Elizabeth Magie

Elizabeth J. Magie Phillips, kölluð Lizzie Magie (fædd 9. maí 1866 í Macomb, Illinois; dáin 2. mars 1948 í Arlington County, Virginíu), var bandarískur leikjahönnuður, rithöfundur og kvenréttindakona. Hún skapaði borðspilið The Landlord's Game („leigusalaspilið“) sem var forveri spilsins Monopoly.
Faðir hennar var James K. Magie, blaðaútgefandi og andstæðingur þrælahalds, sem fylgdi Abraham Lincoln í stjórnmálaherferðum hans um Illinois. Snemma á 9. áratugnum vann hún sem hraðskrifari og vélritari, samdi sögur og ljóð, lék á sviði og fékkst við verkfræði. Árið 1906 hóf hún störf sem blaðamaður.[1]
Lizzie Magie hannaði borðspil sem endurspegluðu stjórnmálaskoðanir hennar, sem byggðust á kenningum Henry George.[2] The Landlord's Game var upphaflega með tvenns konar reglum þar sem markmiðið var annars vegar að eignast iðnfyrirtæki og komast í einokunarstöðu (sem var kallað Monopoly), og hins vegar að vinna með öðrum leikmönnum til að hrinda einokun fyrirtækja (sem var kallað Prosperity). Markmið hennar var að sýna fram á óréttlæti leigutekna sem byggðust á einokun og fákeppni. Þann 5. janúar 1904 fékk hún einkaleyfi nr. 748,626 fyrir þetta spil.[3]
Árið 1910 giftist hún Albert Phillips og þau settust að á austurströnd Bandaríkjanna. Árið 1924 fengu þau nýtt einkaleyfi fyrir endurskoðaða útgáfu spilsins.[4] Með því endurheimtu þau stjórnina yfir útgáfu spilsins sem var vinsælt meðal háskólanema sem gerðu sínar eigin útgáfur af því.
Árið 1932 keyptu Parker Brothers, sem gáfu út Monopoly árið 1904, einkaleyfið hennar fyrir 500 bandaríkjadali.[2] Charles Darrow var eignuð hugmyndin að spilinu og framlag Magie var lítt þekkt. Löngu síðar, eða 1973, bjó hagfræðingurinn Ralph Anspach til spilið Anti-Monopoly og uppgötvaði í kjölfarið einkaleyfi Magie þegar hann stóð í málaferlum við Parker Brothers út af spilinu.[1]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „Monopoly's Inventor: The Progressive Who Didn't Pass 'Go' (Published 2015)“ (enska). 13 febrúar 2015. Sótt 6 ágúst 2023.
- ↑ 2,0 2,1 „The True History of the Monopoly Game“. www.henrygeorge.org. Sótt 6 ágúst 2023.
- ↑ US748626A, "Game-board", gefið út 1904-01-05
- ↑ US1509312A, Magie, Phillips Elizabeth, "Game board", gefið út 1924-09-23