Fara í innihald

Draumurinn um rauða herbergið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Myndskreyting við söguna eftir Xu Baozhuan (1810–1873).

Draumurinn um rauða herbergið (kínverska: Honglou Meng) eða Sagan um steininn (Shitou Ji) er kínversk skáldsaga sem var samin um miðja 18. öld. Sagan, sem er eignuð Cao Xueqin, er almennt talin eitt merkasta bókmenntaverk á kínversku. Hún er ein af sígildu kínversku skáldsögunum fjórum. Hún er þekkt fyrir sálræna dýpt og lýsingar á heimsmynd, lífstíl og samfélagi 18. aldar.[1]

Söguþráðurinn er margþættur og lýsir uppgangi og hnignun aðalsfjölskyldu, sem líkist fjölskyldu Caos sjálfs. Örlög fjölskyldunnar endurspegla örlög keisaraveldisins. Cao lýsir því valdi sem faðirinn hefur yfir fjölskyldunni, en sögunni er ætlað að vera minnisvarði um konur sem hann kynntist í æsku sem vinkonum, frænkum og þjónustustúlkum. Í sögunni veltir höfundur fyrir sér trúarlegum og heimspekilegum spurningum, og ritstíllinn minnir á leikrit og skáldsögur frá tímum Mingveldisins, og kveðskap frá enn eldri tíma.[2]

Cao hóf að semja söguna á 5. áratug 18. aldar og vann að henni þar til hann lést 1763 eða 1764. Sagan gekk í handritum meðal vina Caos og var kölluð Sagan um steininn í ýmsum útgáfum með um það bil 80 kafla. Hún kom ekki út á prenti fyrr en þremur áratugum eftir dauða Caos, þegar fyrsta og önnur útgáfa komu út undir titlinum Draumurinn um rauða herbergið 1791-1792 með 40 köflum til viðbótar. Þessi útgáfa með 120 köflum varð svo útbreiddasta útgáfan.[3] Titillinn hefur líka verið þýddur sem Draumurinn um rauða herragarða. Til er sérstök fræðigrein, „rauðfræði“, sem gengur út á rannsóknir á bókinni.

Bókin er samin á alþýðukínversku fremur en klassískri kínversku. Cao Xueqin var vel að sér í kínverskri ljóðlist og klassískri kínversku, en skrifaði söguna á Beijing-mállýsku. Snemma á 20. öld var bókin notuð til að búa til staðlaða kínversku og hvetja til notkunar alþýðumáls í ritaðri kínversku.[4]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „CliffsNotes, About the Novel: Introduction“. Cliffsnotes.com. Sótt 2. nóvember 2017.
  2. Jonathan Spence, The Search for Modern China (New York: Norton, 1990), 106–110.
  3. David Hawkes, "Introduction", The Story of the Stone Volume I (Penguin Books, 1973), pp. 15–19.
  4. „Vale: David Hawkes, Liu Ts'un-yan, Alaistair Morrison“. China Heritage Quarterly of the Australian National University.
  Þessi bókmenntagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.