Einar Ísleifsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Einar Ísleifsson (d. 1487) var ábóti í Munkaþverárklaustri frá 1435 til dauðadags, eða í meira en hálfa öld. Á ábótatíð hans blómstraði klausturlíf að nýju eftir að hafa verið í djúpri lægð eftir Svarta dauða og auðgaði Einar klaustrið mikið.

Einar var sonur hjónanna Ísleifs beltislausa Ísleifssonar og Elínar Oddnýjardóttur. Systir hans var Þóra brók Ísleifsdóttir en dóttir hennar var Elín bláhosa Magnúsdóttir, móðir Jóns Arasonar biskups, og var Einar því ömmubróðir hans. Hann var orðinn munkur 1434 og hefur varla verið fæddur seinna en 1405, þar sem hann var orðinn ábóti 1435 og hlýtur þá að hafa verið orðinn þrítugur að minnsta kosti.

Einar var mikill fjáraflamaður og kemur víða við skjöl á 15. öld, þar sem hann er að kaupa og selja eignir fyrir hönd klaustursins. Á hans tíð eignaðist klaustrið meðal annars Ærlæk í Öxarfirði og var þar síðan rekið bú á vegum klaustursins. Skjalfest var 1484 að undir stjórn Einars hefði klaustrið auðgast um 260 hundruð í jarðeignum og lausafé, og var það geysimikið fé. Og enn bættist við, því árið 1485 fékk klaustrið það sem eftir var af Vaglaskógi.

Einar er talinn hafa dáið um áramótin 1487-1488. Eftirmaður hans hét Jón. Jón Arason ólst upp hjá móður sinni í kotbýlinu Grýtu skammt frá Munkaþverá og er oft sagt að þau hafi verið þar í skjóli Einars ábóta en hann dó þó þegar Jón var þriggja ára og á undan Ara föður Jóns.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Munkaþverár-klaustur. Tímarit hins íslenska bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.
  • „Munkaþverárklaustur. Sunnudagsblaðið, 10. apríl 1966“.