Frank Lloyd Wright
Frank Lloyd Wright (8. júní 1867 – 9. apríl 1959) var áhrifamikill bandarískur arkitekt, rithöfundur og kennari. Hann hannaði yfir 1.000 byggingar á 70 ára ferli. Hann nefndi þá stefnu sem hann fylgdi lífrænan arkitektúr sem fólst í því að hanna í samræmi við mannlíf og umhverfi. Fallvatnsbyggingin í Pennsylvaníu er ágætt dæmi um slíka hönnun, en sú bygging hefur verið kölluð „besti bandaríski arkitektúr fyrr og síðar“.[1] Wright hafði mikil áhrif á arkitektúr um allan heim á 20. öld. Síðari hluta ævi hans ráku hann og eiginkona hans Olgivanna Lloyd Wright vinsælan skóla í andlegum þroska og arkitektúr á heimili þeirra, Taliesin í Wisconsin.[2][3]
Wright var helsti forvígismaður þess sem var kallað Gresjuskólinn í arkitektúr og hann þróaði líka hugmyndina um Úsóníuheimilið og Breiðvangsborgina („Broadacre City“), sem hann sá fyrir sér að ætti að einkenna borgarskipulag í Bandaríkjunum. Hann hannaði meðal annars skrifstofur, kirkjur, skóla, skýjakljúfa, hótel og söfn, með nýrri og frumlegri nálgun. Wright hannað líka innra rýmið (þar á meðal steinda glugga, gólf, húsgögn og jafnvel borðbúnað) í samræmi við heildarútlit byggingarinnar. Hann skrifaði nokkrar bækur um arkitektúr og fjölda greina, og var vinsæll fyrirlesari bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Árið 1991 nefndi stofnunin American Institute of Architects hann „mesta bandaríska arkitekt allra tíma“.[1] Árið 2019 voru nokkur verka hans skráð á Heimsminjaskrá UNESCO sem „20. aldar arkitektúr eftir Frank Lloyd Wright“.
Wright ólst upp í sveit í Wisconsin. Hann lærði verkfræði við Wisconsin-háskóla og gerðist svo lærlingur, fyrst hjá Joseph Lyman Silsbee 1887, og síðan Louis Sullivan 1888. Hann opnaði eigin stofu í Chicago árið 1893 og setti upp vinnustofu á heimili sínu í Oak Park í Illinois 1898. Hann fór frá fyrstu eiginkonu sinni, Catherine Tobin, árið 1909 og hóf sambúð með Mamah Cheney. Hún var myrt ásamt tveimur börnum sínum og fjórum öðrum þegar vinnumaður á heimili þeirra gekk berserksgang með öxi árið 1914. Frank giftist síðar Miriam Noel og að síðustu Olgu Ivanovnu Lazovich Milanoff (Olgivönnu).
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Brewster, Mike (28. júlí, 2004). „Frank Lloyd Wright: America's Architect“. Business Week. The McGraw-Hill Companies. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. mars, 2008. Sótt 22. janúar, 2008.
- ↑ Caves, R. W. (2004). Encyclopedia of the City. Routledge. bls. 777. ISBN 978-0-415-86287-5.
- ↑ A Directory of Frank Lloyd Wright Associates: APPRENTICES 1929 to 1959, jgonwright.net, sótt 10. febrúar, 2021.