Fara í innihald

Hertzsprung-Russell-línuritið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá HR-línurit)

Hertzsprung-Russell-línuritið, eða HR-línurit, er dreifirit sem flokkar stjörnur eftir sýndarbirtu, hitastigi, ljósafli og lit. Að öllu jöfnu er „birtustig/ljósafl“ sett á y-ás þess „hitastig/litur“ á x-áss þess. Grafið kortleggur hverja stjörnu fyrir sig. Á grafinu er áberandi lina sem gengur þvert yfir það. Sú lína kallast „meginröð“ grafsins og eru langflestar stjörnur á þeirri línu, yfir 90%. Á meginröð dvelja stjörnur sem mest á æviskeiði sínu á meðan þær breyta vetni í helíum. Sólin okkar er á meginröð og kallast G2V-stjarna. HR-línuritið var búið til af Ejnar Hertzsprung og Henry Norris Russell árið 1910 og breytti miklu hvað varðaði sýn manna á æviskeið stjarna jafnt sem heimsmynd stjarneðlisfræðinnar.

Margar gerðir eru af HR-línuritinu. Enn eru ekki til skýrar reglur varðandi staðlað HR-línurit en líkt og áður hefur verið nefnt er viðurkendasti staðallinn að hitastig sé á x-ás þess og ljósafl á y-ás. Einnig eru tengsl á milli massa stjarna og staðsetningu þeirra á HR-línuritinu. Massi stjarna er oft settur upp sem hlutfall af massa sólar með skálínum á grafi.

Nokkrir hópar eru á dreifiritinu. Líkt og sést á mynd eru hvítir dvergar aðskildir meginröðinni. Þeir hafa sína eigin litrófsflokkun sem nefnist WD (e. white dwarf). Aðrir hópar eru til dæmis risarnir. Efst á HR-ritinu eru reginrisar (e. supergiants) og eftir á þeim koma risar. Til eru gerðir af HR-ritinu sem hafa einnig stað fyrir bjarta risa og undirmálsstjörnur.

  Þessi stjörnufræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.