Gylfi Gröndal
Gylfi Gröndal (17. apríl 1936 - 29. október 2006) var blaðamaður og ritstjóri. Hann starfaði sem blaðamaður í meira en þrjátíu ár og ritstýrði Fálkanum, Alþýðublaðinu, Vikunni og Samvinnunni. Hann gerði auk þess heimildaþætti um mörg skáld tuttugustu aldar fyrir Ríkisútvarpið.
Gylfi fæddist í Reykjavík 17. apríl 1936. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1957 lagði hann stund á íslensku við Háskóla Íslands, en hóf störf sem blaðamaður að því loknu.
Á síðari árum voru ritstörf hans aðalstarf. Gylfi Gröndal fékkst við ljóðagerð frá unga aldri. Árið 1954, eða þegar hann var átján ára birtust valin ljóð eftir hann í Ljóðum ungra skálda sem Magnús Ásgeirsson tók saman og árið 1956 birtust ljóð eftir hann í Árbók skálda, valin af Kristjáni Karlssyni. Gylfi gaf út nokkrar ljóðabækur og ljóð eftir hann hafa verið valin í kvæðasöfn jafnt hérlendis sem erlendis. Hann er þó þekktastur fyrir viðtalsbækur sínar og ævisögur sem eru hátt í 30 talsins. Hann ritaði til að mynda sögur fyrstu þriggja forseta Íslands. Margar af bókum hans fjalla um ævi kvenna, sérstaklega þeirra sem voru á undan sinni samtíð í jafnréttismálum. Fyrra bindi hans um Stein Steinarr sem út kom árið 2000 var tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár. Síðara bindið kom út ári síðar. Gylfi sendi frá sér ljóðabókina Eitt vor enn 2005.
Gylfi Gröndal lést 29. október 2006. Hann var kvæntur Þórönnu Tómasdóttur Gröndal framhaldsskólakennara og eiga þau þrjú börn.