Garðabrúða

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Garðabrúða
Valeriana officinalis.jpg
Vísindaleg flokkun
Ríki: Jurtaríki (Plantae)
Skipting: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
(óraðað) Asterids
Ættbálkur: Stúfubálkur (Dipsacales)
Ætt: Garðabrúðætt (Valerianaceae)
Ættkvísl: Valeriana
Tegund: V. officinalis
Tvínefni
Valeriana officinalis
L.

Garðabrúða (Valeriana officinalis, Valerian) er harðgerð fjölær jurt sem tilheyrir garðabrúðuætt en fáar ættkvíslir eru í ættinni og garðabrúða er eina sem er vel þekkt hér á landi. Garðabrúða blómgast í júlí-ágúst og vex villt á mörgum stöðum á landinu og er ræktuð víða til skrauts.[1] Garðabrúða finnst á engjum, síkjum, oft í kalkbornum jarðvegi, og allt uppí 2400m hæð.[2] Heimkynni hennar eru aðallega Evrópa og Asía.[1]

Garðabrúða heitir á latnesku Valeriana officinalis en nafnið er dregið af rómverska mannsnafninu Valeríus [1] og þýðir að vera heilbrigður eða hugrakkur og er vísað í læknisfræðilega eiginleika þess.[3]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt hefðbundinni jurta þjóðtrú er garðabrúða sögð hafa róandi virkni. Grikkir og Rómverjar lýstu garðabrúðu sem bitri og arómatískri, og hún var notuð til að meðhöndla meltingarfæravandamál. Saxar sem lifðu á 11.öld kölluðu garðabrúðu ,,allheal“ eða al-læknandi. Arabar á 14.öld ávísuðu henni hinsvegar við árásarhneigð. Á miðöld var hún notuð til að meðhöndla flogaveiki og frá sautjándu til nítjándu öld var garðabrúða víða notuð til að draga úr taugasjúkdómum. Hómópatar hafa svo notað garðabrúðu fyrir sefasýki, ofurnæmni (oversensitivity), krömpum, magaverkjum, gigtarverkjum, slitróttum astma (spasmodic asthma) og svefnleysi. Í fyrri og seinni heimsstyrjöldinni var tinktúra af garðabrúðu notuð sem meðferð við sprengjulosti (shel shock).[3]

Snemma á 20.öld samþykktu lyfjafræðingar að garðabrúða byggi yfir róandi virkni og var henni haldið í notkun á meðan önnur jurtalyf voru tekin út.[3]

Margar kynslóðir hafa tengt garðabrúðu við gegnsmjúgandi (penetrating) lykt, sem mörgum finnst afar vond. Á 16 öld var lyktin þó talin vera mjög vel ilmandi, og rótin var sett í föt sem lykteyðandi. Seinna skipaði það sér sess í ilmvatns framleiðslu. Ferska rótin eða ferskur útdráttur lyfsins hefur hinsvegar enga einkennandi lykt en hún þróast seinna sökum vatnsrofs á ensímum sem leiðir til myndunar á samsætu valerínsýru (isovaleric acid).[3]

Lyktin af þurrkaðri garðabrúðu hefur verið líkt við þá lykt sem finnst af heimilsköttum, sem hefur gefið henni almennt heiti í Frakklandi sem „herbe aux chats“ eða kattarrót. Einkenni lyktarinnar sem stafar frá þurrkaðri rót er kennd við valerínsýru, sameind sem finnst einnig í kirtlaseytingu hjá sumum meðlimum kattarfjölskyldunnar og er tengd mökunarhegðun þeirra.[3] Þar af leiðandi gerir hún ketti alveg brjálaða en hefur róandi áhrif á okkur mannfólkið.[4]

Garðyrkja[breyta | breyta frumkóða]

Garðabrúða er vinsælt val í gamaldagsgörðum og garðyrkjufólk kann að meta sætann ilminn sem stafar af bleikum og hvítum blómum jurtarinnar. Á meðan sæti ilmurinn af blómum hennar er einkennandi þá lyktar restin af plöntunni og þá sérstaklega rótin daunilla og finnst mörgum hún lykta eins og gamlir sokkar.[4]

Garðabrúða gerir engar sérstakar kröfur til jarðvegs og hún þrífst vel hvort sem er í sól eða hálfskugga.[1] Hún þolir bæði súran og basískan jarðveg. Jarðstönglar garðabrúðu breiðast hratt út og mynda nýjar plöntur sem hægt er að taka upp og færa annað í garðinum.[4] Þar sem jarðstönglarnir eru nokkuð skriðulir þarf að fjarlægja hluta af þeim á vorin.[1] Ef eldri þyrpingar eru byrjaðar að brotna niður þá er hægt að endurlífga plöntuna með því að skipta henni.[4]

Þegar garðabrúða er sett niður í garða þá dregur hún að sér gagnlega orma en þeir dragast að fosfór ríkum rótum hennar. Gott er að rækta garðabrúðu á mismunandi stöðum í kringum grænmetisgarðinn til að nýta gagnlega viðveru ormanna.[4]

Formfræði[breyta | breyta frumkóða]

Garðabrúða sýnir töluverða fjölbreytni í formfræði en til eru tvílitna, fjórlitna og áttalitna form af henni.[3]

Jarðstönglar garðabrúðu geta verið gulgráir til föl-grábrúnir, keilulaga til sívala, allt að 50 mm langir og 30 mm í þvermál. Sökkull (base) hennar er ílangur eða samanþjappaður, þakinn af og samrunninn fjöldanum öllum af rótum. Ræturnar eru fjölmargar, hálf sívalar, með sama lit og jarðstöngullinn, 1-3 mm í þvermál og stundum meira en 100 mm langar. Nokkrar þráðlaga og viðkvæmar undirrætur (secondary roots) eru einnig til staðar. Jarðrenglur (stolons) eru föl gulgráar og sýna áberandi hnúta (nodes) sem eru aðskildir með langsum rákóttum innrihnútum (internodes), þar sem hver er 20-50 mm langir með trefjóttum hluta (fibrous fracture).[5]

Stilkur garðabrúðu er 30-150cm, fer mjög sjaldan í 240cm. Laufblöðin eru venjulega gagnstæð með 3-25 smáblöðum, stakfjöðruð, lensulaga eða egglensulaga, heil eða tennt,[3] þau neðri langstilkuð, þau efri miklu minni og stilklaus.[2] Blóm garðabrúðu myndast með kynlausri æxlun og eru bleik eða hvít,[3] í stórum hvelfdum toppum á stöngulendum.[1] Blómkróna er trektlaga, stundum með spora, vængur hennar fimmflipóttur [2] og krónan er 2,5-5,5 mm löng. Aldin eru 2-5 mm löng, hærð eða hárlaus,[3] Bikarblöð eru samanvafin og varla sýnileg á meðan blómgun stendur en rétta síðan úr sér og stækka og verða að fjaðuskiptum svifhölum á aldininum.[1]

Garðabrúðurót hefur einkennandi og gegnumsmjúgandi lykt,[5] sem stafar af valerínolíu sem finnst í plöntunni, þá aðallega rót og jarðstöngli. Mikið er af þessari olíu í garðabrúðu.[1]

Útdráttur af garðabrúðu[breyta | breyta frumkóða]

Vinnsla útdráttar[breyta | breyta frumkóða]

Jarðstönglar og rætur garðabrúðu, með og án jarðrengla (stolons), eru notuð í læknisfræðilegum tilgangi. Besta uppskeran er að hausti eða vori. Strax að uppskeru lokinni eru jarðstönglar og rætur fljótþvegnar með vatni til að fjarlægja jarðveg og síðan þurrkaðar við 40°C til að koma í veg fyrir niðurbrot á hluta af virku efnunum.[3]

Vinnsla garðabrúðurótanna og jarðstönglanna skiptir miklu máli varðandi virkni þess en það fer eftir gerð úrvinnslunnar, aldri jurtarinnar, aldri útdráttarins, tegund, plöntuyrki, efnafræðilegum kynstofn plöntunnar, vaxtarskilyrðum og mánuði uppskerunnar.[3] Fersk eða nýlega þurrkuð garðabrúðurót er öflugust en virknin fer dvínandi með tímanum og eftir 1 ár er hún orðin að nánast engu. Hægt er að draga rótina út í alkóhól eða vatn sem tinktúra eða gert að te með því að bæta rótarefni í suðuvatn og leyfa mixtúrunni að sjóða í nokkrar mínútur.[6]

Vel þurrkað efni lyktar af ferskri ilmkjarnaolíu, án nokkurrar ummerkja valerínsýru. Einungis illa þurrkuð eða gamalt efni einkennist af valerínsýru lykt.[5]

Lífefnafræðileg samsetning[breyta | breyta frumkóða]

Efnaflokkar garðabrúðu

Garðabrúða inniheldur fjöldann allan af efnum sem koma úr ýmsum efnaflokkum. Enn á eftir að staðfesta hvaða efni það er sem veldur verkunarmætti plöntunnar. Sennilega er um að ræða blandaða verkun nokkurra mismunandi hópa efna frekar en verkun eins efnis. Þess vegna er virknin fjölbreytileg eftir því hvernig garðabrúðan er meðhöndluð og því hvaða efni, í hvaða styrk, og hvaða efnaþætti er að finna hverju sinni.[7]

Eftirfarandi efnaflokkar og efni eru að finna í garðabrúðu:

 • Alkalóíðar: actinidín, chatinín, shýanthií, valeríanín og valerín
 • Flavónóíðar: hesperidin, linarin og 6-methýlapigenin.
 • Iridóíðar (valepótríöt): valtröt, didrovaltröt og isovaltröt. En Didrovaltrat og isovaltrat eru skráð vera helstu innihaldsefni plöntunnar.
 • Seskvíterpenar: valerín sýra, hydroxývalerín sýra og acetoxývalerín sýra.
 • Önnur efni: amínósýrur (argínín, glútamín, týrósín og gamma-amínóbútyrik sýra), tannín, cholín, caffeic- og chlorogenig sýra [7]

Lækningarmáttur[breyta | breyta frumkóða]

Læknisfræðileg notkun[breyta | breyta frumkóða]

Garðabrúða er sögð vera róandi, með væga verkjastillingu, svefnlyf, krampalosandi, vindlosandi og með blóðþrýstingslækkandi eiginleika. Hefðbundin notkun hennar hefur verið við sefasýki, óróleika, svefnleysi, heilsukvíða, mígreni, krömpum, þarmakrömpum, gigtarverkjum, tíðaverkjum og taugaóstyrkni.[7]

Í dag er lögð mikil áhersla á notkun garðabrúðu sem róandi og svefnlyf. Ábending fyrir hefðbundna notkun garðabrúðurótar hjá Evrópsku lyfjastofnuninni er fyrir vægum einkennum andlegs álags og til að hjálpa til við svefn. Ábending fyrir gagnreynda notkun þess er til meðhöndlunar á vægri taugaspennu og svefnerfiðleikum.[7]

Rót garðabrúðu er hægt að taka inn sem hylki, á útdráttar formi eða þurrkaðar rætur geta verið settar í te.[6] Te garðabrúðu er róandi og hjálpar til við svefnleysi, stresshöfuðverk, magaóþægindi og sefasýki. Teið er best bruggað úr jarðstönglum frá haust uppskeru; nota skal hálfa teskeið af þurrkaðri rót í hvern bolla af sjóðandi vatni.[4] Bragðið af rótinni er frekar sætt í fyrstu, síðan sterkt og örlítið biturt. Hægt er að gera teið sætt með hunangi til bragðbætingar. Garðabrúða er einnig sett í bað til að gefa róandi áhrif. Á meðan lítið magn af garðabrúðu getur verið hjálpleg þá getur meira en einn bolli af te valdið eiturverkun. Í stórum skömmtum getur garðabrúða valdið æsing, höfuðverk og hugstoli.[4]

Garðabrúða er venjulega ekki notuð til matar. Garðabrúða er þó skráð hjá Evrópuráðinu sem náttúruleg uppspretta á bragðefni fyrir matvæli.[7] Olían sem er dregin úr rót garðabrúðu hefur verið notuð til að krydda tóbak og bragðbæta líkjör, bjór og gosdrykki.[4]

Rannsóknir á virkni[breyta | breyta frumkóða]

Ýmsar rannsóknir hafa verið framkvæmdar á garðabrúðu til staðfestingar á því að hún hafi einkennandi verkunarmáta.

In vivo rannsóknir á garðabrúðu[breyta | breyta frumkóða]

Garðabrúða samanstendur af ýmsum innihaldsefnum þar á meðal valerínsýru og valerenal, sem eru bendluð við verkunarmáta plöntunnar og eru talin vera undirstaðan í kvíðastillandi verkun hennar. Lífefnafræðilegar rannóknir hafa greint frá því að valerínsýra hindrar ensímkerfið sem ber ábyrgð á því að brjóta GABA niður. Á meðan aðrar rannsóknir á sýrunni hafa sýnt fram á að hún virkji GABA viðtaka í gegnum svokallaða β-3 undireiningu viðtakanna. [8]

Virkni valerínsýru var rannsökuð í tveim tilraunum þar sem notast var við mýs sem tilraunadýr. Í rannsókninni var verið að kanna hvort virknin væri svipuð hjá valerínsýru og díazepami. Sýnt var fram á að mýs sem hafa stökkbreyta β-3 undireiningu geta ekki tjáð fyrir sérstakri kvíðastillandi virkni valerínsýru. Hins vegar kom í ljós að þær gátu tjáð fyrir sömu virkni fyrir diíazepam. Að því gefnu að lyfjahvörf valerínsýru hjá mannfólki eru svipuð og hjá díazepami. Þá var gert ráð fyrir að daglegur skammtur af valerínsýru ætti að vera nægjanlegur til að kalla fram kvíðastillandi verkun. Valerían sýra er helsta innihaldsefnið til að miðla aukinni GABA virkni um GABA viðtakana. Því er hægt að draga þá ályktun útfrá þessari rannsókn að bæði valerínsýra og valerenól eru mikilvægir efnisþættir í útdrætti af garðabrúðu sem tengjast verkunarmáta plöntunnar. [8]

In vitro rannsóknir á garðabrúðu[breyta | breyta frumkóða]

In vitro rannsókn sem var gerð árið 2005 greindi frá því að útdráttur garðabrúðu með petróleum ether og díklórómetani sýni mikla sækni í serótónín viðtaka: 5-HT5a og séu að hluta til agónistar á þá viðtaka. Serótónín viðtakarnir: 5-HT5a eru taldir taka þátt í ýmsum líffræðilegum ferlum líkt og vöku-svefn ástandi, kvíða og hegðun. Margt í sambandi við verkunarmáta garðabrúðu er samt sem áður ekki enn ljós. [9]

Í niðurstöðum rannsóknar sem var birt árið 2009 var greint frá því að útdráttur af garðabrúðu hafi andoxunareiginleika og kann að vera gagnleg í því að bæta svefnleysi af völdum oxunarálags í líkamanum. En oxunarálag myndast vegna offramleiðslu á hvarfgjörnum súrefnistegundum í líkamanum sem getur leitt til óeðlilegrar frumustarfssemis og aukið líkur á sjúkdómum.[10]

Klínískar rannsóknir á garðabrúðu[breyta | breyta frumkóða]

Flest allar klínískar rannsóknir tengdar garðabrúðu hafa gefið sameiginlega niðurstöðu. Sem er sú að þörf er á fleiri ítarlegum rannsóknum, þá helst stórum slembnum rannsóknum til að koma í veg fyrir aðferðafræðileg vandamál og til að staðfesta með vissu að plantan hafi í raun þessa róandi og sefjandi verkun sem talið er að hún hafi.[11] [12] [13]

Markaðssetning[breyta | breyta frumkóða]

Garðabrúða er ekki skráð náttúrulyf og er ekki í sölu hér á landi. Á vef Lyfjastofnunar kemur fram að garðabrúða eða öðru nafni Valeriana officinalis hefur fengið svokallaða B-flokkun. Þessi flokkun þýðir að vara með þessu innihaldsefni getur fallið undir lyfjalög og því þurfti Lyfjastofnun að vega og meta hvort plantan héldi áfram í sölu.[14] Lyfjastofnun tók garðabrúðu af markaði á síðustu árum en engar upplýsingar eru að finna hvenær það var gert. Hins vegar er hægt að nálgast rót plöntunnar í ýmsum öðrum löndum þar sem hún er ekki bönnuð af matvæla-og lyfjaeftirlitinu (FDA). Rót garðabrúðu er hægt að taka inn á mismunandi lyfjaformum líkt og á töflu-eða hylkjaformi eins og kom fram hér að ofan í „Læknisfræðileg notkun“.[6]

Notkun, auka- og milliverkanir[breyta | breyta frumkóða]

Skammtastærðir[breyta | breyta frumkóða]

Það er erfitt að ákvarða skammtastærðir garðabrúðu þar sem það er mjög breytilegt í hvaða formi til inntöku garðabrúðan er fáanleg í. Garðabrúðu preparöt eru oft stöðuð til að innihalda 0,3-0,8% valerenic eða valeric sýru, þó að vísindamenn séu ekki vissir að það séu virku innihaldsefnin.[15]

Fyrir börn: Ekki er mælt með að gefa börnum yngri en 12 ára garðabrúðu án samráðs við lækni.[15]

Fyrir fullorðna: Skammtar fyrir inntöku um munn fyrir hefðbundna notkun er ráðlagt af stöðluðum texta jurtarinnar sem er eftirfarandi: Þurrkaður útdráttur af jarðstönglum og rótum: 1-3g sem innrennsli eða seyði allt að þrisvar sinnum á dag. Tinktúra 3-5mL (1:5, 70% etanól) allt að þrisvar á dag; 1-3mL, einu sinni til nokkrum sinnum á dag. Útdráttur sem er jafn 2-3g af lyfi, einu sinni til nokkrum sinnum á dag: 2-6mL af 1:2 vökva útdrætti daglega. Fyrir svefnvandamál er 400mg/dag af garðabrúðu útdrætti í hlutföllunum 3:1 og 1215mg/dag í hlutöllunum 5-6 á móti 1.[7]

Rannsóknir hafa sýnt að einkenni ofskömmtunar geta verið þreyta, kviðverkir, þyngsli fyrir brjósti, skjálfti og svimi.[7] Hafa skal samband við lækni ef óvæntra einkenna verður vart.

Aukaverkanir[breyta | breyta frumkóða]

Það er talið að garðabrúða sé nokkuð örugg sé hún tekin inn í litlum skömmtum í stuttan tíma. Hinsvegar er öryggi langtímanotkunar ekki staðfest.[7] Garðabrúða getur valdið aukaverkunum eins og t.d höfuðverk, spennu, munnþurrki, óróleika og jafnvel svefnerfiðleikum. Sumir finna fyrir slappleika morguninn eftir að garðabrúða var tekin inn, sérstaklega ef hún er tekin í stærri skömmtum en ráðlagt er.[16] Ef einhverjar af þessum aukaverkunum koma fram, vara lengi eða versna skal hafa samband við lyfjafræðing eða lækni. Til að koma í veg fyrir mögulegar aukaverkanir þegar inntöku garðabrúðu er hætt er best að minnka skammtinn hægt og rólega yfir viku eða tvær áður en hætt er alveg að taka lyfið inn.[16]

Milliverkanir[breyta | breyta frumkóða]

Hafa skal samband við lækni eða lyfjafræðingi ef einkenna milliverkana verður vart.

Tafla 1: Sýnir helstu milliverkanir garðabrúðu við lyf, fæðu og náttúrulyf.

Lyf
Alprazolam Garðabrúða getur hægt á niðurbroti alprazolam í lifrinni. Sem getur þá aukið aukaverkanir alprazolams eins og sljóleika og syfju.[7]
Benzodiazepin Benzadiazepin eru svokölluð róandi (sedative) lyf. Sé garðabrúða tekin með róandi lyfjum getur það valdið of mikilli syfju og sljóleika.[7]
Lyf sem verka slævandi á MTK Lyf sem verka slævandi á MTK geta valdið syfju og sljóleika. Ef garðabrúða er tekin með þessum lyfjum getur það valdið of mikilli syfju og sljóleika.[7]
Lyf brotin niður af lifrinni (t.d Andhistamín, statín lyf, mörg sveppalyf) Garðabrúða getur hægt á niðurbroti ýmissa lyfja sem eru brotin niður af lifrinni. Það getur valdið uppsöfnun á lyfjunum í líkamanum sem getur valdið auknum aukaverkunum og eituráhrifum.[16]
Fæða
Etanól Ef garðabrúða er tekin með etanóli getur það valdið of mikilli syfju, sljóleika og einbeitingarskorti.[16]
Náttúrulyf
Náttúrulyf sem hafa slævandi áhrif (melatónín, St.John‘s wort, kava, L-trypthophan, o.fl.) Sé garðabrúða tekin inn með náttúrulyfjum sem virka slævandi getur það valdið of mikilli syfju og sljóleika og aukið aukaverkanir garðabrúðu.[16]

Frábendingar[breyta | breyta frumkóða]

Meðganga og brjóstagjöf: Öryggi vegna notkunar á meðgöngu eða meðan á brjóstagjöf stendur er ekki þekkt þar sem reynsla hjá mönnum er ekki fullnægjandi og ekki nægar upplýsingar tiltækar til að staðfesta öryggi inntöku. Því er ekki ráðlagt að nota garðabrúðu á meðgöngu eða meðan á brjóstagjöf stendur.[7]

Fyrir uppskurð: Garðabrúða hefur slævandi áhrif á miðtaugakerfið. Svæfingarlyf og önnur lyf sem notuð eru í kringum uppskurði hafa einnig slævandi áhrif á miðtaugakerfið. Sé garðabrúða tekin inn samhliða þessum lyfjum getur það haft skaðlegar afleiðingar. Æskilegt er að hætta inntöku garðabrúðu a.m.k tveim vikum fyrir áætlaðan uppskurð.[16] Innihaldsefni garðabrúðu hafa slævandi áhrif á miðtaugakerfið og því ætti ekki að taka garðabrúðu inn samhliða öðrum slævandi lyfjum eins og etanóli, bensódíazepínum, barbítúrötum, ópíóíðum, kava eða andhistamínum.[7]

Garðabrúða getur haft áhrif á hæfni til aksturs og notkunar véla, því er notkun garðabrúðu ekki ráðlögð við athafnir sem krefjast fullrar athygli.[7]

Ekki er ráðlagt að taka garðabrúðu inn lengur en í 4 vikur nema í samráði við lækni.[15]

Samantekt[breyta | breyta frumkóða]

Garðabrúða er harðgerð fjölær jurt með hvítum og bleikum blómum sem blómgast í júlí-ágúst. Latneska nafn garðabrúðu Valeriana officinalis þýðir að vera heilbrigður eða hugrakkur og er vísað í læknisfræðilega eiginleika sem plantan býr yfir. Garðabrúða hefur lengi verið þekkt sem lækningarjurt og verið notuð öldum saman við hinum ýmsu kvillum. Aðallega hefur hún þó verið notuð sem róandi eða sem svefnlyf. Þeir partar plöntunnar sem eru notaðir eru rótin og jarðstönglar. Virkni garðabrúðu fer eftir úrvinnslu, aldri jurtar og útdráttar, tegund, plöntuyrki, efnafræðilegum kynstofn plöntunnar, vaxtarskilyrðum og mánuði uppskerunnar.

Enn á eftir að staðfesta hvaða efni koma að róandi virkni plöntunnar en talið er að það séu aðallega valerínsýra og valerenal sem eru ábyrg fyrir henni. Klínískar rannsóknir sem gerðar hafa verið á garðabrúðu hafa þó gefið ófullnægjandi niðurstöður og er því þörf á frekari rannsóknum tengdar virkni plöntunnar.

Talið er að garðabrúða sé nokkuð örugg sé hún tekin inn í litlum skömmtum og í stuttan tíma. Aukaverkanir garðabrúðu sem hafa verið tilkynntar eru meðal annars höfuðverkur, munnþurrkur, óróleiki og slappleiki, en þessar aukaverkanir eiga frekar við þegar hún hefur verið tekin inn í stærri skömmtum en ráðlagt er. Garðabrúða getur milliverkað við lyf eins og alprazolam, benzódíasepín, lyf sem verka slævandi á miðtaugakerfið og þau sem eru brotin niður af lifrinni. Garðabrúða getur einnig milliverkað við etanól og náttúrulyf sem hafa slævandi virkni. Ekki er ráðlagt að óléttar konur eða konur með börn á brjósti taki plöntuna inn.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. 1,0 1,1 1,2 1,3 1,4 1,5 1,6 1,7 Íslenska garðblómabókin. 1995. bls: 274-275.
 2. 2,0 2,1 2,2 Myndskreytt flóra Íslands og norður-Evrópu. skjaldborg hf. 1992. bls: 384.
 3. 3,00 3,01 3,02 3,03 3,04 3,05 3,06 3,07 3,08 3,09 3,10 Botanical medicines: the desk reference for major herbal supplements. Routledge. 2012. bls: 1007-1009.
 4. 4,0 4,1 4,2 4,3 4,4 4,5 4,6 4,7 Taylor's 50 Best Herbs and Edible Flowers: Easy Plants for More Beautiful Gardens. Houghton Mifflin Harcourt. 1999. bls: 104-105.
 5. 5,0 5,1 5,2 Valerian: the genus Valeriana. CRC Press. 1997. bls: 107.
 6. 6,0 6,1 6,2 Cunningham's encyclopedia of magical herbs (Vol. 1).. Llewellyn Worldwide. 2000.
 7. 7,00 7,01 7,02 7,03 7,04 7,05 7,06 7,07 7,08 7,09 7,10 7,11 7,12 7,13 Herbal medicines: a guide for healthcare professionals. (3 útgáfa) Pharmaceutical Press. 2003. bls: 581-582.
 8. 8,0 8,1 Dietmar Benke; Andrea Barberis, Sascha Kopp, Karl-Heinz Altmann, Monika Schubiger, Kaspar E. Vogt, Uwe Rudolph, Hanns Möhler 1. janúar, „GABAA receptors as in vivo substrate for the anxiolytic action of valerenic acid, a major constituent of valerian root extracts". Neuropharmacology. 56 (1): 174-181. doi:10.1016/j.neuropharm.2008.06.013 Skoðað 25. september2014.
 9. Birgit M. Dietz; Gail B. Mahady, Guido F. Pauli, Norman R. Farnsworth 18. ágúst, „Valerian extract and valerenic acid are partial agonists of the 5-HT5a receptor in vitro". Molecular Brain Research. 138 (2): 191-197. doi:10.1016/j.molbrainres.2005.04.009 Skoðað 25. september2014.
 10. Sudati, Jéssie August 2009, „In vitro Antioxidant Activity of Valeriana officinalis Against Different Neurotoxic Agents". Neurochemical Research. 34 (8): 1372-1379.
 11. Stevinson, Clare 2000, „Valerian for insomnia: a systematic review of randomized clinical trials". Sleep Medicine. (2): 91-99. doi:DOI: 10.1016/S1389-9457(99)00015-5
 12. Barton, Debra. L 2012, „The Use of Valeriana Officinalis (Valerian) in Improving Sleep in Patients Who Are Undergoing Treatment for Cancer: A Phase III Randomized, Placebo-Controlled, Double-Blind Study: NCCTG Trial, N01C5.". The journal of supportive oncology. 9 (1): 24-31.
 13. Stephen Bent; Amy Padula, Dan Moore, Michael Patterson, Wolf Mehling desember, „Valerian for Sleep: A Systematic Review and Meta-Analysis". The American Journal of Medicine. 119 (12): 1005-1012. doi:10.1016/j.amjmed.2006.02.026 Skoðað 25. september2014.
 14. Lyfjastofnun. „Jurtir og aðrar lífverur sem hafa verið skoðaðar hjá stofnuninni með tilliti til lyfjalaga nr. 93/1994 með síðari breytingum“, skoðað þann 29.september 2014.
 15. 15,0 15,1 15,2 Stephen Ehlrich. „Valerian“, skoðað þann 24 september 2014.
 16. 16,0 16,1 16,2 16,3 16,4 16,5 National library of medicine. „Valerian“, skoðað þann 24 september 2014.