Fara í innihald

Einar Benediktsson (ábóti)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Einar Benediktsson (d. 1524) var íslenskur prestur og síðan ábóti í Munkaþverárklaustri og rak þar jafnframt skóla. Ætt hans er óþekkt þótt ýmsar tilgátur hafi verið settar fram.

Einar var prestur á Hólum 1466. Árið 1471 fékk hann Grenjaðarstað og var þar prestur til 1476 en fluttist þá í Skinnastað og var prestur þar í 20 ár, eða þar til hann varð ábóti á Munkaþverá 1496 eftir lát Jóns ábóta. Jafnframt voru honum veitt prestaköllin Hrafnagil, Kaupangur og Illugastaðir.

Einar ábóti var vel menntaður og hélt skóla í klaustrinu. Einn nemenda hans þar var Jón Arason, síðar biskup, sem þá bjó hjá Elínu móður sinni í kotinu Grýtu skammt frá Munkaþverá, og lifði Einar það að sjá þennan lærisvein sinn setjast í biskupsstólinn á Hólum.

Fylgikona Einars á meðan hann var prestur var Guðrún Torfadóttir, sem var dóttir Torfa Arasonar hirðstjóra og konu hans Akra-Kristínar Þorsteinsdóttur, sem voru í hópi auðugustu hjóna landsins á sinni tíð. Alsystir Guðrúnar var Málmfríður, kona Finnboga Jónssonar Maríulausa, lögmanns í Ási í Kelduhverfi, og hálfsystir hennar Ingveldur Helgadóttir, kona Þorleifs Björnssonar hirðstjóra, svo óhætt er að segja að Einar hafi verið nátengdur helstu höfðingjaættum landsins og hlýtur sjálfur að hafa verið höfðingjasonur.

Einar dó 1524 og tók sonur hans, Finnbogi Einarsson, við ábótadæminu á Munkaþverá.

  • „Munkaþverár-klaustur. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
  • „Munkaþverárklaustur. Sunnudagsblaðið, 10. apríl 1966“.