Gálgaás
Gálgaás er klettur á bæjarstæði Egilsstaða. Kletturinn stendur rétt austan við Egilsstaðakirkju og gengur dags daglega undir nafninu Gálgaklettur hjá börnum sem í gegnum tíðina hafa notið þess að bregða á leik í klettunum. Sagan segir að þar hafi Valtýr á grænni treyju bóndi á Eyjólfsstöðum, verið tekinn saklaus af lífi fyrir morð og þjófnað á vinnumanni sem sendur hafði verið til Reykjavíkur með silfur í bræðslu. Fjórtán árum eftir þann atburð fannst rétti morðinginn, sem einnig hét Valtýr og var hann hengdur á sama stað.
Um árabil mátti skoða bein, sem sagt var að væru bein Valtýs, í kassa sem hékk utan á klettinum en nú hefur skjöldur til minningar um þennan atburð leyst þau af hólmi. Jón Björnsson rithöfundur vakti söguna af Valtý á grænni treyju til lífs á ný, með leikgerð sinni af atburðunum, sem sýnd var í Þjóðleikhúsinu.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Jón Árnason (1993). Íslenskar þjóðsögur og Ævintýri. Bókaútgáfan Þjóðsaga - Prentsmiðjan Hólar.
- „Valtýr á grænni treyju“. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. apríl 2009. Sótt 17. mars 2006.