Samstarfsverkefni opinberra aðila og einkaaðila

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Einkaframkvæmd)
Samstarf um rekstur innviða neðanjarðarlestarkerfisins í London frá 2003 fór illa þar sem mikill kostnaður féll á skattgreiðendur eftir gjaldþrot félagsins sem var stofnað um reksturinn og enduryfirtöku opinbera fyrirtækisins Transport for London árið 2007.

Samstarfsverkefni opinberra aðila og einkaaðila (enska: Public-private partnership, PPP eða P3) er verkefni þar sem ríki eða sveitarfélag gera samning við einkafyrirtæki um samstarf. Einkum á þetta við þar sem um er að ræða uppbyggingu innviða. Einkaaðilinn tekur þá á sig stóran hluta áhættunnar vegna fjárhagslegrar afkomu verkefnisins, tækniþróunar og framkvæmda og fær á móti tækifæri til að endurheimta kostnaðinn í afmarkaðan tíma með einkaleyfi á sölu, leigu eða innheimtu notendagjalda. Stundum veitir hið opinbera styrki eða flytur eignir til einkaaðilans til að draga úr áhættu hans eða gengst í ábyrgð fyrir lánum vegna verkefnisins. Oft eru stofnuð félög með sérstakan tilgang utan um slík verkefni með þátttöku fjármögnunaraðila, eins og banka.

Vinsældir slíkra samstarfsverkefna má rekja til takmarkana á skuldsetningu hins opinbera í upphafi 10. áratugar 20. aldar. Þau hafa verið gagnrýnd fyrir að draga úr gagnsæi í ríkisrekstri, fyrir að skapa hærri heildarkostnað fyrir skattgreiðendur þar sem krafa einkafyrirtækja um ávöxtun fjárfestingar er hærri en ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa og fyrir að vera í reynd einkavæðing þar sem tímamörk einkaleyfisins eru ekki virt heldur framlengd aftur og aftur.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.