Fara í innihald

Frú Ragnheiður

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Frú Ragnheiður er verkefni á vegum Rauða Kross Íslands. Verkefnið var sett á laggirnar árið 2009 á höfuðborgarsvæðinu og byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar.

Tilgangur frú Ragnheiðar er að ná til fólks á jaðri samfélagsins, t.d. fólks sem er húsnæðislaust og fólks sem neytir vímuefna í æð. Hjá Frú Ragnheiði geta notendur þjónustunnar nálgast nýjar nálar, sprautur, nálabox, smokka og annað sem þarf til að draga úr líkum á smiti og sýkingum. Frú Ragnheiður býður einnig upp á heilbrigðisþjónustu. Fólk getur t.d. fengið búið um sár, sýklalyf, nýjar sáraumbúðir, sauma tekna og heilsufarið þess skoðað ef notandi óskar eftir því. Einnig eru veitt ráð um öruggari notkun sprauta og veitt fræðsla varðandi smitleiðir á HIV og lifrarbólgu C og leiðir til að lágmarka hættu á ofskömmtun. Frú Ragnheiður tekur einnig við notuðum sprautum til förgunar í samstarfi við Landspítalann. Notendur þjónustunnar geta nálgast þar hlý föt, næringu, svefnpoka, tjalddýnur, sálrænan stuðning og ráðgjöf. Markmiðið með þjónustunni er að minnka skaðann af aðstæðum fólks, til að aðstoða það við að halda lífi, lágmarka óafturkræfan skaða, draga úr sýkingum og útbreiðslu á lifrarbólgu C og HIV. Með þessu dregur hún með einföldum og ódýrum hætti úr líkum á að seinna skapist þörf á annarri heilbrigðisþjónustu og eykur þannig heilsu og lífsgæði einstaklinga. Á hverri vakt starfar hjúkrunarfræðingur og læknir er á bakvakt.

Bíll Frú Ragnheiðar er innréttaður til að veita þjónustu á vettvangi og á höfuðborgarsvæðinu er veitt þjónusta sex kvöld í viku, öll kvöld nema laugardaga, frá 18:00-21:00. Til þess að mæla sér mót við bílinn og starfsfólk hans er best að hringja í síma 788-7123 eða senda einkaskilaboð á Facebooksíðu Frú Ragnheiðar.

Frú Ragnheiður er einnig starfrækt á Suðurnesjum. Þar er þjónustan veitt á mánudögum og fimmtudögum frá kl. 20-22. Síminn þar er 783-4747.

Á daginn fylgir Frú Ragnheiður málum skjólstæðinga sinna eftir og aðstoðar þau við að koma málum sínum í réttan farveg og að komast í sértækari heilbrigðisþjónustu, vímuefnameðferð og félagslega þjónustu ef þess er óskað.

Frú Ragnheiður heitir nafnleynd og 100% trúnaði og lögð er mikil áherslu á að koma fram við fólk af virðingu, skilningi og væntumþykju.

Rauði Kross Íslands, https://www.raudikrossinn.is/hvad-gerum-vid/fru-ragnheidur/ Geymt 18 janúar 2021 í Wayback Machine (sótt 28. mars 2021)