Fara í innihald

Elinóra Kastilíudrottning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Elinóra Kastilíudrottning.

Elinóra af Englandi (13. október 116231. október 1214) var ensk konungsdóttir og síðar drottning Kastilíu og Tóledó. Þar nefndist hún Leonor.

Elinóra var næstelsta dóttir Hinriks 2. Englandskonungs og Elinóru af Akvitaníu, og systir konunganna Hinriks unga, Ríkharðs ljónshjarta og Jóhanns landlausa. Fjórtán ára að aldri var hún gift Alfons 8. Kastilíukonungi, sem var sjö árum eldri, og var markmiðið með hjónabandinu að tryggja suðurlandamæri Akvitaníu.

Elinóra var sú dætra Elinóru af Akvitaníu sem þótti líkjast móður sinni mest hvað varðaði stjórnvisku og stjórnunarhæfileika. Hún var næstum jafnvaldamikill og maður hennar og hann mælti svo fyrir í erfðaskrá sinni að hún skyldi stýra ríkinu með syni þeirra. Hjónaband þeirra virðist hafa verið mjög gott. Alfons dó 5. október 1214 og Elinóra var að sögn svo miður sín að hún gat ekki stýrt útförinni. Hún veiktist svo og dó 28 dögum á eftir manni sínum.

Aðeins einn af sonum Elinóru og Alfons lifði þau, Hinrik (f. 1204). Þar sem móðir hans dó svo skömmu á eftir manni sínum kom það í hlut elstu systur hans, Berengaríu, að vera ríkisstjóri. Svo fór að Hinrik tók aldrei við krúnunni því að hann varð fyrir tígulsteini sem féll af húsþaki og dó 6. júní 1217. Berengaría erfði þá krúnuna. Hún hafði verið gift Alfons 9. af León en hjónaband þeirra var ógilt 1204. Hún sagði raunar samstundis af sér og Ferdínand 3. sonur hennar tók við ríkjum í Kastilíu.

Af öðrum dætrum Elinóru og Alfons má nefna Urraca, drottningu Portúgals, kona Alfons 2., Blanka, drottning Frakklands, kona Loðvíks 8. og Leonor, drottning Aragóníu, kona Jakobs 1.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]