Fara í innihald

Margrét Þórðardóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Galdra-Manga)

Margrét Þórðardóttir (einnig þekkt í þjóðsögum sem Galdra-Manga) var vestfirsk kona sem uppi var á 17. öld. Hún var ásökuð um galdra og spunnust af því dómsmál. Var Þórður faðir hennar brenndur fyrir galdra. Var hann sakaður um að valda veikindum kvenna og var Galdra-Manga síðar einnig sökuð um það.

Varðveist hefur eiður sem sex eiðsvættiskonur sóru 10. júní 1661 og er hann svohljóðandi:

„Til þess leggur þú hönd á helga bók, og það segir þú guði almáttugum, að þann eið, er Margréti Þórðardóttur var til dæmdur anno 1659 að Kirkjubóli við Steingrímsfjörð fyrir fjögra manna áburð, hana borið hafa fullkomnum galdraverkum, kvennpersónum hér í sveit til meinsemda, hyggið þið eptir ykkar hreinni samvizku áður nefhdri Margréti Þórðardóttur heldur ósæran en særan og greinda Margréti heldur seka en óseka í greindu málí, og þennan eið sverjið þið hvorki fyrir vild né óvild við nokkra persónu, karl eða konu, eður nokkurra muna sakir, heldur alleinasta ykkar samvizku og sannleikans vegna, og að stöfuðum eiði sé ykkur guð hollur, sem satt segið, gramur, ef þið ljúgið.“

Þrátt fyrir galdraáburð 1659 og eiða 1661 var Galdra-Manga ekki brennd. Hún sór af sér galdra þann 18. ágúst 1662 en í þeim vitnisburði segir hún:

„Til þess legg ég Margrét Þórðardóttir hönd á helga bók, og það segi ég almáttugum guði, að ég hefi aldrei, ung né gömul, á allri æfi minni galdur lært, ekki heldur með galdri eða fordæðuskap mein gert eða gera látið nokk(ur)ri karlmanns eða kvenmanns persónu, ungri né gamalli, ekki heldur gripum fénaði, eða fjárhlutum nokkurs manns.“

Margrét er lýst svona: „Er hún svo að yfirlit: Vel að meðalvexti, ljósleit, kinnbeinahá, léttfær og skynsöm í máli. Kveður nærri kvenna best."

Galdra-Manga flýði á náðir prests á Stað á Snæfjallaströnd. Presturinn hét Tómas og var ekkjumaður. Gögn sýna að presturinn hafi greitt sekt fyrir þriðja og fjórða frillulífisbrot sitt og Margrétar og þau hafi þannig átt fjögur börn. Presturinn missti kallið og kvæntist Galdra-Möngu og þau bjuggu á Sandeyri og síðan í Unaðsdal á Snæfjallaströnd. Í manntalinu 1703 býr hún á Lónseyri á Snæfjallaströnd hjá syni sínum.

Bókin Galdra-Manga – Dóttir þess brennda eftir finnska rithöfundinn Tapio Koivukari fjallar um Margréti. Bókin hefur komið út á íslensku og finnsku.