Fara í innihald

Diskheimur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Diskheimsbækurnar)

Diskheimur (enska: Discworld) er röð gamansamra ævintýrabóka eftir breska rithöfundinn Terry Pratchett. Sögusvið bókanna er hinn svonefndi Diskheimur, sem er flöt jörð sem hvílir á baki fjögurra fíla sem standa á baki risavaxinnar skjaldböku sem nefnist Great A'Tuin.

Diskheimsbækurnar eru m.a. nokkurs konar skopstæling á verkum rithöfunda á borð við J.R.R. Tolkien, Robert E. Howard, H.P. Lovecraft og William Shakespeare, sem og goðsögnum, þjóðsögum og ævintýrum. Ádeila og skopstæling á samtímamenningu kemur þar einnig oft fyrir eins og rokktónlist í Soul Music eða sammannlegum hlutum einsog prentfrelsi sem var tekið fyrir í bókinni The Truth eða stríði í Jingo.

Frá því fysta bókin, The Colour of Magic (1983), kom út hefur bókaröðin getið af sér fjórar smásögur, teiknimyndir og leiki, og jafnvel aðrar bækur og tónlist. Fyrsta leikna sjónvarpsmyndin (Terry Pratchett's Hogfather) var frumsýnd á sjónvarpsstöðinni Sky One um jólin 2006.[1] Kvikmynd eftir bókinni The Wee Free Men er í undirbúningi.

Undanfarin ár hafa nýútkomnar Diskheimsbækur iðulega komist á topp metsölulista The Sunday Times, og gerðu Pratchett að söluhæsta rithöfundi Bretlands á tíunda áratug 20. aldarinnar, en J.K. Rowling, höfundur bókanna um Harry Potter, selur núorðið fleiri bækur. Bókum Pratchetts er þó ennþá oftast stolið úr bókabúðum.[2]

Tvær bækur í Diskheimsröðinni hefur komið út í íslenskri þýðingu en Tónleikur gaf út Litbrigði galdranna (e. The Colour of Magic) árið 2007 í þýðingu Jóns Daníelssonar (f. 1949). Önnur bók, Furðuljósið (e. The Light Fantastic) kom út næsta ár hjá Tónleik í þýðingu Jóns og Hildar Sifjar Thorarensen.

Eitt leikrit hefur verið sett upp hér á landi, byggt á Diskheimsbók, Wyrd Sisters. Leikritið var nefnt Örlagasystur á íslensku og var sett upp af Leikfélagi Menntaskólans við Hamrahlíð.

  1. „Terry Pratchett's Hogfather á Sky One“. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. júlí 2007. Sótt 7. ágúst 2007.
  2. The Scotsman: Pratchett casts a bitter spell on rivals