Fótboltafélagið Falur á heimavelli
Fótboltafélagið Falur á heimavelli (hollenska: F.C. Knudde thuis) er hollensk myndasaga og fyrsta bókin í bókaflokknum um Fótboltafélagið Fal. Hún var samvinnuverkefni íþróttafréttamannsins John le Noble og teiknarans Toon van Driel, sem kalla sig Joop & Toon. Bókin kom út árið 1978.
Söguþráður
[breyta | breyta frumkóða]Sagan hefst við upphaf undirbúningstímabils Fótboltafélagsins Fals fyrir komandi leiktíð í hollensku deildinni. Leikmenn eru einn af öðrum kynntir fyrir hinum nafnlausa þjálfara félagsins, má þar nefna fyrirliðann Berta, markvörðinn Dagsson, varnarjaxlinn Fauta, suður-ameríska framherjann Marínó-Marínó Sólbrendó og ofvitann Baldvin Veitvel. Æfingarnar ganga afleitlega enda leikmennirnir flestir fáráðar eða lánlausir með öllu.
Keppnistímabilið byrjar illa og Falsmenn eru 14:1 undir gegn Hármenningum í leikhléi. Styrktaraðili Fals, Nebbi flippari siðblindur framleiðandi hvers kyns hrekkjatækja, tekur þá málin í sínar hendur. Með hvers kyns bellibrögðum tekst honum að tryggja liði sínu sigurinn í hverri viðureigninni á fætur annarri uns Falsmenn standa uppi sem meistarar.
Íslensk útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Fótboltafélagið Falur á heimavelli var gefin út af Erni og Örlygi árið 1978 í býsna frjálslegri íslenskri þýðingu Ólafs Garðarssonar. Þetta var fyrsta myndasagan sem bókaforlagið gaf út.