt þar get eg
en um þitt ráð, tönn fyrir tungu set eg.

Kona Hallgríms var Ólöf Jónsdóttir (d. 1757), dóttir Jóns Halldórssonar á Völlum í Svarfaðardal.

Börn:

  • Eldjárn stúdent (1748-1825)
  • Snjálaug (1748-1814)
  • Jón prestur í Þingmúla (1749-1815)
  • Þorsteinn í Stærraárskógi (1752-1791)
  • Þórvör (1754-1764)
  • Ólöf (1755-1815)

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Hannes Þorsteinsson 1907. Guðfræðingatal. Stutt æfiágrip þeirra guðfræðinga er tekið hafa embættispróf við Kaupmannahafnarháskóla 1707-1907. Sögufélagið, Reykjavík.
  2. Halldór Ármann Sigurðsson 2002. Eldjárnsþáttur. Skagfirðingabók 28:137–204.