Fara í innihald

Kóreskt ginseng

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Ginseng panax)
Ginseng
Panax quinquefolius blóm og aldin
Panax quinquefolius blóm og aldin
Vísindaleg flokkun
Ríki: Plantae
(óraðað): Angiosperms
(óraðað) Eudicots
(óraðað) Asterids
Ættbálkur: Apiales
Ætt: Araliaceae
Undirætt: Aralioideae
Ættkvísl: Panax
L.
Tegund

Subgenus Panax

Section Panax
Series Notoginseng
Panax notoginseng
Series Panax
Panax bipinnatifidus
Panax ginseng
Panax japonicus
Panax quinquefolius
Panax vietnamensis
Panax wangianus
Panax zingiberensis
Section Pseudoginseng
Panax pseudoginseng
Panax stipuleanatus

Subgenus Trifolius

Panax trifolius

Kóreskt ginseng (Panax ginseng) og amerískt gingseng (Panax quinquefolius) eru plöntur sem eru mikið notaðar í lækningaskyni. Það er erfitt að greina í sundur rætur, blóm og unnar afurðir af kóreska og ameríska ginsenginu, en það hefur leitt til ólöglegra viðskipta þar sem önnur tegundin er seld sem hin og öfugt.[1]

Nafnið er úr kínversku og er samsett úr orðunum rén sem þýðir maður og shēn sem er tegund af jurt, ástæðan er sennilega sú að rótin er greinótt og lítur út eins og mannslíkami.[2]

Ginseng á rætur sínar að rekja í skóglendi í norður-Kína og norður-Kóreu. Ameríska ginsengið vex í skóglendi í austurhluta Bandaríkjanna. Plantan krefst jarðvegs sem er ríkur af mold og er skuggsækin en það gerir ræktunina erfiða og því er lítið um villt vaxandi ginseng plöntur. Þar sem komið hefur verið upp ræktunaraðstöðu er auðvelt að tryggja góða mold og skugga. Hægt er að byrja að uppskera rótina eftir 3 ár en talið er að því eldri sem hún verður því betri. Þess vegna er talið að best sé að bíða í 5-10 ár áður en farið er að vinna með rótina.[3]

P.ginseng tilheyrir plöntufjölskyldunni Araliaceae, ætthvísl Aralia(en).[4] Ræktun kóreska ginsengsins er nú takmörkuð við nokkur svæði í Rússlandi og Kína, plantan vex ennþá villt og er villt vaxandi ginseng talið best. Núverandi framboð á markaði veltur aðallega á því hversu mikið er ræktað, en ræktunin er tímafrek og krefst mikillar vinnu. Aðallega er notast við rót sem fengin er með ræktun en einnig er hægt að framleiða lífivirka hluta ginsengs með líftækni. Allt ginseng sem kemur frá Suður-Kóreu er Panax ginseng, þjár tegundir eru ræktaðar í Kína P. ginseng Meyer, P. quinuefolius L. og P. notoginseng Burkill og í Kanada er aðallega P. quinquefolius L framleitt.[5]

Á sumrin myndast lítið knappskot á rót plöntunnar, það sest efst á svokölluð ör plöntunnar sem eru staðsett á hálsi rótarinnar, á hverju ári myndast nýtt knappskot efst á örinu, en með þessu er hægt að segja til um hvað plantan er gömul. Jarðstöngull plöntunnar dreifist ekki heldur myndar hann einungis eina plöntu, en sterkar rætur plöntunnar geta stundum haft tvo eða fleiri hálsa sem geta viðhaldið fleiri plöntum, þegar plönturnar fara að spíra eru það eldri plönturnar sem spíra fyrst. Talið er að þegar hausta tekur herpist ginseng rótin saman og grafist lengra niður í jörðina en við það myndast hrukkur í kringum rótina. Háls rótarinnar er alltaf að stækka og með þessu kemur hún í veg fyrir að hækkandi háls og knappskotin sem myndast ár hvert komist upp á yfirborðið. Á haustin þegar lauf plöntunnar hafa fallið af helst stöngullinn á plöntunni og hann helst oft á yfir allt árið. Yfir kaldann vetrartímann leggst plantan í dvala fram á vorið, á hverju ári myndast fleiri lauf á plöntunni s.s. eitt lauf birtist eftir fyrsta veturinn, tvö eftir annan o.s.fv. Plantan frævir sig sjálf(en) (e. self pollinating) og framleiðsla fræjanna á sér stað yfir sumartímann, lítil blóm birtast á neðri hluta stilksins í miðjuhluta laufakvíslsins. Ginseng blómin skreppa saman í nýrnalöguð ber sem eru rauð á lit, en berin birtast á plöntunni á öðru aldursári.[6]

P. ginseng er notað víða um heim í hinar ýmsar vörur. Það er til bæði eitt og sér og í blöndu með öðrum náttúruefnum. Fjölmörg lönd um allan heim selja vörur sem innihalda ginseng þar á meðal ísland.[7] Engar almennilegar tölur eru til um sölu á ginseng í heiminum og erfitt er að halda utan um hversu mikið er selt. Þau lönd sem rækta mest eru Suður-Kórea, Kína, Kanada og Bandaríkin. Heildarframleiðsla á ginseng í heimnum á ári eru 80,080 tonn en 99% af því er framleitt í þessum 4 ofangreindu löndum. Kína framleiðir mest af ginseng, næst á eftir kemur Suður-Kórea og svo Kanada. Kanada er stærsti útflutningsaðilinn en Honkong er stærsti innflutningsaðilinn. Líklegasta skýringin á þessu er sú að ginseng er mikið unnið og blandað út í aðrar vörur sem svo eru fluttar út og seldar til annarra landa. Ginseng er notað í duftformi, hylkjum, töflum, drykkjum, sælgæti og sem mettaður úrdráttur (e. concentrated extract)[8] Á Íslandi er á markaði Rautt eðal ginseng. Á heimasíðu framleiðandans kemur fram að Rautt eðal ginseng sé mjög gott gegn streitu, þreytu, afkastarýrnun og einbeitingarskorti einnig sé það mjög gott fyrir aldraða. Þetta ginseng er frá Kóreu og telur innflytjandinn að það séu meiri gæði í því en kínversku ginseng því það fái fleiri sólarstundir á vaxtartímabilinu.[9] Ginseng er einnig í Chilli Burn og þá í blöndu með piparmituolíu, dill fræum og chilli og á sú vara að auka fitubrennslu og minnka matarlyst.[10] Eflaust eru talsvert fleiri vörur á markaði á íslandi sem innihalda ginseng.

Úrdrættir ginseng

[breyta | breyta frumkóða]

G115: Er mest notaði staðlaði ginseng úrdrátturinn í heiminum, bæði í markaðssetningu þ.e. til kaupa og sölu en einnig til notkunar í rannsóknum. G115 er mettaður vatns útdráttur sem inniheldur P. ginseng markaðssett undir nafninu Ginsana, sem er staðlaður útdráttur sem inniheldur allt að 4% af ginsenoíðum.[11] G115 ginseng úrdrátturinn er vísindalega samþykktur en hann er framleiddur úr rótum plönntunnar Panax Ginseng C.A Meyer. Öryggi og virkni hans hafa verið prófuð um allan heim og gefa niðurstöðurnar góðar vísbendingar um virkni. Úrdrátturinn er staðlaður en það þýðir að hver skammtur inniheldur sama styrk af virkum innihaldsefnum og hefur sömu gæði og virkni í hverjum aðskildum skammti.[12]

CVT-E002: er seldur sem COLD-fX® og er það fyrirtæki með einkaleyfi á þessum úrdrætti og er hann unnin úr Panax quinquefolium. Flest hefðbundin framleiðsla á amerísku ginseng rótinni inniheldur ginsenósíða og sykrur í mismiklu magni eftir plönntum. CVT-E002 er stöðluð lausn þar sem 80% af heildarþynd útdráttarins eru fjölsykrur, annað hvort á pyranósa eða fúranósa formi. Þessi úrdráttur inniheldur ekki ginsenósíða, en hann er ríkur af einsykrueiningnum arabínósa, galaktósa, rhamnósa, galacturonic sýru, glúkúronsýra, og leifar af galactosyl.[13]

Lífefnafræðileg samsetning

[breyta | breyta frumkóða]
Ginsenósíðinn protopanaxadiol (Rb1 og Rc)
Ginsenósíðinn protopanaxatriol (Rg1)

Það er vel þekkt að P. ginseng inniheldur margar tegundir af kemískum innihaldsefnum, svo sem ginsenósíða, rokgjörn sambönd og fjölsykrur en þau gegna hlutverki í lyfjafræðilegri virkni P. ginseng. [14]

Ginsenósíðarnir, sem taldir eru vera aðalástæðan fyrir virkni, eru tríterpen sapóníðar. Þeir hafa þrjár grunnbyggingar sem allar innihalda 17 kolefni í fjögurra hringja keðju með áhangandi sykrum (glúkósi, rammósi, sílósi og arabínósi) á kolefni 3 eða kolefni 20. Ginsenosíðunum er gefið nafn eftir ákveðnu kerfi, þeir eru merktir „Rx“ þar sem R stendur fyrir rót og x bókstaf í stafrófsröð. Þeir ginsenosíðar sem eru minnst skautaðir fara fremst í stafrófsröðina og fá bókstafinn a en ginsenosíði sem er með bókstafinn b (Rb) er aðeins skautaðari en Ra, þannig fer þetta koll af kolli.[15]

Gæði og samsetning ginsenósíða í rótinni fer eftir tegund, aldri, plöntuhluta, hvenær uppskeran er og hvernig rótin er meðhöndluð. Styrkur sapónína fer eftir aldri plöntunnar en þeir ná mestum styrk þegar hún hefur náð um 6 ára aldri.[15] Innihald er mismunandi eftir tegundum en í P. ginseng eru aðal ginsenósíðarnir Rb1, Rc og Rg1 en önnur innihaldsefni sem er að finna eru rokfim olía sem samsett er úr seskvíterpenum, seskvíterpen alkahól, fjölasetýlen, steról, fjölsykrur, sterkja, beta-amýlasi, fríar sykrur, vítamín B1, B2, B5, B7 B12, kólín, fita og steinefni.[15]

Lyfjahvarfafræði og Lyfhrifafræði

[breyta | breyta frumkóða]

Takmarkaðar upplýsingar eru til um lyfjahvarfafræði ginsenósíða en þeir hafa þeir fundist í litlu magni í meltingavegi rotta eftir gjöf um munn. Í tilraun sem gerð var þá var styrkur Rg1 ginsenósíðans 3,29% af því heildarmagni sem gefið var rottu um munn og magn Rb1 gingensósíðans aðeins 0,64%. Ginsenósíðinn Rg1 var alveg horfin úr blóði eftir 24 klukkustundir en Rb1 var hins vegar mælanlegur í þrjá daga.[15] Ekki er vitað hvernig ginsenósíðar eru teknir upp í meltingavegi og dreifing þeirra í líkamanum er heldur ekki þekkt. Vitað er að ginsenósíðarnir verða fyrir niðurbroti eftir að þeir eru teknir inn um munn. Aðgengi þeirra er einnig lélegt og því nær aðeins brot af þeim ginsenósíðunum sem teknir eru inn að hafa áhrif á líkamann.[15]

Hefðbundin notkun

[breyta | breyta frumkóða]

Í Suður-Kóreu er ginseng notað sem fersk rót, hvítt ginseng sem er þurrkuð rót, Taekuksam sem er fersk rót sett í vatn og svo rautt ginseng sem er ginseng rót sem búið er að gufusjóða og svo þurrka.[8] P. ginseng hefur verið notað í þúsundir ára í kínverskum lækningum. Það er talið verka örvandi, þvagræsandi, magastyrkjandi og almennt séð heilsubætandi. Til er fleiri en ein Panax tegund og er verkun þeirra talin vera mismunandi og því eru þær ekki notaðar í sama tilgangi og í sömu skömmtum. Notkun á P. ginseng skiptis aðallega í tvo flokka. Notkun í stuttan tíma í senn til að bæta þrek, einbeitingu, hraða bataferlum, við stressi, árvekni og til að auka úthald heilbrigðra einstaklinga. En það er einnig notað í lengri tíma og þá aðallega fyrir eldra fólk sem styrkjandi og við hrörnun.Tilvísunar villa: Villa í <ref> tag; ógilt nafn, t.d. of mörg

Skammtastærðir

[breyta | breyta frumkóða]

Skammtastærðir eru mismunandi eftir ástæðu og lengd notkunar. Skammtar fyrir skammtíma notkun hjá ungum og heilbrigðum einstaklingum er 0,5-1 g af rótinni daglega í tveimur skömmtum. Æskileg lengd á inntöku er 15-20 daga og það þurfa að líða allavega tvær vikur á milli kúra. Mælt er með því að taka skammtana að morgni tveimur tímum fyrir máltíð og að kvöldi þá tveimur tímum eftir máltíð. Langtíma skammtar fyrir eldra og/eða veikburða fólk er 0,4-0,8 g af rótinni daglega.[7]

Aukaverkanir og ofskömmtun

[breyta | breyta frumkóða]

P. ginseng þolist yfirleitt vel þegar það er tekið um munn en einhverjir finna fyrir aukaverkunum, algengast er svefnleysi. Ekki eins algengar aukaverkanir sem lýst hefur verið eru:

  • Brjóstverkur
  • Blæðingar úr leggöngum
  • Tíðarteppa
  • Aukin hjartsláttartíðni
  • Háþrýstingur
  • Lágþrýstingur
  • Bjúgur
  • Minnkuð matarlyst
  • Niðurgangur
  • Hækkaður líkamshiti
  • Kláði
  • Roði
  • Höfðuverkur
  • Svimi
  • Sæluvíma
  • Manía.[16]

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á ginseng eftir markaðssetningu eru mjög takmarkaðar og upplýsingar um ofskömmtun því af skornum skammti. Rannsóknirnar standa oft yfir í 4-12 vikur ásamt því að úrtak þeirra er yfirleitt lítið og hafa þær því lágan tölfræðilegan styrk (e. power) vegna þessa koma einungis fram alvarlegustu augaverkanirnar. Þeim einkennum sem hefur verið lýst eftir inntöku of stórra skammta eru helst niðurgangur, háþrýstingur, kvíði, útbrot í húð og svefnleysi. En erfitt er að segja til um nákvæmt magn P. ginseng sem þarf til að kalla fram einkenni þar sem efnin, eins og áður sagði, eru mismunandi eftir uppruna.[7] Einstaklingar ættu að takmarka samfellda notkun við 3 mánuði þar sem skortur er á upplýsingum um langtímanotkun. Einnig ættu börn, þungaðar konur og konur með barn á brjósti að forðast notkun vegna skorts á upplýsingum um notkun hjá þessum hópum.[16]

Milliverkanir

[breyta | breyta frumkóða]

Ekki hefur verið sýnt fram á alvarlegar milliverkanir(en) lyfja við ginseng, en varast skal samhliða notkun með nokkrum lyfjaflokkum þar sem greint hefur verið frá mögulegum milliverkunum. Gæta skal varúðar þegar P. ginseng er notað samhliða:

  • Alkahóli
  • Sykursýkislyfjum
  • Koffeini
  • Insúlíni
  • MAO hemlum

Einnig gætu komið fram milliverkanir við samhliða notkun furosemíð, ónæmisbælandi lyfja, CYP2D6, CYP450 og örvandi lyfja. Vísbendingar eru um að P.ginseng milliverki við warfarin, blóðþynningarlyf og lyf sem hindra samloðun blóðflagna.[16]

Rannsóknir á virkni

[breyta | breyta frumkóða]

In vitro og dýrarannsóknir

[breyta | breyta frumkóða]

Margar rannsóknir hafa verið gerðar á tilraunastofum (in vitro) og á dýrum og þá aðallega á nagdýrum. Þessar rannsóknir segja ekki til um virkni P. ginseng en þær gefa ýmsar vísbendingar um hugsanlega verkun þess og gefa tilefni til frekari rannsókna á.[7]

Barksteralík virkni

[breyta | breyta frumkóða]

Innkirtla og hormónafræðilegar rannsóknir sem hafa verið gerðar á ginsenósíðum gefa vísbendingar um að þeir auki magn kortikótrópíns og kortikóstera í blóði. Rannsókn var gerð á rottum og talið er að ginsenósíðar, með óbeinum hætti, auki styrk á þessum hormónum með því að hafa áhrif á heiladingul. Ginsenósíðarnir sem voru notaðir í rannsóknina komu úr þurrkaðri ginseng rót.[17]

Blóðsykurlækkandi áhrif:

[breyta | breyta frumkóða]

Vísbendingar eru um að P. ginseng geti haft blóðsykurlækkandi áhrif og talið er að þau komi fram vegna sapónína og fjölsykra sem er að finna í P. ginseng. Í rottutilraunum hafa ginsenosíðar sýnt aukna insúlín losun. Einnig eru vísbendingar um að P. ginseng geti aukið földa insúlín viðtaka í beinmerg og fækki glúkókortikóið viðtökum í rottuheila. Í rannsókn sem gerð var reyndist blóðsykurlækkunin meiri þegar gefin voru glýkön einangruð úr kóresku P. ginseng heldur en kínversku.[7]

Áhrif á hjarta og æðakerfi:

[breyta | breyta frumkóða]

Talið er að P. ginseng innihaldi sapónína sem geta bæði virkað örvandi og letjandi á hjartað.[7] Rb sapónínar eru taldir geta virkað sem séhæfðir kalsíumgangalokar og aukið losun nituroxíðs úr innanþekjufrumum.[4] In vitro rannsókn á einangruðu kanínuhjarta sýndi aukið blóðflæði í kransæðum auk þess að hafa jákvæð áhrif á samdráttarkraft hjartans. [7]

Aðrar rannsóknir:

[breyta | breyta frumkóða]

Gerðar hafa verið rannsóknir á frumudrepandi og æxlishemjandi áhrifum sem og veiruhemjandi eiginleikum í rottum og músum. Talið er að þessi virkni gæti hugsanlega verið vegna áhrifa P. ginseng á ónæmiskerfið en þörf er á frekari rannsóknum. Einnig hafa verið gerðar rannsóknir á hugsanlegum áhrifum ginsenósíða á taugakerfið og lifrina en þær rannsóknir eru á frumstigi og lítið hægt að segja til um virknina.[7]

Klínískar rannsóknir

[breyta | breyta frumkóða]

Mikið er um að klínískar rannsóknir hafi verið birtar á kínversku eða öðru asísku máli. Það er því óvíst hvort að þær rannsóknir uppfylli vestrænar kröfur hvað varðar uppsetningu, greiningu og birtingu ásamt því að aðgengi að þeim er takmarkað.[18] Í þeim klínísku rannsóknum sem gerðar hafa verið er að mörgu leyti einblínt á adaptógen eiginleika rótarinnar. Erfitt er að bera rannsóknir saman þar sem mismunandi tegundir ginseng hafa verið notaðar, blöndurnar innihalda mismunandi magn og hreinleika efna, ásamt því að skammtastærðir eru breytilegar.[18] Helstu niðurstöður sem birtar hafa verið á ensku eru teknar saman hér að neðan en ekki er hægt að staðfesta afdráttarlaust virkni P. ginseng við þeim kvillum sem það hefur verið notað við og/eða prófað fyrir út frá þeim gögnum sem liggja fyrir.[7] Í tvíblindri víxlrannsókn þar sem ginseng var borið saman við lyfleysu hjá 15 heilbrigðum einstaklingum sem fengu 200mg af G115 úrdrætti benda niðurstöður til þess að P. ginseng geti haft bein áhrif á heilastarfsemi en þyrfti að skoða frekar og í stærri hóp.[19] Áhrif blöndu af P. ginseng og Gingko biloba á minni voru skoðuð í tilviljunarkenndri, samhliða, tvíblindri rannsókn þar sem borið var saman við lyfleysu. Rannsóknin var gerð samtímis á mörgum stöðum og samanstóð af 256 heilbrigðum einstaklingum á aldrinum 38-67 ára.

Tafla 1: skammtar í rannsókninni

Hópur 1 Hópur 2 Hópur 3
Ginko biloba, útdráttur úr laufblöðum 60mg 2 svar á dag 120mg 1 sinni á dag lyfleysa
P. ginseng, útdráttur úr rót 100mg 2 svar á dag 200mg 1 sinni á dag lyfleysa

Árangur meðferðarinnar var svo metinn á viku 4, 8, 12 og 14 í rannsókninni og kom í ljós að hjá hóp 1 og 2, meðferðarhópunum, jókst minnisstuðll (e. memory index) miðað við hjá þeim sem fengu lyfleysu, p=0,026.[20]

Tvíblind víxlrannsókn, borin saman við lyfleysu, þar sem 30 einstaklingar sem ekki voru með sykursýki fengu 200mg eða 400mg af G115 sem stakan skammt áður en þeir undirgengust nokkrar prófanir til að meta áhrif á vitsmunalega færni. Marktækur munur var á blóðsykurlækkun hjá hópunum sem fengu ginseng miðað við þeim sem fengu lyfleysu, p< 0.01.[21]

Einnig voru gerðar klínískar rannsóknir þar sem áhrif P.ginseng voru skoðuð á líkamlega frammistöðu, bætingu lífsgæða, forvörn við krabbameini og ónæmisstýrandi áhrif þess sem og ýmislegt annað. Niðurstöður þeirra rannsókna sýndu ekki fram á marktækan mun á milli hópa en hugmyndir eru um að P. ginseng hafi áhrif á hreinsun alkahóls úr blóði. Þessar niðurstöður þarfnast frekari rannsókna til þess að hægt sé að draga ályktanir.[7]

  1. Jung, J., Kim, K. H., Yang, K., Bang, K. H., & Yang, T. J. (2014). „Practical application of DNA markers for high-throughput authentication of Panax ginseng and Panax quinquefolius from commercial ginseng products. Journal of Ginseng Research“. Journal of Ginseng Research. 38 (2): 123–129. doi:10.1016/j.jgr.2013.11.017.
  2. „Defenition of ginseng in english“. Sótt 10.okt 2014.
  3. „Ginseng cultivate“. Sótt 10.okt 2014.
  4. 4,0 4,1 Ginseng. The review of natural products. 2007.
  5. Langhansova, L., Marsik, P., & Vanek, T. (2012). „Regulation of tissue differentiation by plant growth regulators on tTCLs of Panax ginseng adventitious roots“. Industrial Crops and Products. 35 (1): 154–159. doi:10.1016/j.indcrop.2011.06.028.
  6. „Basic growing conditions for Panax ginseng“.
  7. 7,00 7,01 7,02 7,03 7,04 7,05 7,06 7,07 7,08 7,09 Herbal Medicines. Pharmaceutical Press. 2013. bls. 377-388. ISBN 9780857110350.
  8. 8,0 8,1 Baeg, I. H., & So, S. H. (2013). „The world ginseng market and the ginseng (Korea)“. Journal of Ginseng Research. 37 (1): 1–7.
  9. „Rautt eðal ginseng“. Sótt 2014.
  10. „New Nordic Chili Burn Tablets“. Sótt 2014.
  11. Kennedy, D. O., & Scholey, A. B. (2003). „Ginseng: potential for the enhancement of cognitive performance and mood“. Pharmacology Biochemistry and Behavior. 75 (3): 687–700. Sótt 2014.
  12. „Ginsana®“.
  13. Biondo, P. D., Goruk, S., Ruth, M. R., O'Connell, E., & Field, C. J. (2008). „Effect of CVT-E002 (TM) (COLD-fX (R)) versus a ginsenoside extract on systemic and gut-associated immune function“. International Immunopharmacology. 8 (8): 1134–1142.
  14. Xu, L. L., Han, T., Wu, J. Z., Zhang, Q. Y., Zhang, H., Huang, B. K., . . . Qin, L. P. (2009). „Comparative research of chemical constituents, antifungal and antitumor properties of ether extracts of Panax ginseng and its endophytic fungus“. Phytomedicine. 16 (6–7): 609–616.
  15. 15,0 15,1 15,2 15,3 15,4 Leung, K. W., Wong, A. S. (2010). „Pharmacology of ginsenosides: a literature review“. Chinese Medicine. 5 (20). doi:10.1186/1749-8546-5-20.
  16. 16,0 16,1 16,2 „Ginseng, Panax“. Sótt 2014.
  17. Ng, T. B., Li, W. W., & Yeung, H. W. (1987). „Effects of Ginsenosides, Lectins and Momordica-Charantia Insulin-Like Peptide on Corticosterone Production by Isolated Rat Adrenal-Cells“. Journal of Ethnopharmacology. 21 (1): 21–29. doi:10.1016/0378-8741(87)90090-0. Sótt 2014.
  18. 18,0 18,1 Tilvísunar villa: Villa í <ref> tag; tilgreindu texta fyrir tilvísun með nafnið Dharamananade
  19. Kennedy, D. O., Scholey, A. B., Drewery, L., Marsh, V. R., Moore, B., & Ashton, H (2003). „Electroencephalograph effects of single doses of Ginkgo biloba and Panax ginseng in healthy young volunteers“. Pharmacology Biochemistry and Behavior. 75 (3): 701–709. Sótt 2014.
  20. Wesnes, K. A., Ward, T., McGinty, A., & Petrini, O. (2000). „The memory enhancing effects of a Ginkgo biloba/Panax ginseng combination in healthy middle-aged volunteers“. Psychopharmacology. 152 (4): 353–361. Sótt 2014.
  21. Reay, J. L., Kennedy, D. O., & Scholey, A. B. (2005). „Single doses of Panax ginseng (G115) reduce blood glucose levels and improve cognitive performance during sustained mental activity“. Journal of Psychopharmacology. 19 (4): 357–365.