Fondation Z
Fondation Z' (Verkefni Z) er þrettánda bókin í ritröðinni Sérstakt ævintýri um Sval... (franska Série Le Spirou de…) þar sem ýmsir listamenn fá að spreyta sig á að semja ævintýri um Sval og Val, sem þó teljast ekki hluti hinnar opinberu ritraðar. Bókin kom út árið 2018 og er sköpunarverk höfundarins Cenis-Pierre Filippi og teiknarans Fabrice Lebeault, sem báðir eru franskir. Þótt flestar persónur bókarinnar séu þekktar úr rötröðinni um Sval og Val er sögusviðið gjörólíkt, svo deila má um hvort bókin teljist í raun Svals og Vals-ævintýri.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Sagan gerist í fjarlægri framtíð. Vélmenni eru á hverju strái og fólk fer sinna ferða á fljúgandi farartækjum, auk þess sem mannkynið hefur numið fjarlægar plánetur og komist í kynni við vitsmunalíf þar.
Svalur er ungur og kærulaus lærlingur í eftirlitsstofnun hins opinbera sem fylgist með líftækniglæpum. Faðir hans er strangur og metnaðarfullur yfirmaður stofnunarinnar, sonur Sveppagreifans – frægs vísindamanns, sem nýlega hafði horfið sporlaust. Þótt föðurnum misbjóði leti og sérhlífni Svals, er svarti sauðurinn í fjölskyldunni þó Bitla systir hans. Hún hefur gengið til liðs við andspyrnuhreyfinguna og lifir sem útlagi.
Þótt Svalur sé ekki sammála systur sinni í pólitískum skoðunum, eru þau í samskiptum á laun. Hún reynir að sannfæra hann um að hjálpa sér í við að fletta ofan af hinu dularfulla verkefni Z sem virðist teygja anga sína allt frá æðstu stöðum. Svalur neitar en Bitla stelur aðgangskorti hans til þess að komast í mikilvæg gögn.
Svalur nær aftur í skottið á systur sinni en hún hefur þá uppgötvað með hjálp gæludýrsins Pésa, sem er sérkennilegt loðdýr sem getur brotist inn í flest tölvukerfi, að Svalur er ekki jafn bláeygur þjónn kerfisins og hann vill vera láta. Þvert á móti hefur hann á eigin spýtur aflað mikilla upplýsinga um verkefni Z, munurinn er sá að hann hafnar því að beita ofbeldi eins og andspyrnuhreyfingin.
Þar sem Svalur og Bitla eru að þrátta um hvað gera skuli koma vélmenni aðvífandi með skothríð. Ókunnur maður á loftfari sínu forðar þeim á brott. Þar er kominn Valur, sem er grunsamlega stuttur í spuna. Hann fer með þau á heimili sitt, sem reynist fullt af forngripum frá Jörðinni á sjöunda áratug tuttugustu aldar. Valur er eins og þau að reyna að grafast fyrir hið dularfulla verkefni Z, en grunar að líkt og margir andspyrnumenn hafi hann verið heilaþveginn og rændur minninu – hann vill því komast að því hver hann sé í raun og veru.
Saman halda þau þrjú í leiðangur til annarra reikistjarna, þar sem þau verða vitni að dularfullum og ólöglegum viðskiptum með ræktaðar lífverur, sem minna á löngu horfið lífríki Jarðarinnar. Þar kemur við sögu Sammi frændi, sem Valur telur að sé næstæðsti maðurinn í verkefni Z. Varðmenn uppgötva þau og Bitla er tekin höndum á meðan Svalur og Valur sleppa við illan leik. Þeir halda á tilraunastofu Sveppagreifans og finna þar mikilvægar upplýsingar.
Þeir halda á fund Samma frænda sem fellst á að segja þeim allt það létta. Hann sýnir þeim verkefni Z, sem nefnt var eftir vísindamanninum Zorglúbb sem hafði á laun, með aðstoð Sveppagreifans og fleiri vísindamanna reynt að smíða nákvæma eftirlíkingu af Jörðinni frá seinni hluta tuttugustu aldar, þar sem náttúra og samfélag þess tíma var endurgert í smáatriðum. Markmiðið með þessu leynilega verkefni var að búa til ferðamannastað þar sem hægt væri að upplifa löngu liðna fortíð.
Í miðri frásögninni yfirbugar Sammi frændi félagana tvo og upplýsir að Valur hafi verið tengiliður við stjórnvöld, sem hafi stutt við bakið á verkefni Z til að nýta hina endurgerðu Jörð sem einskonar fangelsi fyrir heilaþvegna andófsmenn og óvini ríkisvaldsins. Sammi ákvað hins vegar að ræna verkefninu. Hann hafði þegar sent Sveppagreifann og Zorglúbb til hinnar tilbúnu plánetu sem vísindamenn, Bitlu í hlutverki hvatvísrar blaðakonu og nú myndu Svalur, Valur og Pési fá sömu örlög sem lyftuvörður á hóteli, spjátrungslegur blaðasnápur og gæluíkorni. Svalur og Valur reyna að sleppa og tekst að láta yfirvöldin hafa hendur í hári Samma, en ekki reyndist unnt að snúa við ferlinu og Svalur og Valur vakna til lífsins í upphafssenu bókarinnar Sveppagaldrar í Sveppaborg.
Fróðleiksmolar
[breyta | breyta frumkóða]- Útlit sögunnar er undir sterkum steam-punk áhrifum, þar sem saman fara framúrstefnuleg tæki og hönnun sem minnir á Viktoríutímann.
- Filippi og Lebeault höfðu áður unnið saman að sögunum Le Croquemitaine sem voru ævintýrasögur sviðsettar í Bretlandi nítjándu aldar.
- Nokkur líkindi má sjá milli sögunnar og Svals og Vals-bókarinnar umdeildu Aux sources du Z, sem lýkur einnig á að Svalur er „skapaður“ af utanaðkomandi öflum og hefur ævintýraferil sinn sem ungur maður.