EN 13537
EN 13537 er evrópskur staðall, sem ætlað er að samræma mælingar á kuldaþoli svefnpoka, sem framleiddir eru og/eða seldir í Evrópu. Staðallinn fékk fullgildingu 1. janúar 2005 hjá Staðlaráði Evrópu og nota framleiðendur staðalinn til þess að prófa svefnpoka og birta upplýsingar um kuldaþol þeirra.
Merking svefnpoka
[breyta | breyta frumkóða]Formlega nefnist staðallinn „EN 13537:2002 Requirements for Sleeping Bags“. Hann nær til allra svefnpoka nema þeirra sem ætlaðar eru til notkunar af hermönnum og svefnpoka með þægindamörk fyrir neðan -25° C. Staðallinn hefur fengið fullgildingu í flestum löndum Evrópu og er einnig notaður af fjölmörgum framleiðendum annars staðar í heiminum. Alla svefnpoka sem merktir eru samkvæmt staðlinum þarf að prófa með samræmdum aðferðum á rannsóknastofu. Þetta þýðir að svefnpokar frá mismunandi framleiðendum hafa allir sambærilegar hitatölur séu þeir prófaðir samkvæmt staðlinum EN 13537.
Prófanir
[breyta | breyta frumkóða]Mælingar samkvæmt staðlinum EN 13537 eru gerðar með mælitækjum sem birta fjórar mismunandi niðurstöður. Efri mörk, þægindamörk, lægri mörk og ystu mörk. Tölurnar eiga að lýsa upplifun venjulegra notenda af hitastigi í svefnpokum við ýmsar aðstæður.
Niðurstöðurnar fjórar eru túlkaðar með eftirfarandi hætti.
- Efri mörk — er hitastigið sem venjulegur maður getur sofið við án þess að svitna mikið. Mælingin er gerð með hettuna og rennilása opna og með handleggi fyrir utan svefnpokann.
- Þægindamörk — er hitastigið sem venjuleg kona getur búist við að sofa vel við í afslappaðri stellingu.
- Lægri mörk — er hitastigið sem venjulegur karlmaður getur sofið við í átta klukkutíma í hnipri án þess að vakna.
- Ystu mörk — er lægsti hitinn sem venjuleg kona getur haldið út í sex klukkustundir án þess að látast úr ofkælingu. Mögulegt er að viðkomandi verði fyrir kali.
Í þessum mælingum er miðað við að "venjulegur karlmaður" sé 25 ára gamall, 1,73 m hár og vegi 73 kg. „Venjuleg kona“ er 25 ára gömul, 1,60 m að hæð og 60 kg þung.